Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:41:14 (1866)

1996-12-05 12:41:14# 121. lþ. 36.9 fundur 173. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (sumarhús o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:41]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir litlu frv. á þskj. 190, um tekjustofna sveitarfélaga. Þannig er, herra forseti, að málefni sumarhúsaeigenda hafa valdið nokkrum deilum á undanförnum árum og sumarhúsaeigendur hafa verið óánægðir með gjöld sem þeim hefur verið gert að greiða og þeim hafa fundist ósanngjörn. Mér var ljóst að það þurfti að leita samkomulags og leysa þennan ágreining. Ég skipaði nefnd í samráði við hæstv. umhvrh. og formaður þeirrar nefndar var Ólafur Örn Haraldsson alþm. Tveir fulltrúar voru í nefndinni frá sveitarfélögunum og tveir fulltrúar frá sumarhúsaeigendum. Nefnd vann gott starf, varð einhuga um tillögur og þetta frv. er byggt á þeim tillögum.

Efni frv. er að breyta álagsprósentu fasteignaskatts og flokka sumarhús hliðstætt útihúsum í sveitum, en ekki eins og íbúðarhúsnæði eins og nú er gert. Rökin fyrir þessu eru þau að sumarhúsagestir eiga yfirleitt ekki lögheimili í sumarbústöðum sínum og þurfa ekki sömu þjónustu og íbúar í sveitarfélaginu. Þeir eiga ekki rétt á félagsþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi, ekki leikskólaplássum eða grunnskóla. Mér finnst að þetta séu sanngirnismál og því er þetta frv. flutt. Ég vil taka það fram að gott samkomulag var í nefndinni um málið og við Samband ísl. sveitarfélaga.

Það er ástæða til að nefna það að hér er ekki verið að létta byrðum sérstaklega af lúxusfólki. Venjulegur sumarhúsaeigandi á Íslandi er ekki endilega einhver ríkisbubbi heldur er hér um almenning að ræða. Það er fremur að lúxusfólkið eigi sér sumarhús í öðrum löndum eða fari til útlanda í sínum frítíma.

Ég geri tillögu um að frv. fari til meðferðar í hv. félmn., að lokinni þessari umræðu.