Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 05. desember 1996, kl. 15:15:08 (1911)

1996-12-05 15:15:08# 121. lþ. 36.14 fundur 29. mál: #A almenn hegningarlög# (barnaklám) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[15:15]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Út af orðum síðasta ræðumanns geri ég mér auðvitað fyllilega ljóst hvernig þessu er háttað á hinum Norðurlöndunum og að sjálfræðisaldurinn hér er 16 ár. Það er engu að síður mín skoðun að ég tel að það eigi að miða við 18 ár og ég hefði lagt fastar að því að miðað hefði verið við sjálfræðisaldurinn inni í frv. sjálfu eða lagatextanum ef sjálfræðisaldurinn hefði verið 18 ár. Það er mín skoðun að banna eigi slíkt samkvæmt því sem er í frv. og miða þar við 18 ára aldur.

Það er alveg rétt að hegningarlögin sem hv. síðasti ræðumaður vísaði til taka á þessu. En ég var sérstaklega að reyna að koma því á framfæri hvort ekki væri rétt --- sem ekki er núna --- að gera það að skyldu þegar uppvíst verður um meinta misnotkun gagnvart börnum, þá verði haldið þannig á málum í rannsókn þess að sérstaklega verði kannað hvort viðkomandi kynferðisafbrotamaður eða meintur kynferðisafbrotamaður hafi í fórum sínum barnaklám. Það er ein leið til að stemma stigu við þessu og tengist þeirri umræðu sem fram fer um þetta mál.