Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:00:32 (1814)

1996-12-04 19:00:32# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Umrætt bráðabirgðaákvæði, sem ég las úr rétt áðan, tók inn allt rekstrartap liðinna ára alveg frá upphafi vega, þar með talið rekstrartap vegna verðbólgutaps sem var ekki raunverulegt tap. Eftir að verðbólgureikningsskil voru tekin upp er um raunverulegt verðbólgutap að ræða, raunverulegt tap hluthafanna. Og það er akkúrat það sem er tekið inn núna. Þar verður reginbreyting á því nú á þetta bráðabirgðaákvæði væntanlega að falla út og hafi það ekki verið fellt út vonast ég til að það verði gert, því þar er þessi froða sem myndaðist af skattalegu tapi sem var ekki raunverulegt tap sem við höfum heyrt margar sögur af. Það er búið að taka það í burtu. Og núna er verið að tala um raunverulegt verðbólgureikningstap sem hægt er að draga frá í átta ár, og er að mínu mati of stutt. Þetta þyrftu að vera tíu ár því mörg fyrirtæki hafa það langan fæðingartíma á framleiðsluvörum sínum. Þegar það er komið erum við búin að setja íslensk fyrirtæki á sama grunn og víðast erlendis.