Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 20:19:40 (1835)

1996-12-04 20:19:40# 121. lþ. 35.8 fundur 71. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[20:19]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég á aðild að meirihlutaáliti sem var kynnt af hv. formanni efh.- og viðskn. Ég gerði hins vegar við 1. umr. málsins athugasemdir við tiltekna þætti og þá fyrst og fremst við það ákvæði í frv. þar sem var gert ráð fyrir að veitt yrðu lán varðandi sölu á þessu íbúðarhúsnæði á niðurgreiddum vöxtum, þ.e. 3%. Ég taldi óhæfu að lögbinda slíkt ákvæði að hafa niðurgreidda vexti í slíkum viðskiptum eða öðrum. Hér ætti að miða við hefðbundna markaðsvexti og menn ættu að ívilna kaupendum ef svo bæri undir öðruvísi, t.d. lánum til langs tíma eða upphæð skuldabréfa sem gefin væru út.

Meiri hluti efh.- og viðskn. féllst á þetta sjónarmið og við nánari athugun fannst þeim rétt að standa að brtt. sem kemur fram í nefndarálitinu, að miðað skuli við vexti Húsnæðisstofnunar, þ.e. almenna markaðsvexti. Hér er um miklu eðlilegra fyrirkomulag að ræða og þess vegna taldi ég rétt að styðja framgang þessa máls þó svo ég hafi vissar áhyggjur. Það kom einnig fram við 1. umr. málsins að menn verða að hafa fullan vara á sér um að þetta leiði ekki til vandkvæða við að manna mikilvægar stöður á vegum ríkisins á landsbyggðinni. Ég treysti því að menn gæti þess við framkvæmd laganna enda er þess getið sérstaklega í nál. um leiguupphæðir að þær hækki ekki um of og skyndilega. Þetta nefndi ég líka við 1. umr. Ég tel því þegar á heildina er litið að meiri hluti eða stjórnarliðar í efh.- og viðskn. hafi þannig tekið tillit til athugasemda minna og ég tel rétt að fylgja þessu máli í því formi sem það liggur nú fyrir.