Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:08:53 (1818)

1996-12-04 19:08:53# 121. lþ. 35.2 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:08]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig heldur snautlegt fyrir okkur stjórnarandstæðinga að fá svona svör. Okkur er sagt: Það er nefnd úti í bæ að vinna í þessu og í henni eru meira að segja aðilar vinnumarkaðarins, svo þið skuluð bara bíða rólegir. Og þetta eru svör sem eiga að fullnægja okkur í stjórnarandstöðunni á Alþingi Íslendinga. Með öðrum orðum stjórnarandstaðan kemur hvergi að málinu og það á að leysa þetta mál annars staðar en á vettvangi löggjafans. Það getur vel verið að mönnum takist að gera þetta að kröfugerð í kjarasamningum og ná þar einhverjum árangri en svona mál ætti að mínu mati ekki að þurfa að leysast þar --- í viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins þar sem eiga fyrst og fremst að vera að semja um kaupið í landinu en ekki lagfæringar á skattkerfinu, húsnæðismálum eða einhverju öðru eins og þetta hefur því miður alloft orðið. Hér ættum við sem berum hina pólitísku ábyrgð og setjum lög um skatta að taka á og leysa svona mál. Ég tala ekki um þar sem allar upplýsingar liggja í raun og veru fyrir.

Og aðeins örstutt um tekjutengingargildruna sjálfa, þá þurfa menn að vanda sig þegar þeir formúlera þessi mál. Þetta er mjög oft sett svona fram eins og hv. þm. gerði áðan --- að vandinn sé sá að menn séu að reyna að koma til móts við tekjulága fólkið og það valdi vandanum. Ég held að megi alveg eins segja að þetta sé öfugt. Vandinn skapast af því að til þess að draga úr útgjöldum ríkisins þá auka menn tekjutengingu þátta eins og húsnæðisbóta og barnabóta og sagan sýnir okkur að það var það sem gerðist. Menn vildu draga úr kostnaði við barnabætur og menn settu inn tekjutengingu. Það var ekki fyrir lágtekjufólkið því það hafði sínar barnabætur fyrir. Nei, það var til þess að draga úr útgjöldum ríkisins og svo lenda þessi jaðaráhrif allt of langt niður í tekjuskalann og þá fer jafnilla og raun ber vitni.