Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 14:09:26 (1891)

1996-12-05 14:09:26# 121. lþ. 36.1 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[14:09]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér er verið, að tillögu meiri hluta efh.- og viðskn., að taka algerlega nýtt ákvæði inn í skattalögin. Það er um skiptingu hlutafélaga. Þetta kom inn á síðustu stundu í nefndarstörfum, ekki að ósk fjmrh., ekki fjmrn., ekki meiri hluta í efh.- og viðskn. né minni hluta. Þessi hugmynd kom fyrst fram í umsögn frá Verslunarráði Íslands og er í sjálfu sér ekkert verri fyrir það. Málið er hins vegar illa undirbúið og það kom fram á nefndarfundi efh.- og viðskn. í morgun, þar sem við fengum Ólaf Nilsson og Árna Tómasson, tvo af virtustu endurskoðendum landsins, að þetta mál væri ekki nógu vel undirbúið og útfært. Þeir bentu á að lögfesting í þessu formi gæti kallað á fjölmörg undanskot frá skatti. Þessi vinnubrögð ganga ekki. Þess vegna segi ég nei.