Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:18:32 (1820)

1996-12-04 19:18:32# 121. lþ. 35.3 fundur 143. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# (hlutdeildarskírteini, afföll) frv., Frsm. minni hluta ÁE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:18]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. í 143. máli, sem er stjfrv. um breyting á lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Auk mín standa að nefndarálitinu tveir hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon og Ásta B. Þorsteinsdóttir.

Þetta mál hefur aðeins komið til umræðu í tengslum við fyrra mál hér á fundinum, þ.e. hinu fyrsta stóra skattamáli ríkisstjórnarinnar þannig að ég mun ekki hafa mjög mörg orð um þetta frv. Efnisatriði þess eru tiltölulega einföld. Þetta fjallar um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og er fylgihlutur frumvarpa sem voru afgreidd á síðasta vori um svokallaðan fjármagnstekjuskatt. Þá var bæði afgreidd löggjöf um skattlagninguna sjálfa, svo og um staðgreiðslu af þessum skatti og það eru breytingar á þeim lögum sem verið er að gera með þessu frv. Í reynd má segja að einmitt þær ábendingar sem við vorum með í vor varðandi undirbúning þess máls hafi allar komið fram í því að núna nokkrum mánuðum eftir lögfestingu þessara frumvarpa um fjármagnstekjuskatt og staðgreiðslu af þeim, skuli þurfa að endurbæta þær verulega, fyrst í frv. ríkisstjórnarinnar eins og það var lagt fram og síðan í breytingartillögum meiri hluta efh.- og viðskn., en þær eru þegar allt er tekið til meiri að umfangi en stjfrv. eins og það var lagt fram á hinu háa Alþingi. Þetta segir meira en margt annað um hvernig undirbúningnum var háttað við málið í upphafi og rætast nú þau viðvörunarorð sem við höfðum við í þessum ræðustól þegar málið var upphaflega til umræðu.

Það er ástæða til að fara nokkrum orðum um fjármagnstekjuskattinn sjálfan. Það mál var að vísu upprunalega unnið í nefnd sem þingflokkar og aðilar vinnumarkaðarins komu að. Niðurstaða þeirrar umræðu sem endurspeglaðist síðan í frv. sem afgreitt var á síðasta þingi var fyrst og fremst sú að með því voru verulega léttar byrðar af stórum hlutafjáreigendum og það sem fyrst og fremst mátti lesa út úr því var hagkvæmni fyrir fyrirtækin í landinu, miklu frekar en hér væri um að ræða samræmda skattlagningu á fjármagnstekjur eins og við í minni hluta efh.- og viðskn. lögðum mikla áherslu á í umræðunni í vor. Það er hins vegar ástæðulaust, herra forseti, að fara mjög nákvæmlega yfir þá umræðu. Við lýstum okkur andvíga þessari útfærslu sem lagt var upp með af hálfu stjórnarinnar og meiri hluta þingsins í vor. Við lögðum þá fram annað frv., svokallað formannafrv. sem var lagt fram af formönnum þriggja stjórnmálaflokka, þ.e. formanni Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka. Náin samvinna þessara, þá þriggja, þingflokka var um málið í vor. Afstaða flokkanna hefur ekki breyst neitt hvað varðar þetta mál þó að þingflokkunum hafi fækkað nú á þessu þingi, enda er samstaða um það nefndarálit sem ég er að gera grein fyrir.

Fyrir utan hið ranga upplegg á fjármagnstekjuskattinum að okkar mati, bendum við á að fjölmargir þættir í tengslum við staðgreiðslu af því eru þannig útfærðir að erfitt mundi verða að vinna eftir þeim. Þetta studdist ekki aðeins við álit okkar nefndarmanna og stjórnarandstæðinga velflestra hér í vor, heldur komu einnig fram mjög alvarlegar ábendingar frá embættismönnum í fjmrn. varðandi þennan þátt. Við skildum mjög vel áhyggjur þeirra manna sem áttu að vinna eftir þessum málum um það hvernig að yrði staðið.

Það hefur komið í ljós að áhyggjur okkar voru á rökum reistar. Nefnd hefur verið starfandi alveg frá því að þessi frumvörp voru afgreidd, nefnd á vegum ríkisskattstjóra með þátttöku embættismanna í ráðuneytum til að betrumbæta og fara yfir þessa löggjöf og gera tillögur til ríkisstjórnarinnar og fjmrn. um hvað betur mætti fara. Frv. sem nú er til umræðu er einmitt niðurstaða frá þessari nefnd. Það lýsir málinu vel að frá því að frv. var afgreitt í vor --- og það er ekki komið enn til framkvæmda --- að flokkur embættismanna skuli hafa verið að störfum í allt sumar við að reyna að koma einhverri heilli brú í útfærslu þess máls.

Sama má segja um þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur til sem eru allar tæknilegs eðlis fyrir utan eina, að fyrst og fremst er um að ræða ábendingar frá umsagnaraðilum og þessari nefnd og skattyfirvöldum um tæknilega útfærslu á hinum og þessum þáttum sem sýnir líka að málið er enn hálfkarað. Hins vegar er athyglisverð, herra forseti, ein af þeim breytingartillögum sem hv. þm. og formaður efh.- og viðskn., Vilhjálmur Egilsson gerði grein fyrir, þ.e. 2. brtt. nefndarinnar um sérstaka ívilnun til handa lögmönnum, að undanskilja þá staðgreiðslu þannig að þeir geti sótt um að vera ekki á skrá yfir skilaskylda aðila ef þeir hafa ekki nema að óverulegu leyti með höndum innheimtu eða milligöngu með peningalegar eignir einstaklinga. Hér er verið að útbúa ívilnandi farveg fyrir lögmannastétt þessa lands og það kemur svo sem ekki mjög á óvart að það skyldi verða fyrsta verkefni í meiri hluta efh.- og viðskn. í afgreiðslu þessa máls, þegar ábendingar koma úr þeirri áttinni, að gera allt sem hægt er að finna því lagafarveg, og það hefur tekist eins og sést hér í tillögu meiri hluta nefndarinnar. Málið er ekki þannig vaxið eins og formaður efh.- og viðskn. lýsti áðan að verið væri að koma í veg fyrir að menn græfu fyrst skurð og mokuðu síðan ofan í hann aftur. Skattalög eiga að vera almenns eðlis og menn reyna alltaf að hafa þau almenn og reyna að fækka undanþágum og undanþáguferlum eins mikið og hægt er. Hér er opnaður möguleiki fyrir innheimtuaðila. Ef þeir uppfylla tiltekin skilyrði þá gildir ekki um þá skilaskylda. Það má benda á að það eru ekki bara sjálfstætt starfandi lögmenn sem þetta gæti átt við heldur er alveg hægt að hugsa sér að hið sama gæti alveg gilt um innheimtu sem er á vegum bankastofnana eða kreditkortafyrirtækja. Menn hafa alveg tök á því að skipta innheimtuferli sínu til að fría sig frá þessari skilaskyldu, því að vitaskuld er það svo að skilaskyldan í þessu tilfelli, þ.e. staðgreiðsla skattsins, hefur ekki áhrif á og nær ekki til nema einstaklinga. Við erum því náttúrlega að reyna að ganga frá löggjöfinni þannig að hún sé í sem almennustu formi þó svo vitaskuld geti það komið fyrir að hin almenna útfærsla hitti menn mjög mismunandi fyrir. En það hefði ekki á nokkurn hátt verið íþyngjandi þó svo að lögin hefðu verið óbreytt að þessu leytinu. Hins vegar viðurkenni ég fúslega að þetta gæti verið til þægindaauka fyrir þá sem hafa atvinnu af því að innheimta vanskilaskuldir og eru í því fyrst og fremst gagnvart fyrirtækjum að þurfa ekki að hafa áhyggjur af lögum um staðgreiðslu skatta á fjármagnstekjur. Þeir eru leystir undan þeirri kvöð hér eða geta sótt um að verða leystir undan henni með þessari útfærslu stjórnarflokkanna. Ég álít að þessi útfærsla sé fingurbrjótur í skattkerfi og menn hefðu getað látið kyrrt liggja varðandi þennan lið. Og ekki fékk ég á tilfinninguna að þessi breyting væri eitthvert kappsmál embættismanna í fjmrn. Það var síður en svo. Þeir eru býsna passasamir á hluti sem viðvíkja grundvallaratriðum í skattalöggjöf og reyna að viðhalda hreinni mynd á þeirri uppbyggingu. Ég tel og er ekki einn um það, að þarna hafi eitthvað brugðist eilítið í í uppbyggingunni.

Þetta frv. er liður í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og er fyrst og fremst útfærsla á stefnu hennar með fjármagnstekjuskatt, þ.e. staðgreiðslu og álagningu fjármagnstekjuskatts, efni sem við vorum andsnúin í vor, stjórnarandstaðan eða sá hluti stjórnarandstöðunnar sem stendur að nefndarálitinu. Við bentum á að strax mundu koma upp framkvæmdaerfiðleikar eins og framlagning þessa frv. og breytingartillögur meiri hlutans sanna. Við vorum ósammála grundvallaruppleggi ríkisstjórnarflokkanna og töldum að ívilnandi útfærsla gagnvart stórum hlutafjáreigendum og fyrirtækjum þessa lands hefði ekki verið hugsunin sem menn lögðu upp með þegar þeir ætluðu að samræma skattlagningu á fjármagnstekjur hér á landi. Við lýsum okkur andsnúna þessari stefnu í grundvallaratriðum. Ríkisstjórnarmeirihlutinn knúði hins vegar fram löggjöfina í vor gegn okkar vilja. Við því er ekkert að segja. Þeir hafa meiri hluta á Alþingi. Hins vegar kjósum við að taka ekki nokkra ábyrgð á framkvæmd þessarar stefnu sem við erum andsnúnir. Þetta frv. og breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur hér fyrir er ekkert annað en staðfesting hluta af framkvæmd á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Við erum andsnúnir þessari stefnu og lýsum ábyrgð á hendur ríkisstjórninni við framkvæmd hennar. Það er hennar að knýja í gegn breytingar á lögum og útfærslu á þeirri stefnu sem hún hefur valið sér og þarf ekki frekar en hún vill taka tillit til þeirra varnaðarorða sem við höfum flutt í þessu máli.