Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:51:59 (1809)

1996-12-04 14:51:59# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[14:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum og nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Breytingartillögurnar eru á þskj. 231 og nefndarálitið á þskj. 230.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu fékk nefndin á sinn fund allmarga aðila og sendi málið einnig víðs vegar til umsagnar. Allt þetta er rakið á þingskjali því sem geymir nefndarálitið. Meiri hluti nefndarinnar leggur til allnokkrar breytingar á frv. Þær eru í fimm liðum og mun ég nú gera grein fyrir efni þessara breytinga.

Í 1. lið brtt. er lagt til að í stað þess að frádráttur vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri verði felldur niður í einu lagi um áramót verði hann lækkaður í áföngum á þremur árum. Eftir árið 1999 verði síðan enginn frádráttur heimilaður vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Er þessi breyting gerð til að milda þau áhrif sem niðurfelling þessa frádráttarliðar kann að hafa á hlutabréfamarkaðinn.

Þá er lítillega breytt ákvæðum um stofnfjárbréf í sparisjóðum. Er þetta gert vegna þess að í lögum nr. 9/1984 er ekkert fjallað um fjárfestingu í slíkum bréfum og þykir því nauðsynlegt að taka fram að skilyrði þau sem sett eru í þeim lögum eigi ekki við um stofnfjárbréf í sparisjóðum. Það hefur einnig verið rætt töluvert í umfjöllun nefndarinnar að, eins og lögin standa nú, heimilt er að kaupa fimmfalda þá fjárhæð sem heimilt er að draga frá á hverju ári. Það er mikil spurning hvort yfirleitt sé hægt að afnema þá heimild í einu vetfangi. Ef það yrði gert er ljóst að það mundi vekja upp ýmis málaferli vegna slíkra breytinga þar sem hæpið er að það standist afturvirkniákvæði stjórnarskrárinnar um skatta. Því tel ég að skynsamlegra sé þegar á allt er litið að þrepa þennan afslátt niður eins og gert er í tillögu meiri hlutans. Það breytir því þó ekki að eflaust munu ýmsir telja sig hafa tilefni til þess að fara í mál gegn ríkissjóði vegna þess að þetta ákvæði er afturvirkt en á það verður sjálfsagt látið reyna.

Í 2. lið breytingartillagnanna er gert ráð fyrir því að sett séu í lögin ákvæði um skiptingu hlutafélaga. Í nýlegum lögum um hlutafélög er að finna ákvæði um skiptingu hlutafélaganna og í grófum dráttum sett eins konar samasemmerki á milli samruna félaga og skiptingar félaga. Í skattaréttinum hefur ekki verið tekið á þessu atriði en með þeim breytingartillögum sem hér hafa verið lagðar til er gert ráð fyrir því að það sama eða svipað sé látið gilda þegar félög eru sameinuð eða þeim skipt. Um þetta er fjallað í 2. lið breytingartillagnanna.

Í 3. lið breytingartillagnanna er kveðið svo á að ríkisskattstjóri geti heimilað lögaðilum og einstaklingum sem hafa með höndum atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi að skila skýrslu á tölvutæku formi og eru þessar tillögur í a- og b-staflið í 3. lið.

Í 4. lið breytingartillagnanna er gert ráð fyrir að 10. gr. falli einfaldlega niður í núverandi mynd, en þess í stað verði fjallað um fresti sem skattstjóra eru settir varðandi endurákvörðun mála. Með hliðsjón af því að í greinargerð frv. er boðað að síðar á þinginu verði flutt frv. þar sem kveðið verði á um forúrskurði skattamála og þar sem fyrir liggur að taka upp staðlað framtal lögaðila, þykir rétt að fresta verði að svo stöddu að gera breytingar á 97. gr., og það mál verði tekið til skoðunar að nýju í tengslum við framangreindar breytingar. Í þessari 10. gr., sem verður 14. gr., er hins vegar lagt til að breytingar verði gerðar á 101. gr. að því er varðar kærur á ákvörðun ríkisskattstjóra og er lagt til að í stað þess að þær ákvarðanir verði fyrst kæranlegar aftur til ríkisskattstjóra og síðan til yfirskattanefndar, verði þær kæranlegar beint til yfirskattanefndar og kæruleiðin þannig stytt að þessu leyti. Þetta er efni brtt. sem sett er fram í 4. lið.

Í 5. lið breytingartillagnanna er lögð til breyting á 12. gr., sem verður 16. gr., og fjallar um breytingu á 114. gr. laganna og tengist þeim almennu breytingum sem verið er að gera, þ.e. að láta skiptingu hlutafélaga njóta sömu réttinda og skyldna og samruni þeirra.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir breytingartillögum meiri hluta efh.- og viðskn. á þessu frv.