Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 11:34:26 (1851)

1996-12-05 11:34:26# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[11:34]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Svörin koma hægt og hægt hjá hæstv. forsrh. og það er vel. Ég vil minna á að ég spurði um þætti sem tengjast heilbrigðisþjónustunni, ég spurði um þætti sem tengjast málefnum fatlaðra, yfirtöku sveitarfélaganna á þeim þætti. Þetta eru atriði sem ég óska eftir að gerð verði skil síðar í umræðunni af hæstv. forsrh. Ég spurði m.a. um hvort fyrirhugaðar væru breytingar á löggjöf um presta. Ég spurði um ástæður fyrir þeirri uppstokkun sem er að eiga sér stað á Þingvöllum. Þó að það sé ekki stórmál væri fróðlegt að vita af hverju það er. Ég spurði um efnisbreytingar varðandi 68. gr., um verkfall og annað slíkt, þ.e. þá hópa sem teknir eru inn í embættismannahópinn. Það voru nokkrar mjög skýrt orðaðar spurningar fyrir utan það líka að ég óskaði eftir skýrari línu varðandi varamannsskipun og ráðherra hefur svarað því um nokkrar stofnanir sem ég spurði um. En ég bendi á að það eru nokkrir þættir sem er mjög brýnt að komi skýrari svör við eða hæstv. ráðherra fjalli um síðar í umræðunni, en ég þakka þó fyrir þau svör sem komin eru.