Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 10:45:49 (1843)

1996-12-05 10:45:49# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[10:45]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er fram komið í framhaldi af þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en eins og hv. þm. muna urðu miklar deilur um það mál á síðasta þingi og þær breytingar sem þá voru gerðar voru í óþökk félaga ríkisstarfsmanna þannig að hér erum við að halda áfram með afar umdeilt mál.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. forsrh. er hér verið að útfæra starfsmannastefnu ríkisins og verið að breyta öllum þeim lögum um einstakar stofnanir og embætti sem undir ríkið heyra. Það sem ég var að reyna að átta mig á í sambandi við þetta frv. var það hver reglan væri. Hver er sú regla sem gengur í gegnum þetta frv.? Það er býsna erfitt að átta sig á því hver eru rökin á hverjum stað og það eru ýmsar spurningar sem vakna varðandi sjálfstæði stofnana og vald ráðherra í einstaka tilvikum. Ég ætla ekki að fara að rifja upp þær breytingar sem voru gerðar á lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar var markmiðið það að gera stofnanir sjálfstæðari, auka vald yfirmanna, gefa þeim meira svigrúm til þess að ráða fólk og reka ef þannig horfir við og við yfirferð þessa frv. var ég að reyna að átta mig á því hvernig þetta kemur fram.

Meginreglan er sú að þeir sem eru flokkaðir sem embættismenn eru að jafnaði ráðnir til fimm ára og samkvæmt lögunum endurnýjast sú ráðning einu sinni nema eitthvað komi upp á. En þetta gildir ekki um alla. Það er einkum einn hópur sem er tekinn út úr og mér finnst að í þessu samhengi eigum við reyndar að velta því fyrir okkur hvort sú skipan er rétt. Hér er átt við hæstaréttardómara en þeir eru skipaðir ótímabundið. Það er rökstutt með því að það sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Nú er ég ekki að draga það í efa og ég tel að hæstaréttardómarar eigi að vera algjörlega óháðir framkvæmdarvaldinu þó að þeir séu það náttúrlega ekki af því að þeir eru skipaðir af framkvæmdarvaldinu. Ég hef áður nefnt að í ýmsum löndum og í tengslum við ýmsar alþjóðastofnanir er annað fyrirkomulag þar sem það eru þingin sem kjósa hæstaréttardómara. Það er ein af grundvallarspurningum lýðræðisins hvernig dómarar verði best skipaðir, en hér er sem sagt tekinn aðeins einn hópur embættismanna ríkisins sem er skipaður ótímabundið og væri fróðlegt ef farið væri nánar út í rökin fyrir því. Þau rök að menn séu sjálfstæðir og óháðir eru ekkert sterkari hér en annars staðar. Til dæmis eru dómarar í Bandaríkjunum kosnir af almenningi en reyndar hæstaréttardómarar skipaðir af forseta að undangenginni rannsókn þingsins. Hér kemur þingið ekki að skipan hæstaréttardómara á nokkurn hátt. Ég vildi gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hver séu rökin hér að baki, hvort menn hafi á einhvern hátt hugleitt breytingar á þessu eða hvort stjórnarskráin bindur hendur okkar algjörlega að þessu leyti. Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að hæstaréttardómarar eru skipaðir af forseta Íslands.

Annar embættismaður er skipaður með sama hætti og það er biskupinn yfir Íslandi. Hann er skipaður af forseta en til fimm ára í senn. Og spurningin er: Hvaða ástæða er til að taka biskupinn þarna sérstaklega út úr? Forseti Íslands skipar biskupinn þó að það fylgi þeirri meginreglu sem hér er verið að taka upp og skipa embættismenn til fimm ára í senn. Ég ætla að koma betur inn á þetta á eftir vegna þess að mér finnst að það þurfi að skoða stöðu kirkjunnar alveg sérstaklega og sjálfstæði stofnana í því samhengi þó að það sé kannski ekki rétt að tala um íslensku þjóðkirkjuna sem stofnun eða ríkisstofnun.

Að mínum dómi hefur kirkjan mjög sérstaka stöðu í öllu þessu dæmi. Við vitum að prestastéttin er alls ekki sátt við það hvernig að málum hefur verið staðið þó að um það sé reyndar ekki eining. Ég hitti prest í gær sem kom í heimsókn hingað í þingið, reyndur klerkur á höfuðborgarsvæðinu. Hann var mjög sáttur við þessar breytingar og taldi að þetta yrði aðhald fyrir prestastéttina En þau rök, sem borin voru fram á síðasta þingi þegar lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru til umræðu, voru ekki síst af guðfræðilegum toga út frá guðfræði Lúters og Ágsborgarjátningunni eins og menn minnast. En ýmsir telja að það samrýmist ekki köllunarhlutverki presta að þeir séu skipaðir eins og hverjir aðrir embættismenn til fimm ára. Ég kýs að líta þannig á að þetta mál sé alls ekki frágengið hvað varðar prestana. Þetta eru dæmi um fyrirkomulag sem hefur bæði kosti og galla.

Samkvæmt þessu lagafrv. er gert ráð fyrir því að forseti skipi biskup til fimm ára að undangenginni kosningu presta, en það er einnig gengið út frá því að ráðherra, síðan kemur vald ráðherra, skipi vígslubiskupa til fimm ára í senn. Hér vil ég velta upp spurningunni um sjálfstæði kirkjunnar. Er það eðlilegt að framkvæmdarvaldið sé að ákveða hverjir það eru sem ganga næstir biskupi? Hjá öðrum ríkisstofnunum, og nú líki ég kirkjunni við þær með fyrirvara, er reglan sú að ráðherra skipar yfirmann stofnunar til fimm ára en síðan hefur sá yfirmaður eða forstöðumaður það vald að ráða þá sem næstir koma. En það eru undantekningar á þessu. Það er varðandi kirkjuna og það er varðandi háskólana sem ég ætla að koma hér að á eftir.

Ég hlýt að spyrja, hæstv. forseti, hvaða rök séu fyrir því. Það er ekkert minnst á rektorinn eða rektora háskólanna, hvernig þeir skuli valdir og skipaðir, og ég hygg að það tengist endurskoðun á lögum m.a. um Háskóla Íslands. En hér er kveðið mjög ákveðið á um það að ráðherra skipi prófessora og nú spyr ég: Hvert er samræmið? Hvers vegna á ráðherra að skipa prófessora sem eru kennarar í einstökum greinum í ákveðnum deildum innan háskólans? Hvers vegna fer ráðherrann allt í einu að fara þarna niður á næsta stig, prófessorana í háskólanum, en ekki í öðrum stofnunum. Ég spyr: Hver er reglan? Hvert er prinsippið sem þetta byggist á? Það er þannig samkvæmt gildandi lögum að háskólaprófessorar hafa verið skipaðir af forseta Íslands. Ég hygg að þarna sé um fortíðararf að ræða en mér finnst að við þurfum að skoða hvert samhengið er þarna á milli.

Jafnframt er verið að færa prófessora undir Kjaradóm og kjaranefnd og ásamt heimilislæknum. Ég get ekki látið hjá líða að harma þá þróun að fleiri og fleiri hópar meðal embættismanna ríkisins eru færðir undir Kjaradóm. Þessir hópar eru þar með að afsala sér samningsrétti og mér finnst það afar öfugsnúin þróun að fólk hætti að semja um eigin kjör. Mér finnst þetta afar slæm þróun. Og ég spyr um rökin fyrir því að prófessorar skuli fluttir undir Kjaradóm og kjaranefnd. Er það að beiðni þessara hópa? Hæstv. forsrh. kinkar kolli, en er það eitthvað sjálfsagt að verða við því? Hvaða rök eru fyrir því að allir prófessorar landsins sem eru skipaðir af ráðherra, og við það set ég spurningarmerki, séu jafnframt settir undir kjaranefnd?

Það er sem sagt reglan í þessu sem mér finnst vera meginatriðið. Það kann að vera að hér sé ýmislegt fleira á ferð sem þeir sjá sem fyrst og fremst vinna í viðkomandi stofnunum, en ég ætla þá að víkja að einstökum greinum. Það er þá fyrst 4. gr. Þar segir, með leyfi forseta, undir lok greinarinnar:

,,Nú er starfsmaður ráðuneytis ráðinn deildarstjóri og þarf þá eigi að auglýsa stöðuna sem hann er fluttur í.``

Samkvæmt lögum er meginreglan sú að störf skuli auglýst. Hér er um það að ræða að verið er að flytja menn til í starfi. Í athugasemd við 4. gr. segir að hér sé verið að leggja til að undanþágan, það hefur verið ákveðin undanþága í gildi, haldist um stöðu deildarstjóra og þjóni áfram hlutverki sem hluti af eðlilegu framgangskerfi starfsmanna ráðuneytanna. Þarna kemur enn þá spurning um regluna þegar þetta skarast. Hvað á að auglýsa og hvað er eðlilegt framgangskerfi? Er það eitthvað eðlilegt að menn séu fluttir, hækkaðir í tign án þess að stöður séu auglýstar? Mér finnst reglan svo óskýr í þessum lögum. Svona regla gildir um einstaka aðila og hver eru rökin? Hvað um aðra hópa? Hvers vegna er verið að undanskilja þetta tiltölulega háttsetta embættismenn?

Aðeins betur um biskup og það að skipa biskup til fimm ára í senn en það kemur fram í 26. gr. frv. Það verður mjög fróðlegt að heyra hver viðbrögð kirkjunnar verða við þessu og ég spyr hæstv. forsrh.: Finnst honum eðlilegt að framkvæmdarvaldið skipti sér af málefnum kirkjunnar með þessum hætti? Nú hefur sú regla verið í gildi frá því að fyrsti biskupinn var settur í embætti á Íslandi árið 1056, ef ég man rétt, að biskupar hafa verið kjörnir ótímabundinni kosningu og það kom fram í samtali mínu við klerkinn sem ég vitnaði til áðan að hann taldi að meðalseta biskupa á undanförnum áratugum hafi verið um 12 ár, þeir hafi að jafnaði setið um 12 ár. En við fundum dæmi um biskup sem sat 22 ár. Er biskupinn yfir Íslandi, höfuð íslensku þjóðkirkjunnar, eins og hver annar embættismaður sem á að skipa til fimm ára eða ber manni, karli eða konu, í slíku embætti að hafa aðra stöðu? Mér finnst þetta vera spurning sem þarf að velta mjög vel fyrir sér út frá stöðu kirkjunnar í íslensku samfélagi og íslensku stjórnkerfi. Þetta stingur mig. Ég er ekki sátt við þetta, fyrst og fremst vegna þess að mér finnst að kirkjan eigi sjálf að stjórna því hvernig hún velur sína æðstu embættismenn og hvernig að því er staðið. En auðvitað hafa atburðir síðustu ára sýnt að það eru mjög miklir veikleikar í stjórnkerfi kirkjunnar.

Ég held að ég sé búin að koma inn á allmörg þeirra atriða sem koma í næstu greinum, en hér er eitt atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. um í 77. gr. Það er einfaldlega orðalag sem ég staldraði við. Þar er verið að breyta lögum frá 1919. Samkvæmt lagasafninu eru líklega fyrstu lög um Hagstofu Íslands frá árinu 1913, en efnismgr. 77. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Hagstofunni stýrir hagstofustjóri skipaður af ráðherra til fimm ára í senn. Vanalega hefur sá einn rétt til þess starfa er lokið hefur háskólaprófi í stjórnfræði.``

[11:00]

Nú spyr ég hæstv. forsrh.: Hvað er stjórnfræði? Ég gekk á milli lögfræðinga í gær og spurði þá hvað þetta væri og þeir komu alveg af fjöllum. Ég hygg að hér sé um mjög gamalt orðalag að ræða, sennilega er þetta eitthvert gamalt heiti yfir hagfræði þó að ég sé alls ekki viss um þetta. Fyrst verið er að endurskoða þessi lög og breyta lögum er þá ekki ástæða til að taka þetta alveg sérstaklega og skýra hvað þarna er átt við? Ég fletti upp í lögunum og það er ekki nokkur leið að átta sig á því hvað þetta er. Hvað er stjórnfræði? Það er alveg örugglega ekki lögfræði, en þetta gæti alveg eins verið stjórnmálafræði í dag, menn sem hafa þekkingu á stjórnkerfinu og slíku. Ég beini því til nefndarinnar, þar sem ég er reyndar áheyrnarfulltrúi, og spyr hæstv. forsrh. hvort nokkuð mæli gegn því að þessu orðalagi verði breytt. Og af því að ég var að kíkja yfir þessi lög, þá sýndist mér að ekki væri vanþörf á því að endurskoða lögin um Hagstofu Íslands í ljósi allra þeirra breytinga sem orðið hafa á tækni og með tilkomu nýrra stofnana eins og Þjóðhagsstofnunar. Það er greinilegt að þetta skarast mjög mikið og ég vil beina því til hæstv. forsrh. að kíkja aðeins á það hvort ekki sé ástæða til að endurskoða þau lög. En alla vega tel ég að það þurfi að skýra þetta orðalag. Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta þýðir.

Í 78. gr. kemur fram að ráðherra skuli skipa sér til aðstoðar áfengisvarnaráðunaut til fimm ára í senn og ég átta mig ekki á því hvort eingöngu er um það að ræða að skipunin verði tímabundin eða hvort þetta tengist breytingum á þessum málum og þarf að skoða þetta nánar, breyta þessu nánar í samræmi við þær tillögur sem ríkisstjórnin var að setja fram varðandi vímuefnavarnir, áfengisvarnir og fleira slíkt. Það er svolítið erfitt að átta sig á því hvað hér er á ferð.

79. gr. snertir Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þar er uppbyggingin sú að þar er framkvæmdastjóri, og nú á ráðherra allt í einu að fara að skipa framkvæmdarstjóra en síðan á framkvæmdastjórinn að ráða yfirlækni. En hvaða hæfniskröfur eru gerðar til þessa framkvæmdastjóra? --- Nú er ljósið farið að blikka á mig, herra forseti, ég verð að reyna að ljúka máli mínu. Hvaða skilyrði á þessi maður að uppfylla? Ég hefði haldið að það væri eðlilegt að hann væri læknir, en ég átta mig ekki alveg á því. (Forseti hringir.)

Að síðustu, herra forseti, vil ég benda á að það er búið að afgreiða út úr efh.- og viðskn. frv. um löggildingarstofu og það tengist 99. gr. um Rafmagnseftirlit ríkisins þannig að við þurfum að vera vakandi yfir því að samræma þá breytingu þessum lögum. En tíma mínum er lokið og ég kem kannski með fleiri spurningar síðar.