Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 15:13:15 (1910)

1996-12-05 15:13:15# 121. lþ. 36.14 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:13]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins fá að koma að athugasemd vegna ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það er vissulega rétt að rætt var um aldurinn í allshn. í tengslum við þetta frv. en í nefndaráliti frá allshn. segir, með leyfi forseta:

,,Niðurstaðan varð að eðlilegast væri að miða við 16 ára aldur sem er sjálfræðissaldur.``

16 ára aldurinn er því viðmiðunin í þessu máli.

Ég vil líka fá að ítreka að þetta eru sömu aldursmörk og er miðað við í sambærilegri löggjöf á Norðurlöndunum. Það er ekki tekið beint fram í danska ákvæðinu en hins vegar kemur það beint fram í því norska.

Að öðru leyti get ég vissulega tekið undir áhyggjur þingmannsins um barnaklám á internetinu og mál sem þeim tengjast og vissulega er ástæða til að vera vel á verði og skoða þessi mál vandlega. En ég vil líka fá að ítreka það vegna þess að hér var talað um kynferðisafbrot gagnvart börnum sem ég tek undir að eru mjög alvarleg afbrot svo að ekki sé meira sagt, að ég gat þess í framsögu með nefndaráliti að við erum með mjög viðamikla refsilöggjöf um kynferðisafbrot gagnvart börnum. Það er hins vegar frekar spurning um framkvæmdina og hvernig hún hefur verið í tengslum við þessi ákvæði.