Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:11:46 (1819)

1996-12-04 19:11:46# 121. lþ. 35.3 fundur 143. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# (hlutdeildarskírteini, afföll) frv., Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. meiri hluta efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og sent það til umsagnar til aðila sem getið er á þskj. 232 þar sem nál. meiri hlutans er. Meiri hlutinn leggur til brtt. við frv. í þremur liðum og mun ég gera grein fyrir efni þeirra.

Í 1. lið brtt. eru gerðar tillögur til breytinga á 2. gr. frv. sem lýst er á þskj. 233. Þar er um að ræða breytingar á 5. gr. laganna. Í a-lið er gert ráð fyrir að samræmt verði orðalag staðgreiðslulaga og laga um tekjuskatt og eignarskatt. Staðgreiðsla verði þannig tekin af öllum eignfærðum vöxtum og verðbótum í bönkum og sparisjóðum.

Í c- og d-lið er lagt til að skattlagning ávöxtunar á lífeyristryggingum, söfnunartryggingum, verði samræmd því sem lagt er til varðandi hlutdeildarsjóði. Í stað þess að skattleggja frá ári til árs verði ávöxtun tryggingartakans skattlögð þegar tryggingin kemur til útborgunar. Með þessari breytingu skapast jafnframt samræmi á tímamarki við skattlagningu innlendra og erlendra tryggingabóta.

Í f- og g-lið er lagt til að í stað beinnar skráningar á skuldaviðurkenningar og verðbréf geti fyrirtæki sem hafa með höndum umsýslu viðskipta nýtt sér tölvu í því skyni að halda utan um upplýsingar. Þessi breyting leiðir til einföldunar í framkvæmd. Um leið er lagt til að ótvírætt sé tekið fram að skrá beri kaupverð allra krafna.

Í 2. lið brtt. er lagt til að komi inn ný grein í frv. er orðist þannig, með leyfi forseta:

,,Í stað 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Aðili, sem fellur undir 1. mgr. 3. gr., getur sótt til ríkisskattstjóra um að verða ekki færður á skrá um skilaskylda aðila, enda hafi hann að óverulegu leyti með höndum innheimtu á eða milligöngu með peningalegar eignir einstaklinga. Árlega skulu þeir gefa skattyfirvöldum upplýsingar um þær fjármagnstekjur einstaklinga sem þeir hafa innheimt, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.``

[19:15]

Hæstv. forseti. Hér er um það að ræða að aðilar svo sem lögmenn sem hafa fyrst og fremst umsýslu með kröfur og innheimtu fyrir aðila sem eru lögaðilar og greiða fullan skatt af sínum fjármagnstekjum, þurfi ekki að standa í viðamikilli innheimtustarfsemi og skilagreinastarfsemi vegna slíkrar innheimtu. Það væri hægt að líkja slíkri innheimtu við það að þessir ágætu menn væru uppteknir við það, í óeiginlegum skilningi, að grafa skurði og moka ofan í þá aftur vegna þess að slík starfsemi hefur nákvæmlega engin áhrif á tekjur ríkissjóðs og því ekki eðlilegt að leggja á þá sérstakan kostnað.

Í 3. lið breytingartillagnanna er gerð tillaga til breytinga á 3. gr. frv. Við bætist ákvæði til bráðabirgða í stað þess texta sem er í núverandi 3. gr. frv. Ákvæðið orðast þannig:

,,Við ákvörðun á fjárhæð áfallinna vaxta á kröfu og verðbréf skal þess gætt að færa uppreiknað verð, þ.e. eftirstöð\-vaverð, með áföllnum verðbótum og vöxtum á viðkomandi skjal við greiðslu eða fyrstu afborgun eftir 1. janúar 1997.

Uppreiknað verð á verðbréfum sem uppfylla skilyrði um skráningu á Verðbréfaþingi Íslands, sbr. V. kafla laga nr. 11/1993, skal miðast við vegið meðaltal viðskipta í einstökum flokkum verðbréfa sem fram fara á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember 1996 á Verðbréfaþingi Íslands, þar með talið tilkynnt viðskipti fyrir sama tímabil.

Uppreiknað verð á kröfu eða verðbréfi sem ekki eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands, sbr. V. kafla laga nr. 11/1993, og bera lægri nafnvexti en 5% skal ákvarðað sem nafnverð kröfunnar eða eftirstöðvar verðbréfsins 31. desember 1996, að teknu tilliti til 5% ávöxtunar á ári til loka lánstíma. Ef rétthafi vaxta getur sýnt fram á að ávöxtun kröfu eða verðbréfs sé lægri en greinir í 1. málsl. þessarar málsgreinar getur hann farið fram á leiðréttingu til samræmis við raunverulega ávöxtun. Slík leiðrétting skal gerð við álagningu að tekjuári liðnu. Þannig ákvarðað og uppreiknað verðmæti kröfu eða verðbréfs telst upphafsverð 1. janúar 1997 við staðgreiðslu fjármagnstekna. Krafa eða verðbréf sem bera nafnvexti 5% eða hærri skulu skattlögð samkvæmt því.

Skuldaviðurkenningar sem teknar eru sem greiðsla söluandvirðis samkvæmt kaupsamningi og eru í eigu seljanda skulu metnar á uppreiknuðu verði í árslok 1996.``

Hæstv. forseti. Hér er um það að ræða annars vegar að það þurfi að skilgreina upphafsverð krafna eins og þær standa þegar fjármagnstekjuskatturinn leggst á. Hins vegar eru kröfurnar flokkaðar eftir því hvers eðlis þær eru.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir breytingartillögum og nefndaráliti meiri hluta efh.- og viðskn.