Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:21:01 (1861)

1996-12-05 12:21:01# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:21]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta nokkrum atriðum við ræðu mína frá því áðan og jafnframt víkja aðeins að þessu umræðuefni sem hér var í gangi síðustu mínúturnar og við áttum orðaskipti um, ég og hæstv. forsrh., fyrir nokkrum mínútum.

Ég held að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, hæstv. forseti, að það frv. sem hér er á ferðinni er ekki eins sakleysislegt að innihaldi og það var kynnt. Vegna þess að hérna er verið að draga inn í frv. alls konar breytingar á lögum sem hafa ekkert með samræmingarnauðsynina að gera. Þar eru ákvæði sem ég kalla smyglgóss. Það eru ákvæði sem snerta einstök ráðuneyti, og ég nefndi hér nokkur dæmi úr menntmrn. varðandi einstakar stöður manna sem eru í því ráðuneyti og eru mjög sérkennileg fyrirbæri og leifar frá gömlum tíma og má breytast. En hér er gerð tillaga um breytingu þar sem mér sýnist að ekki sé gætt samræmis og það er tortryggilegt vegna þess að það bendir til þess að þar hafi ráðherrann sjálfur eða einhverjir með honum ákveðið að nota þetta tækifæri til þess að taka til í ráðuneytinu hjá sér, með kúst og ryksugu eins og ég orðaði það áðan. Og þar er gert þetta við suma en annað við aðra og ekki gætt samræmis. Þetta ákvæði plús nokkur atriði t.d. í heilbrrn., sem ég tók eftir t.d. varðandi Ríkisspítalana, eru með þeim hætti að mér sýnist að þarna sé verið að breyta býsna miklu, miklu meira en menn vilja vera láta. Og það er ekki gott þannig að auðvitað mætti hugsa sér að fara höndum um þetta frv. og strika út úr því allt annað en það sem er bein samræming á lögum, gildandi lögum, við það sem ákveðið var í starfsmannalögunum almennt sl. vor. En eins og sakir standa eru þarna inni fjöldamörg önnur ákvæði eins og hæstv. forsrh. viðurkenndi reyndar í máli sínu hér áðan.

Varðandi hins vegar umræðuna um Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis og þau orð hæstv. forsrh. áðan að sú umræða um stöðu Alþingis væri á undarlegu stigi, þá segi ég bara takk sömuleiðis. Mér finnst ummæli hæstv. forsrh. í þessu samhengi á mjög undarlegu stigi, ég segi það alveg eins og er. Ég man svo langt, sitjandi hér á þingpöllum sem blaðamaður fyrir allmörgum árum, þegar umræðan hófst um umboðsmann Alþingis. Ég man satt að segja ekki hverjir hófu þá umræðu en ég hygg t.d. að Ólafur Jóhannesson hafi lagt þar mjög margt gott til mála en að því komu margir fleiri. Mér liggur við að segja að það hafi verið eins og uppgötvun fyrir Alþingi þegar þetta mál var rætt. Þarna væri verið að setja stöðu stjórnkerfisins undir alveg nýtt ljós og opna fyrir það að þingmenn þyrftu að taka sér tak til að tryggja tvímælalaust sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og sérstaklega stjórnsýslunni og þeim stjórnsýsluákvörðunum sem teknar eru á vegum framkvæmdarvaldsins. Þetta var gríðarlega mikið skref og til að undirstrika þetta skref enn frekar var ákveðið að kjósa umboðsmann hér í þessari stofnun. Hann var svo kosinn í sameinuðu þingi og seinna á Alþingi og um hann gilda þess vegna algjörlega sérstakar reglur. Og það er alveg ljóst að það er úrslitaatriði um sjálfstæði umboðsmanns og trúverðugleika hans að hann standi svo að segja eins og klettur í hafinu og það hríni ekkert á honum frá þeim aðilum sem hann á kannski aðallega að fjalla um, þ.e. ákvarðanir ráðherra og ráðuneyta og ríkisstofnana um einstök mál.

Allmörgum árum síðar kom upp þessi umræða um Ríkisendurskoðun. Eins og menn muna var Ríkisendurskoðun áður undir fjmrn. Ég held að það hafi verið hv. þm. Halldór Ásgrímsson sem flutti frv. fyrst um það að Ríkisendurskoðun yrði sjálfstæð stofnun en það var í rauninni frv. sem allir hefðu út af fyrir sig getað flutt vegna þess að um það var orðin allmikil samstaða. Ég man eftir þeim umræðum þegar þær fóru fram í efri deild Alþingis fyrst vegna þess að hv. þm. var þá þar. Þar töldu menn þetta skipta gríðarlega miklu máli og svo fór að lokum að fyrir Alþingi var lagt frv. um þetta efni og um það var fjallað í fjárhags- og viðskiptanefndum deildanna, í neðri deild undir forustu hv. þm. Páls Péturssonar. Í þeirri nefnd átti einnig sæti þá hv. þm. Friðrik Sophusson. Ég man vel eftir því að við fórum mjög vandlega yfir þetta frv., alveg línu fyrir línu og orð fyrir orð, til að reyna að treysta eins og mögulegt var trúverðugleika Ríkisendurskoðunar, öryggi hennar gagnvart framkvæmdarvaldinu og um leið það, sem er líka mikilvægt í þessu máli, að Ríkisendurskoðun héldi eins miklu sjálfstæði og mögulegt er sem sjálfstæð stofnun, t.d. ákváðum við að kjósa henni ekki sérstaka stjórn. Um það var rætt þá hvort yfirskoðunarmenn ríkisreiknings, sem voru þá kosnir samkvæmt stjórnarskránni, ættu að vera í stjórn Ríkisendurskoðunar en við vikum því frá okkur vegna þess að við töldum svo mikilvægt að ríkisendurskoðandi hefði mikið embættislegt sjálfstæði.

Þess vegna tel ég, hæstv. forseti, að það sé kominn alveg nýr kafli í þessa sögu, sem hófst með umræðunum um umboðsmann Alþingis fyrir kannski 20 árum eða svo og hefur staðið til dagsins í dag, þar sem allir þingmenn hafa tekið eindregið undir þau viðhorf sem uppi voru við setningu laganna um umboðsmann Alþingis og um Ríkisendurskoðun, að það ætti að treysta sjálfstæði Alþingis. Nýjasta umræðan sem fór fram um þetta með fulltrúum allra flokka hér í þessari stofnun, ítarleg umræða, var umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna ársins 1995 þar sem hæstv. forseti Alþingis, 1. þm. Reykn., flutti framsögu fyrir skýrslunni og ég man ekki betur en í þeirri umræðu tækju þátt þingmenn úr öllum flokkum sem tóku undir nauðsyn þess að Ríkisendurskoðun væri sjálfstæð stofnun. Nú segir hæstv. forsrh. að með þessu frv. sé ekki verið að breyta stöðu Ríkisendurskoðunar. Ég er ósammála því þó það sé ekki nema bara vegna þess, hæstv. forseti, að lagt er til að brott falli úr 5. gr. laganna ákvæði um að ríkisendurskoðandi sé starfsmaður Alþingis. Þetta er ekki þýðingarlaust ákvæði. Þetta er gríðarlega mikilvægt ákvæði fyrir Alþingi og það má að mínu mati ekki hrófla við því. Ef meiri hluti Alþingis tekur hins vegar ákvörðun um að hrófla við þessu ákvæði, þá hefur það sinn gang, og þingræðið er auðvitað það, eins og hæstv. forsrh. benti á áðan og ég hef kynnst, að meiri hlutinn ræður í málunum. En ég er alveg viss um það, og hef leyfi til þess jafnvel þó ég lenti í minni hluta, að þó að þetta yrði samþykkt þá er það vitlaust því það veikir stöðu stofnunarinnar gagnvart Alþingi. Það veikir stöðuna og gerir Alþingi sem sjálfstæðan aðila gagnvart framkvæmdarvaldinu ekki eins trúverðugt og það þyrfti að vera.