Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 19:02:37 (1771)

1996-12-03 19:02:37# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[19:02]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er alltaf ánægja af því að svara mínum ágæta gamla nemanda þegar hann fer með tölur af því ég tel að mér hafi látið ágætlega að kenna honum þegar hann var í skóla hjá mér í gagnfræðadeild Hlíðaskóla á sínum tíma. Það mun vera rétt hjá honum að fjöldi ASÍ-starfsmanna er eitthvað í kringum 7 þúsund manns. Það er líka rétt hjá honum og hefur verið ljóst lengi að lífeyrisréttur þeirra er lakari en ríkisstarfsmanna. En það er hins vegar ekki rétt hjá honum að kalla fram launamun á einhverjum tilteknum stuttum tíma og segja að hann sanni að nú eigi að hækka annan hópinn á kostnað hins. Það verður að fara mjög langt aftur og skoða það rækilega og nákvæmlega og vísindalega, kannski áratugi aftur eða alveg frá því þessi lífeyriskerfi urðu til, til þess að sjá hver breytingin hefur verið. Sannleikurinn er sá, og það veit ég að hv. þm. er sammála mér um, að það liggur í eðli hlutanna að þegar kreppa er í þjóðfélaginu þá hækka laun á almennum vinnumarkaði minna en laun ríkisstarfsmanna en um leið og þensla verður má gera ráð fyrir hinu gagnstæða. Þetta liggur í því að kjarasamningar opinberra starfsmanna eru þess eðlis að þar er verið að semja um kaup og kjör og laun sem borgað er eftir en á hinum almenna vinnumarkaði er verið að semja um lágmarkslaun en síðan geta vinnuveitendur og einstakir launþegar komið sér saman um hvers konar launabreytingar sem þeim sýnist. Hagsaga Íslands sýnir okkur að það er ekki nóg að skoða örfá ár --- menn verða að fara langt aftur í tímann og þá er ég ekki viss um að niðurstaðan verði sú sama og ef skoðuð eru örfá síðustu árin. En ég get vel ímyndað mér að opinberir starfsmenn hafi fengið sæmilegar launahækkanir á undanförnum árum. Ég hef að minnsta kosti haldið því fram þótt ekki séu allir sammála mér í þeim efnum.