Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 19:05:58 (1773)

1996-12-03 19:05:58# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[19:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg nú að menn þurfi að ræða þetta betur á fundum hjá Alþb. og óháðum hvort menn séu sammála þessari túlkun og yfirleitt sammála þessari skoðun sem kom fram hjá hv. þm. um þetta mál. En ég las um daginn ágæta grein í Vísbendingu sem þingmenn fá. Þar var verið að lýsa því að nú allt í einu hefðu ýmsir séð að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna væru betri en annarra og þá væri allt í einu farið að gera út á þetta og segja: Nú þarf að jafna þessi réttindi og þetta liggi bara í hlutarins eðli. Fyrirsögnin á þessari grein var ,,Blindir fá sýn`` og það er nákvæmlega það sem hefur gerst. Með því að stilla málinu eins og gert er í þessu frv. þá er það orðið gagnsætt hve lífeyrisréttindin eru betri hjá opinberum starfsmönnum en öðrum. Það er mikilvægur áfangi í mörgum skilningi.