Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:04:09 (1929)

1996-12-09 16:04:09# 121. lþ. 37.11 fundur 120. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (framlög til menningarmála o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:04]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Frv. sem hér er flutt er fyrst og fremst um að leggja nýjar áherslur hvað varðar framlög til menningarmála, til kvikmyndagerðar sérstaklega og til vísindalegra rannsóknastarfa. Menn greinir ekki á um að sjálfstæði Íslendinga er undir því komið að við getum efnahagslega verið sjálfbjarga og við getum endurnýjað okkar menningu á hverjum tíma eins og við sjálf teljum rétt og eftir þeim leiðum sem tiltækar eru á hverjum tíma einnig til að við getum nýtt okkur þá tækni sem fyrir hendi er.

Í lögunum um tekjuskatt og eignarskatt hafa verið ákvæði þess efnis að ef um gjafir eða framlög er að ræða sem falla til tiltekinna málaflokka, þá geti fyrirtæki dregið slík framlög frá tekjum sínum. Það sem við viljum gera með þessu frv. er að lyfta sérstaklega tilteknum þáttum og það er eins og ég sagði áðan til þess að leggja nýjar áherslur.

Ég þarf ekki miklu að bæta við það sem hv. 1. flm. sagði áðan um kvikmyndagerð. Menn eru almennt sammála í orði um að kvikmyndagerð sé vaxtarsproti, ekki bara í íslenskri menningu heldur líka í íslensku efnahagslífi. Það gerðist hins vegar í fyrra við fjárlagagerðina eða öllu heldur í tengslum við hana í frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum að markaður tekjustofn Kvikmyndasjóðs var tekinn varanlega út. Það voru ákveðin skilaboð til þeirra sem vinna að kvikmyndaiðnaði í landinu að þessi markaði tekjustofn sem var þó það eina sem menn höfðu upp á að hlaupa varðandi stöðu sína og stuðning ríkisins, skyldi vera tekinn út. Þeir þingmenn sem nú standa að þingflokki jafnaðarmanna fluttu líka við fjárlagagerðina í fyrra tillögur um aukið framlag til kvikmyndagerðar. Það náði heldur ekki fram að ganga.

Með þessu frv. er verið að gefa þingheimi tækifæri og tilefni til að endurskoða hug sinn til þessara mála eða hugsa þau að nýju út frá þeim forsendum að um sé að ræða bæði mikilvægt atvinnumál og menningarmál. Og ég trúi ekki öðru en hv. þingmenn grípi þetta tækifæri fegins hendi og styðji það frv. sem hér liggur fyrir.

Það er ástæða til þess að vekja athygli á því að vísindalegum rannsóknastörfum er lyft hér sérstaklega. Menn eru sammála um að það þurfi að auka framleiðni í íslensku atvinnulífi, en vita jafnframt að það verður ekki gert nema þar haldist í hendur vísindarannsóknir og verkþekking í atvinnulífinu til þess að efla og lyfta þeim atvinnuvegum sem hér eiga sinn heimamarkað og eiga mesta möguleika á að þróast. Það hefur verið minnst á það oft og það hefur verið talið vandamál hversu litlum fjármunum hefur verið varið til vísindalegra rannsóknastarfa. Hér gefst þingmönnum einnig kostur á að láta álit sitt í ljós, hætta að tala og greiða atkvæði með því að þessi þáttur verði efldur sérstaklega.

Það kemur fram í frv. að ekki var hægt að fá upplýsingar um það hjá skattyfirvöldum hversu mikið það hefði kostað að hafa þessi ákvæði sem þegar eru í tekju- og eignarskattslögunum um að fyrirtæki megi draga frá gjafir eða framlög til tiltekinna málefna. Það er ekki hægt að fá upplýsingar um hversu mikið þetta er, hvorki þegar talað er um menningarmál né framlög til stjórnmálaflokka sem einhver hluti alþingismanna var einhvern tíma sammála um að setja þarna inn. Þess vegna getum við flutningsmenn ekki heldur sagt þingheimi hversu mikið það mundi kosta ef menn yrðu sammála um að lyfta þessum ákvæðum sérstaklega. Það er hins vegar óhætt að fullyrða að hvort sem menn efla kvikmyndagerð í landinu sérstaklega með ívilnandi aðgerðum eða vísindalegri rannsóknastarfsemi, þá erum við að leggja inn fyrir framtíðina. Og við getum gert okkur vonir um að einmitt ef við styrkjum þessa þætti, þá fáum við tekjur langt umfram gjöld vegna þess að einmitt þarna erum við að fjalla um hluti sem eru líklegastir til að skila okkur hagnaði bæði í beinhörðum peningum og einnig í menningarlegu tilliti. Þess vegna, herra forseti, geri ég mér vonir um að það frv. sem hér liggur fyrir fái ítarlega umfjöllun og niðurstaða manna verði sú að hér sé um að ræða þætti sem ekki sé bara rétt heldur sjálfsagt að styðja og þannig getum við verið samtaka í því að sækja fram fyrir hönd bæði íslenskrar menningar og íslensks atvinnulífs.