Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:54:21 (1935)

1996-12-09 16:54:21# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., Flm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:54]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek þakkir til hv. þm. fyrir að leggja þetta mál hér fram. Það sem vekur mann auðvitað til umhugsunar er þegar nýleg dæmi eru um að loðnuskipum hefur verið breytt eða þau verið stækkuð en meginbúnaður þess skips sem breytt var er kannski gamall skrokkur inni í nýjum. Þetta er orðið með slíkum ólíkindum að það er ekki viðunandi og ég tel að þetta hafi verið mjög tímabært og þarft frv. sem hv. þm. leggja hér fram. Ég mun að sjálfsögðu leggja mig allan fram um að vinna með þeim heimavinnuna í þessu máli. Það sem auðvitað er umhugsunarefni eins og ég sagði hérna áðan er hvort við ættum ekki að stíga skrefið til fulls. Ég get hins vegar alveg tekið undir að það er kannski skynsamlegt að þrepa sig niður vegna þessara reglna sem hafa gilt um allt of langan tíma og gert mönnum mjög erfitt fyrir varðandi breytingar og lagfæringar á skipum.

En eins og ég kom hér inn á áðan þá er þetta auðvitað stórmál fyrir íslenska sjómannastétt og við eigum auðvitað og okkur ber skylda til þess að búa svo að henni að öryggi og aðbúnaður sé í fyllsta máta eins og hann getur orðið bestur á hverjum tíma.