Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:11:05 (1931)

1996-12-09 16:11:05# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. GHall (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:11]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Meðflm. minn að þessum breytingum er hv. þm. Guðjón Guðmundsson.

Í 1. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Við 7. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svo\-hljóðandi:

Telji útgerð skips að ekki náist að veiða upp í úthlutað aflamark skips af einhverri tegund skal útgerðin tilkynna Fiskistofu um hve mikið af aflamarki tegundarinnar hún hyggst ekki nýta á fiskveiðiárinu. Aflamarki hverrar tegundar sem þannig er skilað til Fiskistofu skal úthlutað á fiskveiðiárinu, gegn umsýslugjaldi er renni í ríkissjóð, til skipa í eigu útgerða sem óska eftir viðbótarveiðiheimildum í viðkomandi tegundum. Aflamarki tegunda, sem ekki nýtast á fiskveiðiárinu og ekki er heimilt að flytja milli ára skv. 12. gr., skal í byrjun næsta fiskveiðiárs úthlutað gegn umsýslugjaldi til skipa í eigu útgerða sem óska eftir viðbótarveiðiheimildum í viðkomandi tegundum.

Umsýslugjald skal miðast við 5% af meðalverði viðkomandi tegundar á fiskmörkuðum innan lands á síðastliðnu fiskveiðiári.``

Í athugasemdum við 1. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Hér er um að ræða ný ákvæði um að útgerð geti skilað Fiskistofu veiðiheimildum sem ekki verða nýttar á fiskveiðiárinu og verði þeim þá úthlutað til annarra skipa gegn umsýslugjaldi. Jafnframt er gert ráð fyrir að veiðiheimildum, sem ekki nýttust á fiskveiðiárinu, verði úthlutað á næsta fiskveiðiári. Þessi úthlutun miðast við aflahlutdeild viðkomandi tegundar sérhvers skips. Ef einhverjar útgerðir óska ekki eftir úthlutun þessara veiðiheimilda skal úthluta þeim til skipa í eigu útgerða sem óska eftir viðbótarveiðiheimildum. Fyrir veiðiheimildir sem úthlutað er með þessum hætti greiða útgerðir sérstakt umsýslugjald er renni í ríkissjóð.

Þetta eru ný ákvæði og nauðsynleg til að tryggja að auðlindin verði nýtt á sem hagkvæmastan hátt.``

Í 2. gr. frv., sem er breyting á 11. gr. laganna, segir svo, með leyfi forseta:

,,2. mgr. orðast svo:

Við eigendaskipti að fiskiskipi fylgir aflahlutdeild þess.``

Svo segir í skýringum, með leyfi forseta:

,,Í a-lið er tekinn af allur vafi um að aflahlutdeild fylgir skipi við sölu þess innan lands. Þetta ákvæði á augljóslega ekki við þegar skip er selt úr landi eða það úrelt. Komi annað skip í stað þess sem úrelt var eða selt úr landi skal aflahlutdeild flytjast til þess. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að rýra veðhæfni skips þar sem útgerðin, sem átti skipið eða keypti það, heldur ávallt aflahlutdeild skipsins.

Þar sem frumvarpið veldur því að hvorki má leigja kvóta innan ársins né færa varanlega hluta af aflamarki milli skipa er sjálfgefið að 6. mgr. 11. gr. núgildandi laga falli brott, eins og kveðið er á um í b-lið.``

Í 3. gr. frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,12. gr. laganna orðast svo:

Heimilt er að skipta á aflamarki milli skipa, enda sé um jöfn skipti á tegundum að ræða að mati Fiskistofu. Þó er óheimilt að skipta aflamarki þeirra tegunda sem skipið fær til sín samkvæmt ákvæði 5. mgr. 7. gr. í lögum þessum.

Tilkynna skal Fiskistofu fyrir fram um skipti á aflamarki tegunda milli skipa og eru skiptin ekki heimil fyrr en Fiskistofa hefur staðfest móttöku tilkynningar um þau frá þeim sem hlut eiga að máli.

Annar flutningur á aflamarki milli skipa er óheimill.``

[16:15]

Um 3. gr. segir svo:

,,Hér er kveðið á um að ávallt sé öllum frjálst að skipta á jöfnum heimildum af þeim tegundum sem aflamarki sæta. Fiskistofa skal leggja mat á það hvort hér sé um jöfn skipti að ræða, ella væri þarna opin leið til þess að greiða fyrir mismun verðmætis, en frumvarpinu er einmitt ætlað að koma í veg fyrir það óeðlilega verslunarkerfi sem viðgengist hefur undanfarin ár samfara því ósætti sem ,,kvótabraskið`` hefur valdið.

Þá er jafnframt tekið fyrir það í 1. mgr. greinarinnar að skip, sem fær til sín aflaheimildir í tegund gegn greiðslu umsýslugjalds vegna vöntunar í þeirri tegund, noti þá tegund í skiptimynt í jöfnum skiptum enda markmið frumvarpsins að fái menn til sín aflaheimildir eða sé úthlutað þeim nýti þeir þær sjálfir. Það samrýmist einnig vel þeim meginmarkmiðum kvótakerfisins að jafna veiðiheimildum til þeirra sem þurfa þeirra með vegna verkefnisskorts og skömmtunar aðgangs að afla innan kvótakerfisins.``

Loks er tekið fram að önnur skipti en jöfn séu óheimil. Fiskistofa staðfestir að flutningur sé heimill í jöfnum skiptum.

Mér fannst rétt, virðulegi forseti, að gera grein fyrir hverri einstakri grein vegna þess að misvísandi fréttaflutningur hefur heyrst meðal manna hvað við flm. erum að fara. Þess vegna taldi ég rétt að gera ítarlega grein fyrir hverri grein fyrir sig. En í greinargerðinni segir svo, m.a.:

,,Það frumvarp til laga sem hér er lagt fram hefur þann tilgang að afnema að mestu leyti heimildir til framsals veiðiheimilda samkvæmt lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veiðiheimildum, sem ekki veiðast á fiskveiðiárinu, verði skilað til Fiskistofu og þeim síðan úthlutað til annarra skipa gegn umsýslugjaldi. Jafnframt er gert ráð fyrir að veiðiheimildum, sem eru ónýttar í lok fiskveiðiársins, verði úthlutað á næsta fiskveiðiári gegn umsýslugjaldi. Markmið frumvarpsins er að einfalda og auka skilvirkni gildandi kerfis um stjórn fiskveiða og renna þannig stoðum undir almennari þjóðarsátt þar um.

Framsal veiðiheimilda á grundvelli heimilda í lögum um stjórn fiskveiða hefur verið gagnrýnt látlaust á undanförnum árum. Gagnrýnin hefur verið færð fram af mörgum samtökum, félögum og einstaklingum úr öllum þjóðfélagshópum. Vafasamt er að þjóðarsátt sé um gildandi kerfi um stjórn fiskveiða, hvað þá heldur almenn sátt um framsal veiðiheimilda.

Yfirlýstur tilgangur með setningu laga um stjórn fiskveiða var af tvennum toga. Í fyrsta lagi átti kerfið að tryggja að heildarafli tegunda í kvóta skyldi vera innan þeirra marka sem stjórnvöld ákvæðu hverju sinni. Í öðru lagi var reiknað með að kerfið leiddi til aukinnar hagkvæmni í sjávarútvegi þar sem það mundi með sjálfvirkum hætti leiða til að afkastageta fiskiskipaflotans aðlagaðist afrakstursgetu fiskstofnanna við landið. Það sem átti að koma í kring þessari aðlögun var fyrst og fremst frjálst framsal veiðiheimilda og þröngar takmarkanir á aukinni veiðigetu fiskiskipaflotans, sbr. ákvæði um úreldingu fiskiskipa í samræmi við stækkun annarra fiskiskipa.

Afar erfitt er að mæla hreinan ávinning í sjávarútvegi, ef einhver er, af framsali veiðiheimilda þar sem taka verður tillit til ýmiss konar kostnaðar sem framsalið leiðir af sér. Í þessu sambandi ber að nefna beinan viðskiptakostnað samhliða samningum og umsjón með tilfærslum veiðiheimilda milli aðila, en fjöldi tilfærslna á hverju fiskveiðiári er mjög mikill.`` --- Sem fram mun koma á eftir þar sem meðflm. minn Guðjón Guðmundsson fékk svar frá hæstv. sjútvrh. um þessar fjölmörgu tilfærslur. --- ,,Þessi miklu umsvif með framsali veiðiheimilda hafa kallað á síaukið opinbert eftirlit til að sjá um að farið sé að lögum. Þá ber að nefna að framsal veiðiheimilda hefur í för með sér óbeinan kostnað sem stafar af miklu óöryggi í rekstri fyrirtækja og framfærslu heimila í þéttbýli á landsbyggðinni sem byggir afkomu sína fyrst og fremst á sjávarútvegi. Einnig ber að tilgreina tvö allsherjarverkföll sjómanna á fiskiskipum á undanförnum árum. Verkföllin má að stærstum hluta rekja til óánægju sjómanna með versnandi hlutskipti sitt þar sem þeir hafa nauðugir viljugir verið látnir taka þátt í kostnaði við kaup á veiðiheimildum. Þessi nauðung virðist enn eiga sér víða stað þrátt fyrir setningu nýrra ákvæða í ýmsum lögum til að spyrna við þessum gjörningum.``

Virðulegi forseti, í lok þessarar greinargerðar segir svo:

,,Eins og áður segir er vafasamt að framsal veiðiheimilda hafi skilað sjávarútveginum þeim ávinningi sem upphaflega var reiknað með. Hins vegar bendir ýmislegt til þess að framsalið leiði til aukins kostnaðar fyrir greinina og þjóðarbúið í heild. Ef heldur áfram sem horfir með óbreytt kerfi um stjórn fiskveiða má búast við vaxandi ósætti meðal þjóðarinnar í afstöðu hennar til kvótakerfisins. Við slíkar aðstæður verður ekki unað til langframa og er því nauðsynlegt að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt þannig að sem flestir geti sætt sig við þau. Það er meginmarkmið frumvarpsins.``

Á undanförnum árum hefur borið á ósætti meðal sjómanna vegna framsals á kvóta og mikil blaðaskrif hafa verið um framsal. Menn hafa velt málum fyrir sér í krónum talið hver viðskipti séu á milli aðila í sjávarútvegi. Því er haldið fram fullum fetum að þarna séu nærri 5 milljarðar sem menn eru að versla með í sambandi við framsal á kvóta. Ekki er langt síðan aðilar gáfu út töflu um hversu mikil kvótasala hefur farið fram og gefið hefur verið út hverjir högnuðust mest og hverjir keyptu mest. Ég tel ekki ástæðu til, virðulegur forseti, að fara yfir það en hér má þó sjá að sá sem hefur hagnast mest á kvótasölu eða leigu hefur haft á fjórða hundrað millj. kr. á síðasta fiskveiðiári.

Víða má líka sjá greinar í fjölmiðlum um kvótamálið eins og það er nú. Í blöðum má lesa að um þriðjungur botnfiskkvótans sé fluttur milli óskyldra aðila á árinu og alls 78% úthlutaðra aflaheimilda séu flutt á milli skipa. Menn hafa orð á því að kvótakerfið, eins og það er nú, sé tómt rugl.

Annað sem vekur líka athygli er að í öllum þeim tilfellum þegar kvóti er seldur milli skipa eða óskyldra útgerða eru sjómenn nærri utantekningarlaust látnir taka þátt í kvótakaupunum. Ef þeir hafa uppi andmæli þá er þeim nánast hótað brottrekstri eða að skipinu sé lagt og kvótinn seldur.

Menn spyrja sig að því hvað gerist þegar kvótinn er seldur. Getur verið að þannig sé haldið á málum að aðeins útgerðarmaðurinn hafi vegna dugnaðar áhafnar eignast svo mikinn kvóta þegar til sölunnar kemur? Þegar nánar er grennslast fyrir um það hversu mörg dæmi séu um að sjómenn hafi fengið greidda aflahlutdeild úr þeim kvóta sem seldur hefur verið, þá er aðeins til eitt dæmi um það. Það segir allt um það hvers konar ástand er orðið í þessari grein miðað við, eins og ég sagði áðan, að 78% úthlutaðra aflaheimilda eru flutt milli skipa.

Annað atriði í sambandi við framsalið er að í lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins er skýrt kveðið á um að ,,þegar afli fiskiskipa er seldur óunninn hér á landi er skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin fær fyrir hann.`` Þannig að þegar áhöfn er látin taka þátt í að kaupa kvóta er raunverulega verið að brjóta lögin, sem ég vitnaði til, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Það sem er verst í þessu máli er það að ef áhöfnin er ekki tilbúin til að taka þátt í þessum kvótakaupum þá er henni tilkynnt að skipið verði bundið og öllum sagt upp.

Það væri hægt að taka fjölmörg dæmi úr hinu daglega lífi í sambandi við þær sölur sem fara fram. Ég ætla aðeins að segja frá einu dæmi um útgerð á Norðurlandi sem gerir út tvö skip. Þar var áhöfnum bátanna tilkynnt að útgerðin hefði selt rækjuverksmiðju, allan kvótann af bátunum og því verði áhafnir að taka þátt í að kaupa kvóta af verksmiðjunni með útgerðum bátanna. Öðruvísi sé útilokað að halda bátunum við veiðar og þegar afurðaverð á rækju lækkar örlítið er áhöfninni sagt að nú verði að lækka rækjuverð til bátanna því útilokað sé að gera út á þessu verði þegar kaupa þurfi kvóta á 75--85 kr. kílóið. Þegar áhöfn annars bátsins tók treglega í hugmyndir um lækkun var henni sagt upp á framangreindum forsendum. Þessir aðilar höfðu ekki einu sinni fyrir því að flytja kvótann, sem verksmiðjan átti að hafa keypt af viðkomandi skipum, yfir á önnur skip og flytja til baka eftir því sem leigt var, að sögn, til skipanna heldur létu sögusögnina eina nægja.

Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, hef ég rakið gang mála í sambandi við þetta frv. Fjölmörg dæmi eru um það hvernig menn tala um þetta kvótakerfi. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. er ætlan okkar flm. fyrst og fremst að reyna að ná því fram sem við teljum að geti orðið til að veruleg sátt náist í þjóðfélaginu og meðal þjóðarinnar því mjög mikillar óánægju gætir, ekki hvað síst meðal sjómanna og almennings, með það kvótakerfi sem er við lýði og er óviðunandi að gangi svo fram. En við vonum að þetta mál nái fram að ganga. Ég lýk máli mínu með því, virðulegur forseti, að óska eftir að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. að umræðu lokinni.