Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 13:00:17 (1874)

1996-12-05 13:00:17# 121. lþ. 36.11 fundur 183. mál: #A almenn hegningarlög# (fíkniefni, þvætti) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:00]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af þessu frv. Ég vil fagna því að það skuli komið fram. Ég held að það sé mjög brýnt að við áttum okkur á þeim miklu breytingum sem eru að verða á fíkniefna- og afbrotaheiminum og að við erum ekkert utan hans, því miður. Eins og þeir sem fylgjast með fjölmiðlum urðu varir við, var hér í heimsókn í síðustu viku fulltrúi frá Interpol. Hann kom m.a. á fund til okkar í félmn. og það var eins og að vera viðstaddur spennandi leynilögreglusögu að hlusta á hann. Þar kom margt mjög athyglisvert fram og sýndi okkur fram á það að við þurfum svo sannarlega að opna augun og herða allt eftirlit og jafnframt refsingar, sérstaklega við fíkniefnabrotum, en auðvitað tengist ýmislegt annað alþjóðlegri glæpastarfsemi.

Aðalerindi mitt í þennan ræðustól var það að óska eftir því við hæstv. dómsmrh. eða beina því hreinlega til ríkisstjórnarinnar, að hún geri okkur hér á Alþingi grein fyrir þeim aðgerðum sem verið var að samþykkja í ríkisstjórninni. Ég teldi það mjög æskilegt að við fengjum stutta skýrslu um það þannig að okkur gæfist kostur á því að ræða þessi mál sem eru mjög í umræðunni úti í þjóðfélaginu. Síðast í morgun var fréttaþáttur í útvarpinu þar sem m.a. var verið að tala við skólanema. Allt sýnir þetta okkur hvað, því miður, þessi mál eru komin á alvarlegt stig. Ég held að bæði þing og ríkisstjórn eigi að sameinast um að setja svolítinn kraft í umræðu sem þarf að halda vakandi og að við tökum þá undir með ríkisstjórninni varðandi þær aðgerðir sem hún ætlar að efna til.