Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:31:15 (1821)

1996-12-04 19:31:15# 121. lþ. 35.3 fundur 143. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# (hlutdeildarskírteini, afföll) frv., Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:31]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hafði töluverðar áhyggjur af því að verið væri að undanþiggja lögmenn skilaskyldu á skatti sem yki í sjálfu sér ekkert tekjur ríkisins heldur kæmi sem uppígreiðsla upp í annan skatt. Ég held að það hljóti að vera almenn sjónarmið varðandi uppbyggingu á skattkerfi að það sé eins ódýrt og hægt er í rekstri, að því gefnu að öryggi sem skatturinn býr við sé ekki fórnað. Það er nákvæmlega það sem hér er á ferðinni. Það er verið að lækka kostnaðinn við innheimtu fjármagnstekjuskattsins án þess að örygginu sé fórnað með nokkrum hætti.

Ég hygg að hv. þm. sé þannig gerður og ég hygg að það sé líka hans stefna, hann getur þá leiðrétt það hér, að það sé ástæða til þess að lækka byrðar skuldara sem allra mest í okkar þjóðfélagi. Þannig vill nú til að lögmenn sem eru að innheimta kröfur eru óvart í vinnu hjá þeim sem skulda. Þess vegna tel ég að það sé full ástæða til þess að vera ekki sérstaklega að íþyngja þeim sem skulda og eru að greiða kröfurnar, með því að gera þjónustu lögmanna dýrari heldur en hún þarf að vera með skattalegum aðgerðum sem ekki skipta nokkru einasta máli fyrir tekjur ríkisins og fórna engu í öryggi á þessu kerfi.