Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:01:55 (1815)

1996-12-04 19:01:55# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:01]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi nokkuð um skattamál atvinnulífsins. Ég hygg að við hv. þm. hljótum að vera sammála um að atvinnulíf okkar Íslendinga hlýtur að þurfa að vera samkeppnisfært í skattalegu tilliti við atvinnulíf annarra þjóða. Ekki síst hlýtur atvinnulífið að þurfa að búa við slík rekstrarskilyrði í skattalegu tilliti að því sé kleift að auk sína framleiðni og bæta sína verðmætasköpun og hækka laun í landinu. Eins og hv. þm. veit er unnið mikið starf hjá samtökum fyrirtækjanna í landinu einmitt til að skilgreina hvað þarf að koma til hvernig hægt er að styrkja samkeppnishæfni atvinnulífsins og ekkert óeðlilegt að þær hugmyndir og þær leiðir sem þar eru ræddar skili sér til ríkisstjórnarinnar og þingsins og tekið sé tillit til þeirra ef mönnum sýnist að verið sé að gera góða hluti.

Annað mál sem hann kom inn á og verið er að fjalla um í nefnd á vegum stjórnarflokkanna eru jaðarskattarnir. Það er stórt vandamál sem ég held að þurfi að leggjast vel yfir til að finna botn í. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. hefur sagt í þeim efnum og hann hefur lagt fram ágætis tillögur sem ég tel að séu fyllilega skoðunar virði í því sambandi. Nefndin hefur verið að störfum um nokkurra mánaða skeið og vonandi fer að sjá að einhverju leyti fyrir endann á því starfi en ég held að okkur sé öllum ljóst að nauðsynlegt er að taka á þeim málum.