Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:04:17 (1816)

1996-12-04 19:04:17# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um skattalegt umhverfi fyrirtækjanna. Auðvitað er alveg rétt að við getum ekki ætlast til að þau standi í samkeppni við fyrirtæki á erlendri grund nema þau búi við nokkuð sambærilegar aðstæður enda er deilan ekki um það. Þau ættu þá líka að borga sambærileg laun. Það virðist, því miður, bara vera sumt sem menn vilja hafa sambærilegt en ekki allt. Við skulum þá ekki horfa fram hjá því að búið er að stórbæta skattalegt umhverfi fyrirtækja á Íslandi á síðustu árum. (Gripið fram í.) Það er búið að gera það með því að fella niður á einu bretti allt aðstöðugjaldið. Ég studdi það, ég lagðist ekki gegn því af því aðstöðugjaldið var óskynsamlegur flatur skattur án tillits til afkomu fyrirtækjanna. Ég hafði að vísu talið að það hefði verið eðlilegt að taka þá upp á móti einhverja afkomutengda skatta eða umhverfisskatta. Það er búið að lækka tekjuskattinn á hagnaði fyrirtækjanna úr 45% niður í 33% og munar um minna. Samtals eru þarna á ferðinni hlutir af stærðargráðunni 5 milljarðar króna eða svo. Það hefur verið gert ýmislegt fleira. Settar voru inn sérstakar flýtifyrningar til að hvetja fyrirtækin til fjárfestinga og er ég búinn að rekja í þessu frv. ýmislegt smávægilegt sem verið er að lagfæra og allt meira og minna í þágu fyrirtækjanna. Enda er svo komið að Ísland, eins og reyndar flest hin Norðurlöndin, eru að verða nánast skattaparadís fyrirtækja. Það er vel varðveitt leyndarmál. Staðreynd er engu að síður að skattalegt umhverfi fyrirtækja á Norðurlöndum er að verða það hagstæðasta í Evrópu. Þetta hef ég m.a. farið yfir á stórri ráðstefnu erlendis ekki fyrir löngu síðan. Um jaðarskattana segi ég bara: Já, auðvitað þarf að gera eitthvað í því máli og ég vil ná einhverjum áfanga í því nú. Ég sætti mig afar illa við að enn eitt ár fari í vaskinn hjá okkur af því mér finnst rökin sem menn færa fram ekki frambærileg. Ég er sannfærður um að ef efh.- og viðskn., sú góða nefnd, fengi leyfi til þess frá hinum háu herrum (Forseti hringir.) í ríkisstjórninni að vinna í málinu þrjá til fjóra daga mundum við leysa það.