Tekjuviðmiðun lífeyrisþega

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:38:34 (1806)

1996-12-04 14:38:34# 121. lþ. 34.2 fundur 154. mál: #A tekjuviðmiðun lífeyrisþega# (eingreiðsla skaðabóta) fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:38]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Sl. vor var gerð sú breyting á almannatryggingalögum að við 10. gr. laganna bættist ný málsgrein sem varð 3. mgr. þeirrar greinar og hljóðar svo:

,,Við útreikning örorkulífeyris og tekjutryggingar, sbr. 12. og 17. gr. laga þessara, er ráðherra heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu til framtíðar frá Tryggingastofnun ríkisins.

Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.``

Það er forsaga þessa máls að vegna þeirra breytinga sem gerðar voru áður á 10. gr. laganna um að fjármagnstekjur voru þá teknar inn í tekjugrunn við útreikning örorkulífeyrisbóta þá geta þær nú skert rétt hinna slösuðu til örorkulífeyris og tekjutryggingar. Með því væri skertur bótaréttur örorkulífeyrisþega sem þegar hafa sætt lækkun fébóta vegna þeirra réttinda sem þeir voru taldir eiga hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta kemur til af því að það er venja hér, bæði dómvenja og eins liggur það í ákvörðun tryggingafélaga þegar bætur eru greiddar, að bætur eru miðaðar við ákveðna framtíðarávöxtun en til frádráttar koma áætluð réttindi manna hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það lá því fyrir þegar ákveðið var að taka fjármagnstekjur að hluta sem tekjur inn í skerðingarákvæði almannatryggingalaganna að með því gæti orðið um tvöfalda skerðingu vegna sömu fjárhæðanna að ræða nema sérstaklega yrði tekið á því máli og það var ætlunin að gera með þessari breytingu á 10. gr. almannatryggingalaganna sem staðfest var með lögum frá Alþingi sl. vor, lögum nr. 95/1996.

En nú ber svo við að þrátt fyrir að lög um skattlagningu fjármagnstekna í þessum skilningi, þ.e. bótaþeganna, hafi tekið gildi nú þegar, 1. sept. ef ég man rétt, þá hefur heilbrrn. ekki, eða hafði a.m.k. ekki þegar fyrirspurn þessi var lögð fram, gefið út þá reglugerð sem gert er ráð fyrir sem forsendu þessa réttar. Það hlýtur að teljast mjög ámælisvert að það skuli stranda á því að þessi sjálfsagða leiðrétting sé gerð í kjölfar upptöku fjármagnstekjuskatts.

Ég hef því leyft mér, herra forseti, að leggja eftirfarandi fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra:

,,Hvað líður setningu reglugerðar um tekjuviðmiðun lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga um almannatryggingar, sbr. lög nr. 95/1996?``