Aðgerðir gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 13:34:04 (1775)

1996-12-04 13:34:04# 121. lþ. 34.1 fundur 91. mál: #A aðgerðir gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá samstrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[13:34]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Petrína Baldursdóttir bar fram á Alþingi í október tvær fyrirspurnir varðandi útlendingaandúð eða kynþáttafordóma. Það hefur komið í minn hlut að fylgja þeim úr hlaði þar sem henni gafst ekki tækifæri til að fylgja þeim eftir sjálf.

Varðandi þá spurningu hvort unnið væri eftir verkefnaáætlun gegn útlendingaandúð í skólum landsins hefur menntmrh. upplýst að engin slík verkefnaáætlun sé í skólum, einungis sú markmiðssetning í lögum um grunnskóla að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar. Jafnframt að við endurskoðun aðalnámskrár verði þessi lagaákvæði túlkuð. Sú spurning sem hér er borin fram er um átakið ,,Norðurlönd gegn útlendingaandúð`` og hvað hafi verið gert hér á landi.

Virðulegi forseti. Mér er ekki óljúft að fylgja þessari spurningu eftir fyrir Petrínu Baldursdóttur því sem formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs á sínum tíma var ég einn af frumkvæðisaðilum málsins. Þetta átak tengdist tilsvarandi átaki Evrópuráðsins og á sínum tíma bar þessar ákvarðanir ráðanna á góma í umræðum um utanríkismál á Alþingi og bundnar voru væntingar við framkvæmd þeirra.

Í allri Evrópu hefur það vakið ugg og óhug hversu þeim sem hafa uppi áróður gegn útlendingum og sýna kynþáttafordóma hefur vaxið fiskur um hrygg. Norðurlandaþjóðirnar leggja áherslu á að innflytjendur og flóttafólk finni sinn sess í samfélaginu, að því og menningu þess sé sýnd virðing. Nágrannar okkar hafa haft af því verulegar áhyggjur að þessir hópar hafa átt undir högg að sækja. Umræðan leiðir í ljós áhyggjur af vexti og fyrirferð útlendingahaturs. Með sérstöku átaki eða herferð birtist vilji til að vinna gegn því að útlendingaandúð og kynþáttafordómar festi sig í sessi með þjóðunum. Í undirbúningi átaksins var talið þýðingarmikið að skólar á Norðurlöndum og kennarar yrðu virkjaðir. Jafnframt yrði athugað með námsefni. Þarna væri unnt að hafa mikil áhrif.

Við höfum opnað landið okkar fyrir nýbúum og mörg ættleidd börn af framandi kynþáttum hafa borist í faðm eftirvæntingarfullra foreldra hérlendis. Við stöndum frammi fyrir þeirri áleitnu spurningu hvort við Íslendingar séum fordómalausir gagnvart öðrum kynþáttum. Hér hafa gerst þeir atburðir, m.a. hér handan Austurvallar er hörundsdökkum manni var meinaður aðgangur að skemmtistað, að full ástæða er til að taka á að efla skilning ungra og aldinna og vinna gegn fordómum, ekki síst uppvaxandi kynslóðar. Því er spurt: Hvernig komum við Íslendingar að norræna átakinu? Og þá ekki síður: Hvernig munum við fylgja því eftir heima fyrir? Það var eitt af meginmarkmiðum að virkja til átaks sem fylgt yrði eftir í þjóðlöndunum á ýmsan hátt.