Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:28:26 (1932)

1996-12-09 16:28:26# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:28]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Hæstv. forseti hefur skilmerkilega gert grein fyrir erindi mínu hingað í ræðustólinn, ég mæli fyrir 108. máli, sem varðar eitt tiltekið ákvæði laganna um stjórn fiskveiða, þ.e. svonefndar úreldingarkröfur.

Flm. ásamt mér eru hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Kristinn H. Gunnarsson og Sigurður Hlöðvesson, sem sat á þingi sem 1. varaþm. Alþb. og óháðra í Norðurl. v.

Frv. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

,,Þrátt fyrir kröfur 2. mgr. 5. gr. um úreldingu sambærilegs skips er heimilt að veita allt að 10% stærra skipi en úrelt er veiðileyfi ef nýja skipið er byggt samkvæmt nútímakröfum um fullkomnustu aðstöðu fyrir áhöfn. Ef endurnýjað er í slíku skipi sem ætlað er til veiða á uppsjávarfiskum og búið tækni til kælingar og hágæðameðferðar hráefnis má stærð hins nýja skips vera allt að 25% meiri en þess sem úrelt er. Ráðherra er heimilt að rýmka framangreind mörk í allt að 25% í fyrra tilvikinu og allt að 40% í því síðara ef hið nýja skip er smíðað í innlendri skipasmíðastöð.

Samhliða þeirri breytingu sem 1. mgr. mælir fyrir um skal ráðherra láta fara fram heildarendurskoðun á þeim reglum sem gilda um úreldingu fiskiskipa og skulu niðurstöður hennar lagðar fyrir Alþingi haustið 1997. Jafnframt falla ákvæði 1. mgr. úr gildi í árslok 1997.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Herra forseti. Það sem hér er á ferðinni er að lagt er til að dregið verði með ákvæði til bráðabirgða úr hinni stífu úreldingarkröfu sem í gildi er. Jafnframt verði tilhögun þessara mála tekin til heildarendurskoðunar og nýrri skipan komið á fyrir árslok 1997 og falli þá niður núgildandi ákvæði laganna um þetta efni og bráðabirgðaákvæði það sem hefur verið mælt fyrir.

[16:30]

Með öðrum orðum er fyrst og fremst verið að leggja til að heildarendurskoðun fari fram á þessu fyrirkomulagi en jafnframt tilteknar aðgerðir til bráðabirgða sökum þess ófremdarástands sem að mati tillögumanna ríkir í þessum efnum.

Ég held, herra forseti, að ekki þurfi að fjölyrða um það með hvaða hætti fiskveiðum við Ísland er stýrt um þessar mundir. Þar gildir fyrirkomulag aflakvóta og ekki er að sjá að í vændum séu miklar breytingar, a.m.k. ekki í grundvallaratriðum. Það er þar af leiðandi meginaðferðin við að takmarka ásókn í fiskstofna auk að vísu fjölmargra annarra ráðstafana og friðunaraðgerða sem beitt er og nægir þar að nefna reglur um veiðarfæri, svæðisbundnar friðanir og fleira í þeim dúr. Það kemur því nokkuð spánskt fyrir sjónir að eftir sem áður hafi menn, allan tíma kvótakerfisins og talsvert fram yfir til hliðar við aflakvótakerfið og þær takmarkanir sem á því byggja, keypt samhliða takmarkandi kerfi hvað varðar stærð fiskiskipaflotans. Og nú á seinni árum þannig að úrelda þarf eða hverfa þarf úr flotanum ein rúmlest fyrir hverja rúmlest sem í hann bætist í nýju skipi ef hið nýja skip á að hafa veiðileyfi innan efnahagslögsögu Íslands.

Þetta hefur smátt og smátt leitt til þess að viðbótarkostnaður eða þröskuldur hefur myndast gagnvart endurnýjun fiskiskipa sem liggur fólginn í þessum rúmlestum sem nú ganga kaupum og sölum fyrir háar upphæðir. Lætur nærri að gangverð á rúmlest til úreldingar eða á móti endurnýjun í fiskiskipi sé 80 þús. kr. um þessar mundir. Nokkru minna ef smábátar eiga í hlut. Það sem er þó að mínu mati, herra forseti, langalvarlegast er að því verður ekki á móti mælt að þessi tilhögun er mikill hemill á endurnýjun í íslenska fiskiskipaflotanum. Í raun er það svo að mönnum er sérstaklega refsað fyrir að taka nýjungar inn í flotann hvort sem þær snúa að meðferð hráefnis, aukinni vinnslugetu og jafnvel það sem fáránlegast er af öllu, að bættum aðbúnaði áhafnar. Lagt er því til að sem almenn regla verði heimilt í bráðabirgðaákvæðinu að rýmka a.m.k. þessar reglur um 10% þegar nýtt skip með fullkomnum nútímalegum aðbúnaði fyrir áhöfn kemur í stað annars og eldra sem ekki er jafn vel búið að þessu leyti.

Ég hygg að flestir þekki það sem einhverja nasasjón hafa af sjávarútvegsmálum hversu gífurlegar breytingar hafa orðið í fiskiskipum á 10--20 árum, svo ekki sé nú farið lengra aftur, hvað varðar kröfur um aðbúnað áhafna. Það lætur nærri, að mati fagmanna, ef endurnýjað er t.d. 30 ára gamalt fiskveiðiskip, sem þótti fullkomið og vel búið á sínum tíma, í öðru nýju í dag hafi það rými sem fer til íbúðar fyrir áhöfn aukist um 100%. Það er mat tæknifróðra manna sem ég hef borið þetta undir. Það kemur því úr hörðustu átt að jafnvel gagnvart þessum þætti skuli mönnum sérstaklega refsað og menn þurfi að kaupa viðbótarrúmlestir út úr flotanum til þess eins að geta búið með nútímalegum hætti að áhöfn þegar skip er endurnýjað.

Það er okkar skoðun að þetta ástand sé hvað alvarlegast eins og það bitnar á endurnýjun nótaskipaflotans eða þess hluta flotans sem sérstaklega sérhæfir sig í veiðum á uppsjávarfiskum. Þar hafa orðið mjög miklar breytingar hvað varðar kröfur um meðferð hráefnis og ljóst er að skip sem á að vera sæmilega vel búið hvað varðar nýjustu tækni til kælimeðferðar á hráefni hefur a.m.k. 20% minni burðargetu en eldra skip sem ekki býr yfir slíkri tækni. Þar er því í gangi yfirstuðull sem nemur þessu ef menn vilja endurnýja og gera þannig að unnt sé að svara kalli tímans um bætta hráefnismeðferð. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, herra forseti, hversu fráleitt frá þjóðhagslegu sjónarmiði það er að refsa mönnum sérstaklega ef þeir vilja bæta meðferð hráefnis og auka verðmæti framleiðslunnar. Þannig verkar þetta ákvæði í reynd. Ég fullyrði, herra forseti, að sá þröskuldur sem þarna hefur verið á ferðinni hefur bakað íslenskum sjávarútvegi og íslensku þjóðarbúi ómælt tjón á undanförnum missirum og mér er nær að halda að það mælist í milljörðum kr. frekar en hundruðum milljóna ef allt væri til talið.

Ein afleiðing þessa ákvæðis eins og það t.d. birtist okkur gagnvart nótaskipaflotanum er sú tilhneiging að fara frekar út í lagfæringar og endurbætur á eldri skipum en endurnýja í nýjum. Sú er líka niðurstaðan að nánast öll endurnýjun í íslenska nótaskipaflotanum er í formi annaðhvort kaupa á 15--20 ára gömlum skipum erlendis frá eða í endurbyggingu, lengingu, hækkun, breikkun, dýpkun og teygingu og togun á alla enda og kanta á 30--40 ára gömlum skipum, sem upphaflega voru kannski byggð sem fjórðungur af þeirri burðargetu sem þeim er ætluð í dag. Það eru meira að segja til eintök í íslenska flotanum þar sem búið er að byggja algjörlega utan um gamla bátinn og hægt er að ganga hringinn í kringum hann inni í nýja skipinu. Þetta kemur til af því, herra forseti, að í lögunum er sérstakt ákvæði sem felur í sér að heimilt er að stækka skip ef skrokkurinn er eldri en frá 1986, án þess að kaupa sérstaklega inn fyrir stækkuninni úreldingu á móti. Þetta ákvæði verkar hvetjandi í þá átt að lagfæra frekar gömlu skipin en kaupa önnur ný. Það hefur síðan leitt til þess að endurnýjun í íslenska nótaskipaflotanum, sem fyrir 30 árum var einn sá fullkomnasti í heimi og Íslendingar stærðu sig þá af því að byggja fullkomnustu nótaveiðibáta og síldveiðibáta heimsins, fer nú fram í því formi að annaðhvort erum við að sjóða utan á, ofan á, aftan á og framan á 30 ára gamla báta eða kaupa þá sem nágrannar okkar í Skotlandi, Noregi, á Írlandi og í fleiri löndum eru að leggja, í staðinn fyrir ný skip sem þeir eru að taka í notkun. Það er heldur dapurlegt, herra forseti, að sjá hvernig komið er fyrir þeirri þjóð sem býr yfir hvað álitlegustum veiðimöguleikum á uppsjávarfiskum allra þjóða í heiminum ef e.t.v. Suður-Ameríkumenn eru undanskildir. En svona er þetta samt.

Þetta hefur að sjálfsögðu þau áhrif að miklu hægar gengur en ella að höndla þá miklu möguleika til aukinnar verðmætasköpunar sem að margra dómi felast í stóraukinni nýtingu hinna miklu fiskstofna uppsjávarfiska til manneldis. Forsenda þess að okkur miði áfram í aukinni manneldisnýtingu síldar og loðnu og jafnvel fleiri tegunda uppsjávarfiska, sem eru í lögsögunni eða í nágrenni við hana, er að sjálfsögðu sú að við höfum yfir að ráða flota sem geti flutt manneldishæft hráefni að landi. En svo er ekki nema í mjög takmörkuðum mæli enn sem komið er.

Herra forseti. Ég held að ekki sé fjarri lagi að ætla að verðmætasköpunarmöguleikar með því að auka hlutdeild þess hluta fiskstofnanna, uppsjávarfiskanna, sem fara til manneldis gætu verið 5--10 milljarðar kr. á jafnmörgum árum ef vel væri að verki staðið. Það væri fróðlegt, herra forseti, fyrir menn að fara yfir eitt reikningsdæmi um það frammi fyrir hverju útgerðarmaður stendur sem er að velta því fyrir sér hvort hann eigi að endurnýja 30 ára gamalt meðalstórt loðnuskip í öðru nýju, sem við mundum geta orðið sammála um að samsvaraði jafn vel kröfum tímans í dag, eins og 30 ára gamla skipið gerði þegar það kom. Væri að flestu leyti tæknilega og rekstrarlega eins vel búið og kostur væri. Það má auðveldlega setja upp slík dæmi og það er ljóst að viðbótarkostnaðurinn, þröskuldurinn sem þarf að yfirstíga við slíka endurnýjun getur hæglega verið af stærðargráðunni 150--200 millj. kr., þ.e. þegar búið er að borga hið nýja skip í hólf og gólf, svo ekki sé talað um ef þarf að leggja því til auknar veiðiheimildir og búið að kljúfa alla þá fjárfestingu. Þá eru eftir 150--200 millj. kr. til að kaupa út tonn úr flotanum. Auðvitað á að mörgu leyti það sama við um aðra hluta íslenska fiskiskipaflotans en nótaveiðiskipin. Þar má nefna til að mynda vertíðarbátaflotann sem er orðinn mjög gamall, sem er orðinn hættulega gamall, og hefur ekki endurnýjast með þeim hraða sem æskilegt væri á undanförnum árum. Í reynd gildir þetta að nokkru leyti almennt um flotann samanber það sem áður sagði, t.d. um stórauknar kröfur varðandi aðbúnað áhafnar.

Á undanförnum mánuðum hafa verið nokkrar umræður, herra forseti, í þjóðfélaginu um aðbúnað sjómanna t.d. á úthafsveiðiflotanum. Skyldi það nú ekki vera svo að í takt við þá umræðu væri frekar ástæða til að huga að aðgerðum sem verkuðu hvetjandi en ekki letjandi á útgerðarmenn að reyna að búa þar vel að mönnum í löngum útiverum á fjarlægum miðum. Vissulega er það víða gert en því er ekki að leyna að hluti flotans sem stundar þessar veiðar er gamall og byggður miðað við aðrar kröfur um aðbúnað en gerðar eru í dag og hefur ekki upp á sömu möguleika að bjóða varðandi tómstundaiðkun og líkamsrækt og aðra slíka hluti sem nú þykja sjálfsagðir í nýjum skipum, sem betur fer því mörg af nýjustu og glæsilegustu skipum flotans, t.d. flestir nýju frystitogaranna, hafa það upp á að bjóða. En vilji útgerðarmenn ráðast í fjárfestingar sem sérstaklega beinast að því að auka möguleika þessara skipa eða endurnýja þau í öðrum, sem betur eru búin, þá standa þeir frammi fyrir þessum þröskuldi að yfirstíga, þar sem eru úreldingarreglurnar.

Herra forseti. Ég held að löngu tímabært sé að menn geri upp við sig með hvaða fyrirkomulagi á að stjórna fiskveiðum við Ísland í grundvallaratriðum á næstu árum og menn dragi ekki með sér inn í framtíðina reglugerðarverk af því tagi sem þessar úreldingarreglur í raun og veru eru. Það er löngu tímabært að taka það fyrirkomulag allt til heildarendurskoðunar.

Í tillögunni eða frv. er í sjálfu sér ekki mælt fyrir um það að hverju slík endurskoðun skuli sérstaklega miða. Þó kemur fram og það er okkar skoðun flm. að stefna beri að því að reyna að komast út úr því fyrirkomulagi í áföngum eða með einhverjum þeim hætti sem er ásættanlegur og gefur hæfilega aðlögun að breytingum.

Ég vil fara nokkrum orðum, herra forseti, um þann þátt frv. að heimilt sé að hafa úreldingarreglur rýmri eða úreldingarkröfurnar vægari ef um er að ræða endurnýjun í íslenskri skipasmíðastöð í staðinn fyrir erlendri. Hugsunin á bak við þetta ákvæði er ósköp einföld. Hún er sú að enn keppir íslenskur skipasmíðaiðnaður við ríkisstyrktan og niðurgreiddan skipaiðnað í nágrannalöndunum þrátt fyrir loforð um að draga úr og afnema þá styrki af hálfu bæði Evrópusambandsríkjanna og landa, eins og Noregs. Eftir sem áður er um umtalsverða ríkisstyrki í formi vaxtaniðurgreiðslna eða annarra slíkra þátta að ræða. Afleiðingar þessa langvarandi ástands sem verið hefur eru skelfilegar og þær blasa við. Það er þyngra en tárum taki að horfast í augu við það hvernig íslenskur skipasmíðaiðnaður var í raun látinn hrynja til grunna vegna þessarar ósanngjörnu og vonlausu samkeppnisstöðu sem honum var ætlað að starfa í. Bent er á atriði sem út af fyrir sig hefur oft áður verið nefnt þar sem það er algjörlega útlátalaust, kostar ekki eina einustu krónu fyrir íslensk stjórnvöld að beita tilteknum aðgerðum sem koma til móts við skipasmíðaiðnaðinn og vega upp á móti þessum ósanngjörnu samkeppnisskilyrðum sem honum hefur verið ætlað að búa við.

Það er auðvitað ljóst að fæstar íslensku skipasmíðastöðvarnar og sennilega engin eru í stakk búnar til að byggja stór og nútímaleg skip í dag frá grunni á samkeppnishæfu verði. Það er þó margra mat, sem um þetta fjalla að væri slíkur stuðningur í einhverju formi fyrir hendi sem hér er mælt fyrir um, sem gæfi útgerðarmönnum verulega hvatningu til að reyna að beina verkefnum til innlendra stöðva, þá gætu verkin komist inn í landið a.m.k. að því leyti til að skrokkar sem að einhverju eða öllu leyti væru byggðir erlendis yrðu settir hér saman og settur niður í þá búnaður og hönnun og verkstjórn væri í höndum Íslendinga. Það gæti aftur orðið upphafið að því að koma fótunum undir eiginlegar innlendar skipasmíðar á nýjan leik. Auðvitað hlýtur það vera keppikefli og markmið okkar Íslendinga, fiskveiði-, útgerðar- og siglingaþjóðar, að eiga okkar eigin skipasmíðaiðnað, ekki bara stöðvar sem geta sinnt minni háttar viðhaldsverkefnum og skvett á skipin málningu endrum og sinnum, þó það sé gott svo langt sem það nær. Það er lítill metnaður í því fólginn, herra forseti, að horfa upp á ástandið eins og það er orðið. Er þá ekki verið að gera lítið úr hetjulegri baráttu margra innan skipasmíðaiðnaðarins undanfarin ár við að halda sínum fyrirtækjum á floti eða endurreisa þau.

[16:45]

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð. Ég tel yfirgnæfandi rök mæla með því að taka fyrirkomulag þessara mála til endurskoðunar. Um það hefur víða verið ályktað á undanförnum mánuðum og missirum. Mér er nær að halda að öll helstu heildarsamtök útgerðarinnar hafi ályktað á einn eða annan hátt í þá veru. Og ég þykist mega fullyrða að það sé mjög vaxandi stuðningur við það og skilningur á því að þessar reglur eins og þær eru við lýði í dag eru okkur ekki hagstæðar. Þær eru beinlínis óhagkvæmar og skaðlegar fyrir þjóðarbúið og fyrir greinina. Þær eru að mínu mati einnig ákveðin forsjárhyggja sem á ekki að sjást. Ég hef oft spurt að því áður og fengið fá svör, hvaða sérstöku vísindi liggi á bak við þessar úreldingarreglur eins og þær eru framkvæmdar, hvaðan mönnum komi sú speki að stjórnvöld séu betur til þess fallin að ákveða með hvernig skipum og hve stórum útgerðarmenn sækja þann afla sem þeim er heimilt samkvæmt útgefnum veiðiheimildum.

Einn sérstakur viðbótarþáttur í þetta samhengi, sem kallar þótt ekkert annað kæmi til á heildarendurskoðun þessara mála, er að sjálfsögðu úthafsveiðarnar, þeir möguleikar sem menn hafa tekið að nýta sér utan landhelginnar sem kalla að sjálfsögðu á skip og sóknargetu. Í tengslum við þetta mál er að mínu mati einnig nauðsynlegt að taka skráningarreglur íslenska flotans til heildarendurskoðunar þannig að mönnum verði auðveldað að skrá skip, færa þau milli landa og milli verkefna, vera með þau í rekstri hluta ársins utan landhelgi og hluta ársins innan þannig að það komist nægjanlegur sveigjanleiki í meðferð þessara mála og við getum nýtt okkur með sem allra hagkvæmustum hætti þá möguleika sem eru til þess að beita flotanum bæði utan og innan landhelginnar. Núverandi regluverk, núverandi ofstjórn liggur mér við að segja, sem felst annars vegar í úreltum skráningarreglum og hins vegar í þessum úreldingarreglum, er auðvitað stórkostlega hamlandi í þessum efnum. Það er alveg staðreynd. Varla þarf að efa að stuðningur sjómanna hlýtur a.m.k. að vera fyrir hendi hvað varðar þann þátt málsins að útgerðinni sé ekki beinlínis refsað fyrir að búa betur að áhöfn sinni eins og gert er í dag. Ég held, herra forseti, að öll rök hnígi að því að endurskoða meðferð þessara mála og það tafarlaust. Nógu mikill tími hefur farið í að velta þessum hlutum fyrir sér. Ég bind vonir við að þetta mál fái nú alvöru skoðun á yfirstandandi þingi og afgreiðslu hér með farsælum hætti, auðvitað helst strax í gær, ef þess væri kostur, næstbest væri fyrir áramót en í þriðja og síðasta lagi alveg örugglega fyrir vorið. Þannig að með nýju fiskveiðiári sem hefst 1. september næstkomandi verði ný skipan þessara mála í höfn.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni þessari umræðu.