Lokun póststöðva

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 13:47:34 (1881)

1996-12-05 13:47:34# 121. lþ. 36.95 fundur 131#B lokun póststöðva# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[13:47]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég er einn þeirra sem hafa orðið varir við að starfsmenn hjá Pósti og síma hafa talsverðar áhyggjur af stöðu sinni við þessar breytingar og einnig íbúar á þeim svæðum þar sem fyrirhugað er að leggja niður t.d. pósthús. Það er alveg ljóst að lögin taka gildi þann 1. janúar og mörgum finnst reyndar að stjórnin sem starfar núna, þ.e. þessi undirbúningsstjórn, fari jafnvel hraðar en menn bjuggust við. Mig langar til í þessu sambandi að spyrja, vegna þess að þetta mál er til umfjöllunar: Hvernig er fyrirhugað að hátta þeirri þjónustu sem hefur verið á þessum stöðum eins og á pósthúsinu í Fljótunum eða í Þykkvabænum? Fá íbúar þessara svæða póstinn sinn daglega eða sjaldnar og þar fram eftir götunum? En ég legg auðvitað mikla áherslu á að menn fari sér ekki svo hratt í breytingum að starfsemi þessa fyrirtækis raskist meira en þegar hefur orðið.