Sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:38:20 (1864)

1996-12-05 12:38:20# 121. lþ. 36.8 fundur 189. mál: #A sérákvæði laga er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:38]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. forsrh. og ekki hvað síst að hann taki undir athugasemd okkar eða kallar hana réttmæta, að ekki sé samræmi við ráðningu næstráðanda. Það var einmitt það sem við vöktum athygli á. Mér er fullkomlega ljóst að það eru mismunandi aðstæður í ríkisrekstrinum, til að mynda Ríkisútvarpið og heilbrigðisþjónustan eins og ráðherra tilgreindi sérstaklega, en ég benti einmitt á að það er ráðherra sem skipar tvo aðstoðarforstjóra að Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Þarna eru hlutir sem þarf einfaldlega að taka á. Það þarf að fara vel yfir frv. að því er þetta varðar því að það er hægt að koma vissri samræmingu í þetta þó svo að menn láti sérstöðu stofnananna ná fullu gildi sínu.

Ég legg áherslu á það, og gerði það í fyrri ræðu minni, að forræði Alþingis til breytinga á þingsköpum eða öðru sem varðar Alþingi, og frumkvæðið á að vera Alþingis. Það er þetta sem ég er að gagnrýna. Það er málsmeðferðin að þetta skuli bera að með þessum hætti. Ég er ekki að gera athugasemdir við greinarnar út af fyrir sig, en hér hefði farið miklu betur á að þingforseti eða forsn. hefði flutt tillögur um þær nauðsynlegu lagabreytingar sem leiddu af samþykkt laganna frá því í vor.

Ég bendi hins vegar á að ósvarað er nokkrum af fyrirspurnum mínum. Ég óskaði sérstaklega eftir því að fá að vita hvort fyrirhugaðar væru breytingar á tímaráðningu presta þó að gert sé ráð fyrir fimm árum hér. Er eitthvað á döfinni sem hugsanlega breytir þessu ákvæði? Hvað með breytingarnar í heilbrigðisþjónustu sem eru gerðar í þessu frv.? Ekki hefur komið nein skýring á því af hverju og hvers eðlis þær eru. Ekki heldur varðandi málefni fatlaðra sem ég óskaði eftir hvort yrði ekki tryggt við yfirfærslu til sveitarfélaganna. Þetta er atriði sem þurfa að koma skýrar fram við þessa 1. umr.