Fjöleignarhús

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 12:51:12 (1871)

1996-12-05 12:51:12# 121. lþ. 36.10 fundur 174. mál: #A fjöleignarhús# (eignaskiptayfirlýsing) frv., Frsm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[12:51]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús, með síðari breytingum. Allir nefndarmenn skrifa undir álitið.

Þetta er afar einfalt mál. Hér er verið að leggja til að framlengdur verði frestur á því að 4. mgr. 16. gr. laganna taki gildi, en í ljós hefur komið að það þarf lengri frest. Þetta mál snýst um það að skylt er að útbúa eignaskiptayfirlýsingar og að þær skuli vera skilyrði fyrir þinglýsingu á eignayfirfærslu í fjöleignarhúsum. En í ljós hefur komið að hér er um miklu flóknara mál að ræða en virtist í fyrstu og tekur langan tíma að sjá svo til að nógu margir séu færir um að gera þetta. Félmrn. barst beiðni frá Fasteignamati ríkisins, Félagi fasteignasala, byggingarfulltrúanum í Reykjavík og sýslumanninum í Reykjavík um að gildistöku þessa ákvæðis yrði frestað. Hér er lagt til að gildistöku verði frestað til 1. jan. 1999, en félmn. telur öll rök hníga til þess að svo verði gert.