Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 19:58:09 (1829)

1996-12-04 19:58:09# 121. lþ. 35.7 fundur 147. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (iðgjöld, stigaútreikningur, ávöxtun o.fl.) frv., Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[19:58]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa fjmrn. og fékk einnig sendar umsagnir frá Bandalagi háskólamanna og Landssambandi lífeyrissjóða. Nefndin leggur til örlitla breytingu á frv. Sú breyting er í 6. gr. frv. en í henni, eins og hún er í frv., er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins sé heimilt að gera samning við Spöl hf. um kaup víkjandi skuldabréfa, útgefnum af Speli hf., í samræmi við viljayfirlýsingu lífeyrissjóðsins, dagsettri 13. desember 1993, og yfirlýsingu dagsettri 22. maí 1995. Nefndin gerir þá tillögu að þetta ákvæði verði almennt og orðist svo: ,,Stjórn sjóðsins er heimilt að kaupa víkjandi skuldabréf fyrir allt að 100 millj. kr.`` Fyrirtækið Spölur hf. verði ekki sérstaklega tiltekið í þessum texta en niðurstaða af þessum ákvæðum á engu að síður að vera sú sama.