Störf fjárlaganefndar

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 15:08:31 (1921)

1996-12-09 15:08:31# 121. lþ. 37.96 fundur 134#B störf fjárlaganefndar# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:08]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka samstarfsmönnum mínum í fjárln. fyrir starfið þar. Það hefur gengið ágætlega og verið góð samvinna í nefndinni um framgang mála og ég verð að segja að vinnuvikan svokallaða nýttist vel í fjárln. En það er rétt að það hafa komið tilmæli frá ríkisstjórninni um að fá að skoða nánar áform um opinberar fjárfestingar á næsta ári með tilliti til horfa um aukna þjóðarframleiðslu og hættu á þenslu af þeim sökum. Sú skoðun hefur staðið yfir síðustu viku. Hún hefur tekið alllangan tíma, enda er þar ekkert auðvelt mál við að fást. Fjárfestingar ríkissjóðs hafa verið töluvert skornar niður á undanförnum árum þannig að svigrúmið er ekkert of mikið í þeim efnum. Þetta hefur því tekið allnokkurn tíma og sett tímaplan okkar aðeins úr skorðum. Hins vegar vil ég mælast til þess og veit að fjárlaganefndarmenn, bæði meiri hluti og minni hluti, telja ekki eftir sér að vinna vel þessa viku þannig að 2. umr. fjárlaga geti farið fram áður en vikunni lýkur. Ég mælist til þess að svo verði og hef ekki ástæðu til að ætla annað en svo verði. Ég hef átt viðræður í morgun við ráðherra ríkisstjórnarinnar og farið yfir stöðuna þannig að ég á von á því að við getum hafist handa.