Virðisaukaskattur

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:53:00 (1827)

1996-12-04 19:53:00# 121. lþ. 35.4 fundur 144. mál: #A virðisaukaskattur# (málsmeðferðarreglur o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:53]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Á sl. vori voru þær ráðstafanir boðaðar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti á byggingarstað til að vinna upp það tekjutap sem áætlað var vegna breytinga á vörugjöldum sem gerðar voru vegna úrskurðar frá Eftirlitsstofnun EFTA. Þessari aðferð til tekjuöflunar var ákaft mótmælt m.a. af Samtökum iðnaðarins og fram kom fjöldi ábendinga um aðrar leiðir sem væru vænlegri til að vinna upp þetta tekjutap t.d. að leggja aukna skatta á fyrirtækin í landinu og fleira var nefnt.

Viðvaranir komu fram um að þessi ráðstöfun mundi hækka vísitölu byggingarskostnaðar og þar með verðlag á íbúðarhúsnæði í landinu og var þó vart á bætandi því nú er svo komið í þessari paradís eignaríbúðanna að ungt fólk á venjulegum launum á í miklum erfiðleikum með að komast yfir íbúðir og er vart á þá erfiðleika bætandi. Einnig komu fram í umræðunni í vor mjög ákveðnar viðvaranir vegna lækkunar endurgreiðslu vegna vinnu við viðhald og endurbætur húsnæðis. Við samþykkt frv. mátti ætla að hv. efh.- og viðskn. hefði brugðist við þessum ábendingum og fellt þessi atriði út en nú liggur fyrir að svo var ekki. Frv. er endurflutt, ekki síst til að koma þessu atriði til skila. Ég vil því ítreka viðvörunarorð mín frá síðasta þingi varðandi þessi atriði.

Það liggur fyrir að almennt er viðhaldi á húsnæði á Íslandi ábótavant ekki hvað síst vegna mikils kostnaðar við að fá verktaka til slíkra verka, svo mikils kostnaðar að fólk sem ekki treystir sér til að vinna slík verk sjálft og hefur ekki annað til viðurværis en venjulegar launatekjur treystir sér ekki í slíkar framkvæmdir. Til að koma til móts við húseigendur sem þurfa að ráðast í viðgerðir var virðisaukaskattur endurgreiddur og munaði það fólk miklu auk þess sem það hamlaði gegn svartri atvinnustarfsemi í þessum geira og jók þannig skatttekjur ríkissjóðs. Það er mat margra þeirra er gerst til þekkja að þessi breyting sem hér er lögð til að lækka endurgreiðslur niður í 60% verði til að taka burt þann hvata sem endurgreiðsla var á viðhaldsviðgerðir auk þess sem hún leiðir mjög líklega til aukinnar svartrar atvinnustarfsemi sem var þó ærin fyrir.

Ég legg því til við hv. efh.- og viðskn. að hún haldi uppteknum hætti og láti þessi atriði brott falla úr frv.