Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 20:17:40 (1834)

1996-12-04 20:17:40# 121. lþ. 35.8 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[20:17]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt og ég lét það koma fram í mínu máli að framkvæmdin skiptir að sjálfsögðu meginmáli og lagatextinn sem slíkur er meira í formi heimilda til að selja húsnæði en að það sé skylda. En sú er m.a. ástæðan fyrir því að tortryggni hefur vaknað og ekki bara hjá okkur í minni hlutanum í efh.- og viðskn. heldur mörgum fleiri sem skoðað hafa þetta frv. að andi þess er auðvitað eða var í hinni upphaflegu gerð mjög ákveðið í þá átt að selja bæri sem allra mest af þessu húsnæði. Og maður óttast einfaldlega að farið verði offari í því. Menn sjá ekki að sér fyrr en um seinan að reynt verði að selja húsnæði til þeirra sem sitja í því á hverjum tíma. Þeir hverfi síðan á braut og valdi þeirri röskun sem því fylgir eða húsnæðið verði selt á almennum markaði, jafnvel á mjög lágu verði af því að stefnan í tilteknum bæjum sé sú að losna við þetta húsnæði umfram allt.

Staðreyndin er sú að þegar lesið er t.d. með hvaða hætti hæstv. fjmrh. lagði línurnar fyrir starf nefndar sem undirbjó þetta mál, þá segir þar beinlínis að nefndin geri tillögur um það til ríkisstjórnarinnar hvernig fækka mætti embættismannabústöðum markvisst. Það var alveg ljóst í hvaða farveg málið átti að fara frá byrjun og um það var pólitísk leiðsögn gefin. Það er í því ljósi m.a. sem við höfum lýst hér áhyggjum, sem og ýmsir aðrir sem málið hafa skoðað.