Störf fjárlaganefndar

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 15:16:39 (1925)

1996-12-09 15:16:39# 121. lþ. 37.96 fundur 134#B störf fjárlaganefndar# (aths. um störf þingsins), GE
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[15:16]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir undirtektir við þá gagnrýni sem ég hef haft uppi og í rauninni þakka ég fyrir orð formanns og varaformanns fjárln. að öðru leyti en því að hv. síðasti ræðumaður féll í þá gryfju að fara að ræða um hvernig þetta var á síðasta þingi, hvernig þetta var á þinginu þar áður. Af hverju, herra forseti, var verið að gera tillögu að starfsháttabreytingum á Alþingi? Vegna þess að menn ætluðu að losna út úr því að vera á síðustu dögum þingsins í rugli. Þarf málum endilega að vera þann veg komið að af því að við bjuggum einu sinni í moldarkofum, þá eigum við að gera það áfram? Þarf það endilega að vera þannig að af því að í fyrra var umræðan svona seint þá þurfi hún endilega að vera aftur í haust svona seint? Það getur ekki verið. Ég þakkaði það áðan að hæstv. forseti lagði fram mjög góða verkáætlun, krafðist þess raunar af hæstv. ríkisstjórn að hún legði fram þau mál sem hún legði áherslu á og það hefur ekkert, herra forseti, breyst í þjóðfélaginu sem kallar á það að taka mál til endurskoðunar frekar en þau lágu fyrir í haust. Það hefur ekkert gerst. Þessi bygging álvers var fyrirhuguð og það hefur ekkert breyst um það. Þess vegna mótmæli ég enn og aftur, herra forseti, þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð að menn eru hreinlega verklausir vegna sleifarlags og sofandaháttar ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.