Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:15:35 (1858)

1996-12-05 12:15:35# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:15]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er algjör misskilningur á stjórnskipan landsins og þinginu sem mér finnst eiginlega dapurlegt að heyra úr þessum ræðustól, að menn skuli vera svona algjörlega úti á þekju með hvernig þingræðinu er farið í landinu. Hver heldur hv. þm. að hafi sagt hér að Alþingi heyrði undir framkvæmdarvaldið? Það hefur ekki nokkur maður, nokkru sinni, nokkurn tímann látið þau orð út úr sér. Hvað er þá verið að tala um það úr þessum ræðustól? Hver heldur hv. þm. að hafi sagt þetta? Það vita allir að í landinu er þingbundin stjórn. Ríkisstjórn situr það lengi sem þingið vill. Spurningar af þessu tagi eru því afskaplega barnalegar, svo ekki sé nú meira sagt, og alveg út í himinblámann að koma með slíkar spurningar inn í umræður hér á þinginu.

En varðandi Ríkisendurskoðun þá er líka talað um það og talað rétt eins og í frv., eins og í bandorminum, sé verið taka Ríkisendurskoðun og færa undir framkvæmdarvaldið. Í 1. gr. laga um Ríkisendurskoðun segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun starfar á vegum Alþingis. Annast hún endurskoðun hjá ríkisstofnunum og þeim aðilum öðrum sem hafa með höndum rekstur eða fjárvörslu á vegum ríkisins. Enn fremur hefur hún eftirlit með framkvæmd fjárlaga.``

Er einhver að breyta þessu? Er einhver brtt. við þetta?

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan að ég hefði nefnt ríkisendurskoðanda og umboðsmann Alþingis hortitti. Það gerði ég aldrei og þetta hefði hann ekki átt að leyfa sér. Þetta eru svona málfundaæfingar þegar menn gera stundum aðeins meira en þeir ættu að gera. Það hef ég aldrei nefnt, að sjálfsögðu ekki, þá virðulegu embættismenn. Það er enginn að breyta neinu um eðli Ríkisendurskoðunar og sjálfstæði hennar eða umboðsmanns Alþingis. Þarna er einhver reginmisskilningur á ferðinni. Ég skil ekki alveg í hvaða far umræðan hér innan húss hefur farið um Alþingi því það er ekki í samræmi við lög og stjórnskipun landsins og þá þingræðislegu venju sem við búum við.