Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:10:58 (1847)

1996-12-05 11:10:58# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:10]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í upphafi er ástæða til að rifja aðeins upp á hverju þetta frv. byggist, þ.e. lögunum um og réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, frv. sem var afgreitt frá Alþingi í vor. Þetta er fylgifrv. þess og var boðað að það mundi koma hér á haustdögum. Mikil andstaða var við það frv., bæði af hálfu stjórnarandstæðinga og stéttarfélaganna í landinu, mjög hörð gagnrýni sem gekk m.a. út á það að með frv. var gerð breyting á umgjörð kjarasamninga og þannig höfð óbein og að hluta til bein áhrif á laun. Það voru einkum tveir þættir nefndir í því sambandi. Það var svokölluð æviráðning og sú spurning sem þar var velt upp, þ.e. minni réttur fyrir sömu laun. Í þessu frv. er raunverulega staðfestur sá vilji eða sú útfærsla sem lögin frá því í vor lögðu upp með. Annað atriði sem var mjög mikið rætt voru svokölluð biðlaun, sem eins og hv. alþingismenn vita hefur að hluta til farið fyrir dómstóla alveg nákvæmlega eins og stjórnarandstaðan spáði fyrir á sínum tíma.

Með lögunum frá síðasta vori töldum við og stéttarfélögin að viss réttindamál væru veikt, svo sem veikindaréttur, fæðingarorlofsréttur, málskotsréttur. Þetta var á mörkum alþjóðlegra samninga, var alla vega í andstöðu við anda þeirra alþjóðlegu samninga sem hafa verið gerðir um vinnumál á undanförnum árum.

Það væri hægt að nefna nokkur atriði sem voru gagnrýnd sérstaklega varðandi þennan þátt, en ég ætla ekki að gera mikið í því, aðeins að reyna að tilgreina þau atriði sem tengjast þessu frv. Það má segja að frv. frá því í vor og þetta frv. staðfesti að það verða til a.m.k. þrenns konar flokkar af opinberum starfsmönnum, það eru embættismenn án samningsréttar sem lúta Kjaradómi eða kjaranefnd. Það eru sérstakir embættismenn, lögregluþjónar, tollverðir og fangaverðir. Það eru embættismenn sem hafa samningsrétt en síðan eru það almennir starfsmenn sem eru með gagnkvæman uppsagnarfrest, samningsrétt og verkfallsrétt eftir öðrum lögum. Þetta er orðin dálítið viðamikil flóra starfsmanna hins opinbera og svo má náttúrlega benda á að það eru fjölmargir starfsmenn sem vinna hjá opinberum aðilum sem eru í stéttarfélögum á almennum vinnumarkaði og er það sérstakt áhyggjuefni hvernig samræma á þá þætti og erum við einmitt að glíma við það í tengslum við lífeyrissjóðsfrv. sem hér var til umræðu í gær en við segjum ekkert nánar um það á þessu stigi málsins.

Það sem gert er hér er að það er afnumin svokölluð æviráðning í þessu frv. Það var nokkuð tekist á á sínum tíma. Forsetaskipun er afnumin nema gagnvart hæstaréttardómurum og biskup. Ég tek undir með hæstv. forsrh. varðandi hæstaréttardómarana. Ég tel að þeir hafi sérstöðu í okkar þjóðlífi og stjórnskipun. Eins og hér hefur reyndar komið fram er það e.t.v. meira spurning hvort biskup eigi að vera forsetaskipaður eða hvort hann eigi að vera skipaður á sama hátt og aðrir. Það er matsatriði. Almenna reglan er hins vegar sú að það er ótímabundin ráðning almennra starfsmanna með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Það hefði e.t.v. þurft að kanna hvort uppsagnarfrestur ætti í einhverjum tilvikum að vera lengri. Þetta eru málefni sem verða skoðuð í nefndinni.

Það vakna hins vegar ýmsar spurningar upp sem ég vil spyrja hæstv. forsrh. Í frv. er slitið sundur það sem verið hefur varðandi Þingvallanefnd og Þingvallaprest sem hefur verið þjóðgarðsvörður. Getur ráðherra rökstutt af hverju það er gert í þessu frv.? Í 4. gr. kemur fram að ekki verða auglýstar stöður deildarstjóra í ráðuneytum við tilfærslur. Ég tel að þarna sé verið að leggja út á vafasama braut. Menn eiga að hafa almennu regluna að auglýsa stöður. Með 7. gr. frv., sem ég er andvígur, eru aðstoðarmenn ráðherra gerðir að skrifstofustjórum. Skrifstofustjórar eru æðstu menn ráðuneyta fyrir utan ráðuneytisstjóra. Ég tel ekki ástæðu til að menn sem eru pólitískir aðstoðarmenn ráðherra fái stöðu skrifstofustjóra. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað taka þátt í því að búa þeim sérstaka stöðu í stjórnsýslunni en ekki tengja þá skrifstofustjórastöðu í hefðbundnu ráðuneyti. Þeir eru núna deildarstjórar, þeir eru settir aðeins ofar með þessari breytingu, en ég tel að það sé ekki rétt form á því að gera þá að skrifstofustjórum.

[11:15]

Síðan kem ég að því sem ég er mjög ósáttur við í þessu frv. Það er í 11. og 15. gr. frv. þar sem beinlínis er hægt að segja að það sé kássast upp á Alþingi. Þar er fjallað um þætti sem tengjast Alþingi. Ég veit ekki betur en í undirbúningi séu breytingar á lögum af hálfu forseta Alþingis. Mér finnst að Alþingi eigi að hafa frumkvæði um breytingar á stjórnskipun og starfsmönnum þess en það eigi ekki að koma frá framkvæmdarvaldinu í frv. Meðal annars er það fellt út að ríkisendurskoðandi sé starfsmaður Alþingis og rökstuðningur ráðuneytis að þetta sé bara eðlilegt. Þetta er náttúrlega fráleitt því að ríkisendurskoðandi er starfsmaður Alþingis og svona á ekki að taka á málum gagnvart löggjafarvaldinu.

Það er fellt niður að umboðsmaður Alþingis taki mið af reglum Alþingis. Þetta er fráleitt. Hann er umboðsmaður Alþingis og á að taka mið af reglum Alþingis. Alla vega ef nauðsynlegt er að gera breytingar, þá á Alþingi að gera það, en þær eiga ekki að bera að með þessum hætti. Í 15. gr. er breyting varðandi skipun skrifstofustjóra Alþingis. Það er einungis breyting á ráðningartíma sem er gerð þarna, en mér finnst að hún eigi að koma frá forseta þingsins en ekki frá forsrh. og ég vildi gjarnan fá afstöðu hæstv. forsrh. til þess hvort það sé að frumkvæði forseta þingsins, og hann getur þá beint þeirri áskorun til forseta og ég vil að frumkvæðið komi þaðan varðandi breytingar á því sem við kemur Alþingi.

Annað atriði sem ég vil vekja athygli á er að mjög víða er gert ráð fyrir skipun á varamönnum æðstu embættismanna, t.d. vararannsóknarlögreglustjóra, vararíkislögreglustjóra, varalögreglustjóra, varasáttasemjara. Það eru fleiri. Það eru pikkuð út nokkuð mörg embætti sem eru skipuð alveg sérstaklega, t.d. tveir aðstoðarforstjórar Hafrannsóknastofnunar, einn aðstoðarforstjóri RF. Svo er annars staðar forstjóri sjálfur látinn skipa alla sína undirmenn og staðgengla. Hér er ósamræmi í löggjöf og ekki góð vinnubrögð. Sums staðar er full ástæða til að hafa skipunina með sérstökum hætti, þ.e. ráðherraskipun. Á öðrum vígstöðvum er mjög eðlilegt að það sé yfirmaðurinn sem er ráðherraskipaður sem ráði þá sína undirmenn.

Það þarf að skoða sérstaklega öll ákvæði sem snerta lögreglumenn, tollverði og fangaverði. Í vor var mikið mál að finna því farveg og ég mun óska eftir því við efh.- og viðskn., sem fær þetta, að haft verði alveg sérstakt samráð við stéttarfélög þessara aðila vegna þess að þau koma til með að njóta og eiga að njóta vissrar sérstöðu í okkar stjórnskipun vegna eðlis starfs þeirra.

Ég nefndi hér varamenn áðan. Það er tekið t.d. út skipunarvald forstjóra Fangelsismálastofnunar að skipa forstöðumenn fangelsa. Menn þurfa að velta aðeins fyrir sér, ef menn hafa yfirmenn fangelsismála á annað borð, alveg burt séð frá því hver það er hverju sinni, hvort hann eigi þá að vera forráðamaður þeirra stofnana sem heyra að hluta til undir hann. Þetta er matsatriði. Mér finnst ekki vera samræmi í uppsetningu frv. hvað þennan þátt varðar.

Í 39. gr. er lögfest sú skipan að prestar séu skipaðir í fimm ár. Það er meginreglan. Ég minni á það að í vor vildu prestar fá skipun, vera embættismenn, vera ótímabundið skipaðir og ég vil spyrja hæstv. forsrh. hvort hann geti upplýst mig um það hvort fyrirhugaðar eru einhverjar breytingar á réttarstöðu presta, aðrar en koma fram í þessu frv. Ég held að það sé mjög mikilvægt ef það stendur til að breyta lögum um presta þannig að ráðning þeirra verði þá ekki bundin til fimm ára eða eitthvað þess háttar, ég veit ekki um það. En ég tel rétt að hæstv. ráðherra upplýsi í umræðunni hvort einhverjar aðrar breytingar varðandi þá starfsstétt séu fyrirhugaðar.

Það er líka hlutur sem þarf að skoða sérstaklega, ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. getur svarað nokkru um það hér, en það er varðandi starfsmenn á sviði málefna fatlaðra. Sá málaflokkur verður núna yfirtekinn af sveitarfélögunum og ég vil spyrja hvort réttarstaða þessara starfsmanna sé alveg að fullu tryggð með þessu frv., hvort ekki gæti skapast þar einhver óvissa einmitt út af þessum flutningi. Ég vildi mjög gjarnan ef hæstv. forsrh. getur þá gefið yfirlýsingar um að þess verði gætt að fullu að sú yfirfærsla gagnvart starfsmönnum muni gerast þannig að sátt verði um. Vitaskuld er alltaf visst réttaróöryggi og óöryggi starfsmanna við tilflutning á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga sem ég að öðru leyti styð mjög að skuli eiga sér stað, en það hafa vaknað upp spurningar um þennan þátt.

Í 68. gr. er felldur brott tölul. þar sem taldar eru upp þær starfsstéttir sem ekki geta farið í verkföll. Ég vil spyrja hvort hér sé um einhverjar efnisbreytingar að ræða. Þetta eru ákvæði sem tengjast Félagsdómi. Ég væri mjög þakklátur ef hæstv. ráðherra gæti skýrt 68. gr. betur, hvort þar sé um að ræða efnisbreytingar frá núverandi stöðu. Það kemur ekki glöggt fram í greininni né í skýringum.

Annað varðandi 74. gr., þar sem er líka bætt við í embættismannahópinn, það er bætt við hópinn í 22. gr. laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ég vildi gjarnan fá rökstuðning af hverju þessir einstaklingar eru þarna komnir inn, það eru komnir þarna yfirskattanefndarmenn og nokkrir aðrir, hvort þetta var geymt í vor eða hvort það eru sérstök rök fyrir því.

Einnig vildi ég fá skýringar á 11. og 12. tölul. því að þar er sagt: Þeir sem þar eru taldir, og vitnað í 83. og 111. gr. frv. Ég er hræddur um að hér sé einhver misskilningur eða óljóst orðalag á ferðinni því að það er ekki hægt að lesa greinarnar þannig á milli að úr því verði samfelldur lagatexti. Alla vega tókst mér það ekki í fyrstu umferð og væri gott ef skýring gæti fengist á því.

Í 78. gr. er fjallað um skipun áfengisvarnaráðunauta og gert svipað ákvæði og um aðra. Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að nú voru kynntar tillögur um breytingar á þessum þætti af hálfu dómsmrh. og heilbrrh., hvernig þessi grein komi til með að hafa áhrif á þær ráðagerðir, hvort hér sé um eitthvað að ræða sem menn verði þá að skoða betur í því samhengi.

Í 86. og 87. gr. eru stór mál á ferðinni vegna þess að þar eru gerðar efnisbreytingar varðandi heilsugæslu eða skipulag sjúkrahúsa. Valdsviði forstjóra og stjórnar sjúkrahúsa er breytt. Forstjóri mun ráða fólk til starfa en ekki stjórnir. Þetta er að mörgu leyti í samræmi við annað sem er í löggjöfinni en það sem ég vildi spyrja um er hvort haft hafi verið samráð við heilbrigðisstéttirnar um þennan þátt. Öll málefni sem snerta heilsugæslu eða heilsumál eru mjög viðkvæm. Sömuleiðis er getið um stöðu yfirlækna og hjúkrunarforstjóra. Það eru breytt ákvæði hvað þá aðila varðar gagnvart stjórnum og yfirmönnum stofnana og ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi málaflokkur sé skýrður alveg sérstaklega.

Ég vek athygli á 88. gr. sem fjallar um skipun forstjóra Tryggingastofnunar og um það er í sjálfu sér ekki neitt sérstakt að segja. Samkvæmt þessari grein skipar ráðherra ,,að fengnum tillögum tryggingaráðs``. Ég vil benda á að þetta orðalag þýðir að ráðherra getur skipað í sjálfu sér hvern sem er þegar hann er búin að fá tillögurnar. Það er spurning hvort menn eiga ekki að taka þetta fyrirkomulag upp, hvort menn gera það núna eða í sérstökum lögum, þannig að annaðhvort skipi ráðherra úr hópi þeirra sem tryggingaráð tilnefnir eða gera þetta með einhverjum öðrum hætti. Orðalagið á þessu er skýrt en ég er ekki alveg viss um að framkvæmdin sé einmitt sú sem tryggi nauðsynlegt samráð við tryggingaráð úr því að það er starfandi í stofnuninni. Þetta á reyndar við fleiri opinberar stofnanir, þetta sama orðalag.

100. gr. fjallar um rafmagnseftirlitið. Í þinginu hefur verið til afgreiðslu frv. um sameiningu á Rafmagnseftirliti og Löggildingarstofu og því vil ég spyrja hvort þetta ákvæði í 100. gr., um rafmagnseftirlit og skipun þar, hafi áhrif á framgang þess máls. Ég held að það sé mjög mikilvægt því að það er verið að vinna að því máli annars staðar hér í þinginu.

Sömuleiðis vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í 139. gr. Af hverju á ráðherra að skipa framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins? Þarna er eitt dæmi um það að sumt er ráðherra látinn skipa. Af hverju skipar þá ekki útvarpsstjóri, sem er vitaskuld yfirmaður útvarpsins, ekki framkvæmdastjórann? Þetta finnst mér vera vont í þessu frv. Mér finnst það eðlilegt að útvarpsstjóri skipi framkvæmdastjóra, þeir eru hans undirmenn. Og ég spyr: Af hverju er þetta haft þarna sérstaklega gagnvart Ríkisútvarpinu? Því að það er hægt að benda á sambærilegt ákvæði um þjóðminjasafn, sem er 148. gr. Þar skipar þjóðminjavörður sína undirmenn. Það er kannski ekki alltaf hægt að bera stofnanir saman að öllu leyti, en það verður að vera samræmi og það þarf þá alla vega að rökstyðja af hverju menn vilja hafa sérstakt vald eða aðkomu ráðherra að undirmannaskipun með þessum hætti eins og er víða í frv.

Eins og ég nefndi er þetta frv. eðlilegt framhald af lögunum frá því í vor sem við vorum mjög ósáttir við í stjórnarandstöðunni og gerðum athugasemdir við á mörgum sviðum. Hins vegar eru matsatriði, álitamál sem ég hef gert að nokkru að umtalsefni og óskað frekari skýringa á. Ýmislegt er vitaskuld til bóta í þessu frv. Það á ekkert að draga úr því að ýmislegt er til bóta. Þar sem ég gagnrýndi m.a. hvað harkalegast í frv. sl. vor var að ríkisumsvifum var ekki búin nútímaleg, stjórnunarleg umgjörð. Þetta var gamaldags frv. hvað þann þátt varðar. Það heldur að nokkru leyti áfram í þessu frv. og er svo sem ekkert við því að gera. Þetta er stjórnarstefnan sem hér kemur fram og það er þá alla vega skynsemi í því að það sé samræmi á milli þessara tveggja frumvarpa. Þetta frv. þarf hins vegar mjög vandaða umfjöllun í þinginu vegna þess að þetta snertir það margar starfsstéttir. Ég veit ekki hver er vilji hæstv. ráðherra með afgreiðslu málsins, en ég held að það væri farsælt að sem flestir kæmu að því að leggja til mála ef um breytingar verður að ræða því að hér erum við að ræða um einn viðkvæmasta þátt í samskiptum ríkisvaldsins við þegna sína sem er hin lagalega umgjörð fyrir starfsmenn sína. Og þó svo hér sé einungis fjallað um hluta starfsmanna, yfirmenn, þá kallar það á að við veitum þessu máli alveg sérstaka athygli hér í þinginu.