Aðgerðir gegn útlendingaandúð

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 13:42:28 (1778)

1996-12-04 13:42:28# 121. lþ. 34.1 fundur 91. mál: #A aðgerðir gegn útlendingaandúð# fsp. (til munnl.) frá samstrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka samstarfsráðherra Norðurlanda fyrir þessi svör og ég vil jafnframt taka undir athugasemdir hv. þm. Svavars Gestssonar um að þetta alvarlega mál verði tekið upp af almannavaldinu.

Varðandi svörin frá ráðherra þá er það strax eitt sem vekur athygli. Evrópulestin og sjónvarpsþáttur um lestina eru mál sem vöktu athygli og komu í fjölmiðlum og einhverja vitnesku höfðum við um ritgerðasamkeppnina og það er mjög gott mál að hafa haft ráðstefnu fyrir æskulýðsfulltrúa og ritgerðakeppnir. En það er mjög mótandi að sýna myndbönd eða taka sjónvarpsþætti til sýningar. Ég hef heyrt af þessum myndböndum og hef skilið það þannig að annað sé sjónvarpsþáttur en hitt sé myndband til þess að setja í umferð og slíkt myndband mundi ég telja að ætti erindi inn í skóla landsins sé það þannig úr garði gert að það sé upplýsandi og fræðandi og til þess fallið að höfða til barna eða unglinga. Ég heyri á ráðherra að í júní var kallað eftir því að tillögur um frekari samnorrænar aðgerðir yrðu e.t.v. gerðar. En það sem ég er að kalla eftir með því að fylgja eftir fyrirspurn Petrínu Baldursdóttur hér í dag er: Hvað ætlum við að gera á Íslandi? Hvernig vakti þetta átak okkur til vitundar um það sem þarf að gera hjá okkur óháð því hvað Norðurlöndin gera saman? Og það er alvarlegt að heyra að sjónvarpsþáttur sem unninn var og sýndur, eftir því sem ég hef upplýsingar um, sl. haust og vor eða vetur á hinum Norðurlöndunum skuli enn ekki hafa verið tekinn til sýningar hjá sjónvarpinu og að ekkert sé að frétta hvernig myndbandið verður notað.