Afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:35:12 (1804)

1996-12-04 14:35:12# 121. lþ. 34.6 fundur 170. mál: #A afhending á niðurstöðum úr samræmdum prófum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og menntmrh. fyrir svörin. Ég vil hins vegar segja það að svör hans róa að líkindum ekki þá sem hafa áhyggjur af þessu máli. Fram kom í máli ráðherrans að það muni verða í höndum viðkomandi sveitarfélaga hvort börnum verður leyft að sækja skóla í öðrum sveitarfélögum eða skipta um skóla innan sveitarfélaga. Ég bið hv. þingheim að reyna nú að setja sér þessa stöðu fyrir hugskotssjónir, hvernig slíkt getur farið fram. Lögmál viðskiptalífsins eru ágæt þar sem þau eiga við. Ég hef hins vegar ekki verið sannfærð um það að þau eigi við í skólunum eða inni á sjúkrastofnunum. Ég hef ekki verið sannfærð um það enn þá. Og það er líklega dálítið langt í að það verði, einfaldlega vegna þess að þar gilda allt allt önnur lögmál, lögmál umhyggjunnar gilda þar --- ekki þau hörðu lögmál viðskiptalífsins sem sumir hv. þm. skírskota gjarnan til. Þar gildir nefnilega nákvæmlega þetta, að foreldrum er annt um börnin sín. Og þegar ráðherra er að fara hér yfir það hvað það er sem ræður vali foreldra á skólum fyrir börn sín og þar með vali á búsetu, þá get ég alveg fullyrt að svona niðurstöður munu verða einn af stóru þáttunum sem hafa afgerandi áhrif á byggðaþróun á Íslandi á næstu árum. Ég treysti mér til að fullyrða það og ég vildi gjarnan að fram kæmi viðhorf menntmrh. gagnvart þessari fullyrðingu.