Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:03:40 (1857)

1996-12-05 12:03:40# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er fróðleg umræða sem hér fer fram og þá ekki síst orðaskiptin á milli manna. Ég vil leyfa mér í upphafi máls míns að segja við virðulegan hæstv. forsrh. að þó að Alþingi sé virðuleg bygging og hafi mikinn sess með þjóðinni, þá erum við þingmenn ekki að tala um húsið þegar við erum að tala um Alþingi og virðingu þess, Alþingi og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er af og frá og það er útúrsnúningur að reyna að halda því fram.

Það er heldur ekki hægt að neita því að þegar 40 þingmenn ákveða eitthvað á Alþingi Íslendinga sem telur 63 þingmenn, þá er það meiri hluti. En það getur verið annað mál og umhugsunarefni hvað þessir 40 þingmenn láta yfir sig ganga af hálfu framkvæmdarvaldsins og á hvern hátt þeir eru tilbúnir að lúta því sem komið er með inn á borð þingmanna og að láta það renna í gegn óátalið. Þess vegna er það, virðulegi forseti, að ef viðbrögð þingmanna í miklum meiri hluta eru farin að slævast, þá er það hlutverk stjórnarandstöðu að bregðast við og minna á gildi Alþingis og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega að tala til forsrh. svo ég vona að hann hlýði á mál mitt vegna þess að ég vil gjarnan segja við ráðherrann að bandormur er í eðli sínu óþingræðislegt fyrirbæri. Hann er eins konar hagræðingarmál framkvæmdarvaldsins og það hagræðingarmál á að fara varlega með. Það er hefð að bandormur er fluttur um ríkisfjármálin í tengslum við fjárlög þegar gerð fjárlaga er þess eðlis að hún tengist lagabreytingum. Og þann tíma sem ég hef verið á þingi hefur slíkur bandormur komið fram hverju sinni með fjárlögunum og þess vegna hef ég staðið að því að flytja og styðja slíkan bandorm. En bandormurinn sem settur var fram í desember sl. fyrir ári var að mínu mati á mörkum siðferðisins. Vegna hvers? Vegna þess að þá voru aftengd á einu bretti lagaákvæði um að ákveðnir tekjustofnar skyldu renna til fastra verkefna. Um 30--40 lögum var breytt varanlega í einum bandormi og það er allt, allt annað mál en áður hefur verið fylgifrv. fjárlaganna vegna þess að það er grundvallarmunur á að breyta varanlega lögum sem á sínum tíma fengu hefðbundna, góða umræðu hér á þinginu og ástæður þess að verkefnum eða framkvæmdum skyldi fenginn sérstakur tekjustofn fengu sterka og djúpa umræðu í þessum sal. En þegar bandormur með breytingum á 30 eða 40 lögum kemur með þessum hætti og slík lagaákvæði, sem mörg hver eru mjög mikilvæg, eru bara aftengd eins og ekkert hafi í skorist, þá erum við komin alveg á mörk siðferðisins. Það er grundvallarmunur á þessu eða því að flytja bandorm með ,,þrátt-fyrir``-ákvæðum. Þetta, virðulegi forseti, var um eðli bandorma og varnaðarorð mín um að fara varlega með þau mál.

Bornar hafa verið fram ýmsar athyglisverðar spurningar við einstakar greinar frv. og hv. 11. þm. Reykn., Ágúst Einarsson, hefur sem talsmaður þingflokks jafnaðarmanna farið mjög ítarlega yfir frv., borið fram spurningar og fengið svör við sumum þeirra af hálfu hæstv. forsrh. En mér finnst að spurningunum um 86. og að hluta 87. gr. sé enn þá að nokkru ósvarað hjá ráðherranum og bið þess vegna um að betur verði farið í þessar greinar. Það er verið að gera breytingar, sérstaklega með 86. gr., sem er erfitt að höndla. Í umsögn um 86. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Breyting á gildandi ákvæði samkvæmt a-lið felst í að tímabinda skipun forstjóra Ríkisspítala í samræmi við meginreglu 1. mgr. 23. gr. stml. og fela ráðherra að ráða þá er mynda framkvæmdastjórn Ríkisspítalanna.`` Þetta er mjög einfalt og auðskilið. En síðan kemur: ,,Samkvæmt gildandi stjórnskipulagi er hún [þ.e. framkvæmdastjórnin] mynduð af framkvæmdastjóra lækninga, hjúkrunarforstjóra, framkvæmdastjóra tæknisviðs og framkvæmdastjóra stjórnunarsviðs.`` Síðan segir:

,,Samkvæmt gildandi ákvæði eru framkvæmdastjórar sjúkrahúsa ráðnir til starfa. Sem forstöðumenn stofnana er í samræmi við stefnumið`` --- og svo er vísað í málsgreinar ,,lagt til að þeir komi að störfum sínum með skipun til fimm ára.`` Allt í lagi með það. Og svo segir:

,,Heilbr.- og trmrh. hefur staðfest sérstakt stjórnskipulag Ríkisspítala. Með vísan til þeirra starfsmanna, sem lagt er til að ráðherra skipi samkvæmt a-lið, þykir rétt að lögin geri ráð fyrir að slíkt stjórnskipulag sé fyrir hendi. Í d-lið er því lagt til að tekið sé upp ákvæði um það og hvernig að setningu þess skuli staðið.``

Því endurtek ég spurningarnar sem fram hafa komið varðandi 86. gr. og árétta: Hverju breytir það fyrirkomulag sem nú hefur verið staðfest um stjórnskipulag Ríkisspítalanna? Hverja mun ráðherrann ráða þegar upp er staðið samkvæmt lagabreytingum um 86. gr.? Og ég bið um það, virðulegi forseti, að forsrh. greini okkur frá því hverju er verið að breyta nákvæmlega með 86. gr. og af hverju verið er að gera þessa breytingu umfram það að breyta skipunartímanum sem er það sem verið er að gera almennt hjá yfirmönnum stofnana ríkisins.

En ástæða þess, virðulegi forseti, að ég kvaddi mér hljóðs eru aðrar greinar, þ.e. 11.--15. gr. og ég ætla að víkja að 11. gr. Hún er um ríkisendurskoðanda. Í umsögn um greinina segir að ríkisendurskoðandi sé ráðinn af forsetum Alþingis í sameiningu til sex ára í senn. Ég ætla ekkert að fjalla um það, virðulegi forseti, hvort ég sé sammála þeirri tillögu að breyta ráðningartímanum vegna þess að ég ætla að ræða það á öðrum vettvangi. En það sem ég vil leggja áherslu á er að ríkisendurskoðandi starfar á vegum Alþingis, hann er ráðinn af forsetum Alþingis. Á vegum Alþingis endurskoðar hann ríkisreikninga. Á vegum Alþingis hefur hann eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Á vegum Alþingis hefur hann eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þetta er stórt mál og þetta er meginmál varðandi ríkisendurskoðanda og þær tillögur sem er að finna í þessu frv. vegna þess að Ríkisendurskoðun er óháð.

Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að Ríkisendurskoðun komi ríkisstjórninni ekkert við nema að því leyti að ráðherrar eru jafnframt þingmenn. Hún á ekki að falla undir framkvæmdarvaldið. Fjmrn. á t.d. ekki að vera boðvald um fjárlög Alþingis. Í samvinnu við þingflokksformenn er forsætisnefnd með frv. í vinnslu um Ríkisendurskoðun. Virðulegi forseti og ágætir alþingismenn. Það frv. verður ekki flutt sem stjfrv. Það verður flutt af forsn. Þess vegna er mjög óeðlilegt að mínu mati að setja í stjfrv. ákvæði sem varða þessa stofnun. Það er algjörlega sérmál hvort það verður niðurstaða þeirra sem um véla að Alþingi fari sömu leið varðandi skipunartíma embættismanna sem um er fjallað í 11.--15. gr. Það má nefnilega segja það sama um umboðsmann Alþingis. Hann er samkvæmt núgildandi lögum kjörinn til fjögurra ára í senn á Alþingi að loknum hverjum kosningum til Alþingis. Í 12.--14. gr. er fjallað um embætti umboðsmanns Alþingis og hvernig um það skuli fara, og reyndar í 15. gr. um skrifstofustjóra Alþingis. Og þegar maður les þessar greinar, 11.--15. gr., hlýtur sú spurning að vakna hvort Alþingi heyri undir framkvæmdarvaldið.

Virðulegi forseti. Þetta er stóra spurning mín til forsrh. sem gengið hefur inn í hliðarherbergi. Heyrir Alþingi undir framkvæmdarvaldið? Mitt svar er nei, aldeilis ekki. Ætli því sé ekki öfugt farið? Greinar 11--15 gefa það til kynna og ég er þeim algjörlega mótfallin. Ég tel að þessar greinar eigi ekki heima í frv. Ég ætlast til þess að sú nefnd sem fær frv. til umfjöllunar felli 11.--15. gr. út úr frv. Það á síðan að vera verkefni forsn. að yfirfæra þau lög sem eiga við Ríkisendurskoðun, umboðsmann og skrifstofustjóra Alþingis. Það mun ekki standa á undirritaðri, þeirri sem hér stendur og er formaður þingflokks jafnaðarmanna, að koma af heilum hug að því máli, er reyndar þegar farinn að fjalla um frv. um Ríkisendurskoðun og umboðsmann. En þessar greinar, virðulegi forseti, eiga ekki að vera í þessu frv. og ég endurtek spurningu mína til forsrh.