Afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:27:50 (1799)

1996-12-04 14:27:50# 121. lþ. 34.6 fundur 170. mál: #A afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:27]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil mótmæla því í upphafi að ég hafi brotið grunnskólalögin með þeirri reglugerð sem til var vitnað. En spurt er:

,,Hver er tilgangur þess að heimila að öðrum en skólayfirvöldum, nemendum og forráðamönnum þeirra verði afhentar niðurstöður úr samræmdum prófum í grunnskóla, en í vetur hafa þegar verið haldin samræmd próf í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk?``

Tilgangurinn með því að kveða á um í reglugerð að sá aðili, er falið er að sjá um framkvæmd prófanna, skuli eigi síðar en þremur mánuðum eftir að próf eru haldin gefa út yfirlit yfir heildarniðurstöður samræmdra prófa og dreifa til grunnskóla, foreldraráða, framhaldsskóla og fræðsluyfirvalda er sá að gera umræðu um niðurstöðu samræmdra prófa markvissari en verið hefur og gera auðveldara fyrir almenning að átta sig á stöðu einstakra skóla. Slíkt leiðir til opinnar umræðu um einstaka skóla og getur leitt til umbóta í skólastarfi ef nægilegra skýringa er leitað. Þessi afstaða leiðir enn fremur af grundvallarviðmiðun upplýsingalaganna um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Auk þess var áður en þetta ákvæði var sett í reglugerðina leitað álits umboðsmanns barna um málið sem taldi að með þessu væri alls ekki verið að vega að rétti barna. Þvert á móti mætti komast þannig að orði að það væri réttur barna að þessar upplýsingar lægju fyrir.

Í öðru lagi er spurt:

,,Gerir ráðherra ráð fyrir að foreldrum verði gert kleift að flytja börn sín milli skóla ef niðurstaðan verður sú að skólar verða dæmdir góðir eða slæmir eftir samanburð á niðurstöðum úr samræmdum prófum?``

Samkvæmt 13. gr. grunnskólalaga ber skólanefnd að sjá til þess að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu. Komi upp sú staða að foreldrar óski eftir flutningi milli skóla er það alfarið í höndum viðkomandi sveitarstjórnar hvort hægt er að verða við óskum foreldra þar að lútandi. Jafnframt má benda á að ýmsar aðrar ástæður geti haft áhrif á val foreldra um skóla, en einkunnir á samræmdum prófum. Því er engin ástæða til að ætla að niðurstöður samræmdra prófa einar sér hafi áhrif á val foreldra. Til dæmis getur andrúmsloft innan skólans, líðan barna, ýmsar aðstæður, félagahópur, sérkennsla og sérfræðiþjónusta einnig haft afgerandi áhrif en nauðsynlegt er að fram fari opin umræða um gæði skóla á öllum sviðum skólastarfs.

Ég vil við þessi svör bæta því að það væri alfarið í andstöðu við nýsett upplýsingalög og þær kröfur sem eru almennt í þjóðfélaginu um það að stjórnvöld upplýsi almenning um þau atriði sem hagsmuni almennings varða að halda þessum upplýsingum leyndum. Og ég sé ekki hvernig unnt væri að standa á því af hálfu menntmrn. hvað sem umræddri reglugerð líður að standa gegn óskum um slíkt. Óskir um slíkt eru mjög algengar gagnvart ráðuneytinu. Þess vegna er sú leið farin með þessari reglugerð að taka af skarið, setja reglurnar um það hvernig beri að standa að upplýsingamiðluninni og ég tel fráleitt að ætla að það sé brot á grunnskólalögunum og örugglega er það a.m.k. í samræmi við upplýsingalögin. Hér erum við að sinna upplýsingaskyldu sem á stjórnvöldum hvílir og alls ekki vega að hagsmunum barna og síður en svo að gera skólakerfið verra.