Frákast á afla fiskiskipa

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 13:47:47 (1781)

1996-12-04 13:47:47# 121. lþ. 34.3 fundur 167. mál: #A frákast á afla fiskiskipa# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Frákast á afla fiskveiðiflotans innan og utan fiskveiðilögsögunnar er mikið rætt meðal manna, enda er hér um mjög alvarlegt mál að ræða sem varðar umgengni og nýtingu okkar helstu auðlinda sem eru fiskstofnarnir í hafinu. Það er viðurkennd staðreynd að veiddum afla er kastað í sjóinn í einhverjum mæli, en menn greinir mjög á um hve mikið magn sé að ræða. Ýmsar frásagnir hafa komið fram um þessi mál, einstaka sjómenn hafa sagt frá sinni reynslu og myndefni hefur komið fram í fjölmiðlum sem sýnir hvernig afla er kastað í hafið. Það er viðurkennd staðreynd að þetta á sér stað og leiða má líkur að því að langmest af þeim fiski sem kastað er drepist og þar með er í raun verið að veiða úr fiskstofnum umfram það sem gert er ráð fyrir við stjórn fiskveiða hvað leyfilegan heildarafla varðar.

Þegar leitað er skýringa á því af hverju þetta á sér stað eru ýmsar ástæður nefndar. Sumir vilja kenna fiskveiðistjórnunarkerfinu um en aðrir nefna aðrar ástæður. Ekki er hægt að segja að fiskveiðistjórnarkerfið valdi þessu eitt og sér því að útgerðir eiga að geta stjórnað veiðum út frá sínum veiðiheimildum þannig að við veiðar á einni fisktegund sé borð fyrir báru með aðrar tegundir sem meðafla. Þá má einnig benda á að við veiðar skipa utan fiskveiðilögsögunnar mun afla vera kastað í einhverjum mæli oft og tíðum ef marka má frásagnir sjómanna og þar gildir ekkert kvótakerfi.

Herra forseti. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Útgerðin í landinu hefur í umboði þjóðarinnar heimildir til þess að nýta auðlindir í hafinu sem eru sameign þjóðarinnar. Það er því eðlileg krafa þjóðarinnar að vel sé gengið um auðlindina og henni sýnd tilhlýðileg virðing. Það að kasta veiddum fiski í hafið samrýmist því ekki. Í tengslum við stjórn fiskveiða og ákvarðanir um leyfilegan heildarafla hverju sinni er eðlilegt að velta því fyrir sér hvort og hvernig fiskifræðingar taka tillit til frákasts á afla í forsendum sinna tillagna um heildarafla. Þetta hlýtur að skipta máli þar sem ein af forsendum fiskifræðinga við mælingar á stofnstærðum eru aflaskýrslur fiskveiðiflotans. Ef afli sem kastað er á hafi úti er ekki talinn með eða hann vanmetinn í forsendum fiskifræðinga má leiða líkur að því að veiðistofnar séu vanmetnir og leyfilegur heildarafli verði þar með minni en vera mætti.

Herra forseti. Á þskj. 184 legg ég fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh.:

1. Hefur ráðuneytið látið gera úttekt á hve miklum veiddum afla er kastað af fiskiskipum í hafið í stað þess að færa hann að landi eins og lög gera ráð fyrir?

2. Ef upplýsingar liggja fyrir, hvaða aflatölur er um að ræða?

3. Ef upplýsingar liggja ekki fyrir, hefur ráðherra þá áform um að lagt verði mat á frákast á afla?

4. Taka fiskifræðingar tillit til áætlaðs frákasts á afla fiskiskipa við gerð tillagna um leyfilegan heildarafla einstakra fisktegunda?