Tekjuviðmiðun lífeyrisþega

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:41:54 (1807)

1996-12-04 14:41:54# 121. lþ. 34.2 fundur 154. mál: #A tekjuviðmiðun lífeyrisþega# (eingreiðsla skaðabóta) fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:41]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, spyr um að hvað líði setningu reglugerðar um tekjuviðmiðun lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku á grundvelli 3. mgr. 10. gr. laga um almannatryggingar.

Með lögum nr. 144/1995, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, á árinu 1996 var m.a. gerð breyting á 10. gr. laga um almannatryggingar þess efnis að 50% fjármagnstekna skyldu teljast til tekna við ákvörðun lífeyris. Bent var á að fjármagnstekjutenging lífeyris gæti leitt til óeðlilegrar skerðingar á bótum til þeirra sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku. Til skýringar skal þess getið að við ákvörðun bóta vegna framtíðarörorku hefur yfirleitt verið beitt þeirri aðgerð að meta heildartjón og draga síðan frá áætlaðar vaxtatekjur af bótum og áætlaðri greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins. Því ákvað ég að flytja frv. um viðbót við 10. gr. almannatryggingalaga þess efnis að ráðherra væri heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku að frádregnum áætluðum örorkulífeyri og tekjutryggingu og að ráðherra setti reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis. Frv. var samþykkt og gildir breytingin frá sama tíma og skerðing bóta vegna fjármagnstekna kemur til framkvæmda eða frá 1. sept. 1996.

Fyrrgreind heimild hefur verið kynnt m.a. á sambandsstjórnarfundi Sjálfsbjargar og hvatt til þess að þeir sem hún gæti átt við sæktu um hækkun tekjuviðmiðunar. Sömuleiðis hafa þeir sem hafa haft samband við Tryggingastofnun vegna þessarar heimildar verið hvattir til að sækja um, þó ekki væri búið að setja reglur um útfærslu hennar. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins hefur hins vegar aðeins ein umsókn borist.

Bent er á að einungis 50% fjármagnstekna koma til skerðingar. Sé ekki um að ræða atvinnutekjur eða tekjur frá lífeyrissjóðum auk bóta frá Tryggingastofnun ríkisins þurfa fjármagnstekjur að vera mjög háar til þess að um skerðingu verði að ræða. Þannig mega örorkulífeyrisþegar, sem einungis hafa tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, hafa 36 þús. kr. á mánuði til að tekjutrygging skerðist. Miðað við 5% ávöxtun jafngildir það fjármagnseign sem nemur 8,6 millj. kr. og 140 þús. kr. á mánuði til að örorkulífeyrir skerðist eða 3,6 millj. kr. miðað við sömu ávöxtun.

Setning reglugerðar um framkvæmd 3. mgr. 10. gr. hefur dregist nokkuð og eru ýmsar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er óframkvæmanlegt að aðgreina fjármagnstekjur vegna bóta frá öðrum fjármagnstekjum og erfitt að finna sanngjarna og einfalda reglu sem nær þeim markmiðum sem stefnt er að. Í öðru lagi virðist þörf fyrir heimildarákvæði ekki vera jafnbrýn og ætlað var. Fenginn var tryggingastærðfræðingur til þess að gera tillögur um reiknireglu sem tryggir að lífeyrisþegar sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta verði ekki fyrir tvöfaldri skerðingu. Drög að reglugerð um beitingu slíkrar reiknireglu liggja fyrir og verður hún gefin út alveg á næstu dögum þannig að um tvísköttun verður ekki að ræða.