Móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:14:01 (1791)

1996-12-04 14:14:01# 121. lþ. 34.5 fundur 169. mál: #A móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Það er gjarnan sagt að Ríkisútvarpið sé útvarp allra landsmanna og ríkissjónvarpið sé sjónvarp allra landsmanna. Nú er það hins vegar svo að landsmenn virðast ekki allir sitja við sama borð hvað varðar aðstöðu til hlustunar á rás Ríkisútvarps og móttöku sjónvarpssendinga ríkissjónvarpsins. Þá virðist öryggi hlustunar- og móttökuskilyrða vera misjafnt eftir svæðum landsins. Samt sem áður sitja landsmenn allir við sama borð þegar kemur að innheimtu afnotagjalda til Ríkisútvarpsins.

Sveitarstjórnir og aðrir aðilar á Vesturlandi hafa gert athugasemdir þess efnis að aðstaða til hlustunar og móttöku Ríkisútvarps og sjónvarps séu ekki viðunandi á ákveðnum svæðum í kjördæminu. Þá hafa einnig verið gerðar athugasemdir þess efnis að til að mynda hlustunarskilyrði útvarps séu ekki nægilega örugg á ákveðnum svæðum, t.d. þegar verstu veður geisa á vetrardögum. Þar með geti þetta ástand varðað öryggi fólks á viðkomandi svæðum. Þess vegna spyr ég hæstv. menntmrh. á þskj. 186:

,,Hefur verið gerð úttekt á móttöku- og hlustunarskilyrðum Ríkisútvarpsins, Rásar 1 og 2 og sjónvarpsins, á Vesturlandi?``