Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 14:03:50 (1888)

1996-12-05 14:03:50# 121. lþ. 36.1 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:03]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem hv. 11. þm. Reykn. viðhafði hér áðan að í þessu frv. og öðrum sem hér eru til meðferðar núna, og eru dagskrárliðir 1--5, er verið að framkvæma skattastefnu sem við erum ósátt við, en að öðru leyti er um að ræða ýmsar tæknilegar leiðréttingar sem er í sjálfu sér ástæðulaust að gera miklar athugasemdir við. Hins vegar vil ég leggja á það áherslu fyrir okkar hönd, þingflokks Alþb. og óháðra, að við teljum að í tekjuskattslagabreytingum núna hefði átt að taka á skattamálum einstaklinga. Það alvarlega við þær tillögur sem hér liggja fyrir er að þar er hvergi komið nálægt jaðarskattavandamálum einstaklinganna, sem eru að sliga heimilin og þess vegna áskiljum við okkur rétt til að taka þau mál sérstaklega til meðferðar við 3. umr. málsins.