Fornminjarannsóknir í Reykholti

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:10:05 (1789)

1996-12-04 14:10:05# 121. lþ. 34.4 fundur 168. mál: #A fornminjarannsóknir í Reykholti# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:10]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og þakka hv. þingmönnum sem hafa talað fyrir undirtektir þeirra og áhuga þeirra á málinu. Það er greinilegt að talsverður áhugi er á því að taka á þessum fornleifamálum, fornleifarannsóknum og fornleifaskráningu og það er fagnaðarefni sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vesturl. í þeim efnum að að þessum málum er unnið.

Ég held þó að veruleikinn sé sá að við þurfum á því að halda að Þjóðminjasafnið standi hina faglegu vakt og geri áætlanir til lengri tíma um þessi efni. Það er skoðun margra fornleifafræðinga að fornleifar séu best geymdar í jörðinni vegna þess að oft á tíðum vilji henda þær slys að þegar þær eru komnar upp úr henni eins og kunnugt er og það er sjónarmið út af fyrir sig. Ég held þó að það verði að viðurkenna að þarna vantar samþættingu þessarar stefnumótunar til lengri tíma, bæði að því er varðar fornleifarnar annars vegar og hins vegar tengsl þeirra sérstaklega og fornleifarannsóknanna við sögustaðina til þess að gera þessa hluti, fornleifarannsóknirnar og gömlu söguna alla, lifandi í augum þjóðarinnar. Ég held að það eigi að taka á því máli alveg sérstaklega út af fyrir sig. Og ég man ekki betur en að um það hafi verið fluttar þingsályktunartillögur, m.a. af þingmönnum Kvennalistans eða öðrum þingmönnum fyrir nokkrum árum, um þau efni að tengja þetta ferðamannaiðnaðinum sérstaklega. Aðrir þingmenn hafa einnig flutt svipuð mál þannig að mér sýnist að það sé áhugi á málinu hér og ég vil láta það koma fram að þó að ég sé ánægður með umræðuna, þá er ég ekki ánægður með svar Þjóðminjasafnsins.