Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 16:58:24 (1937)

1996-12-09 16:58:24# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:58]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla hér aðallega að ræða 12. dagskrármálið, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sem við hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson flytjum. Markmið þessa frv. er að banna að mestu leyti framsal veiðiheimilda nema þegar um er að ræða skipti á jöfnum heimildum á þeim tegundum sem sæta aflamarki. Frv. er með öðrum orðum ætlað að koma í veg fyrir það takmarkalausa verslunarkerfi sem viðgengist hefur undanfarin ár og í daglegu tali er kallað kvótabrask.

Það hefur verið mikil og vaxandi óánægja með þetta verslunarkerfi á undanförnum árum og þá ekki síst á meðal sjómanna. Sú mikla óánægja hefur m.a. leitt til tveggja allsherjarverkfalla sjómanna sem töldu kjör sín skerðast vegna þess að þeir urðu nauðugir viljugir að taka þátt í að greiða kostnað vegna kvótaleigu þegar þessi kostnaður var dreginn frá aflaverðmæti áður en til skipta kom milli sjómanna og útvegsmanna. Nokkur slík mál hafa farið til dómsstóla en í síðustu samningum varð samkomulag um að koma á fót nefnd sem úrskurðaði í deilumálum sem rísa kunna út af ágreiningi af þessum toga. Það virðist þó því miður svo að þessi nefnd verði ekki langlíf, því dæmin sýna að aðilar sætta sig ekki við niðurstöður hennar.

Það er enginn vafi á að óánægja með ríkjandi fyrirkomulag á framsali veiðiheimilda mun halda áfram að vaxa ef ekki verður tekið á málum og kerfinu breytt. Það er staðreynd að framsalið hefur þróast með allt öðrum hætti en gert var ráð fyrir þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett. Þingmenn sem tóku þátt í að samþykkja þessi lög hafa sagt mér að það hefðu þeir aldrei gert ef þeir hefðu séð þessa þróun fyrir.

[17:00]

Það sést reyndar glögglega þegar lesnar eru ræður þingmanna frá þessum tíma að þeir sáu alls ekki fyrir að framsalið mundi þróast með þeim hætti sem orðið hefur. Framsalið var fyrst og fremst hugsað til hagræðingar, svo sem til skipta á veiðiheimildum t.d. þorski fyrir ýsu, karfa fyrir rækju o.s.frv., færslu heimilda milli skipa í eigu sömu útgerðar, eða þá óvæntra atvika eins og bilana eða skipskaða. En þær fjölmörgu aðferðir til að versla með óveiddan fiskinn í sjónum sem hafa þróast í kerfinu voru einfaldlega ekki inni í myndinni. Þegar kvótaverslunin er gagnrýnd af þeim sem telja hana hafa farið úr böndunum er svar aðdáenda kerfisins jafnan það sama: Frjálsa framsalið er undirstaða kerfisins, án þess er kvótakerfið einskis virði. Og út af fyrir sig er kannski erfitt að andmæla þeim hagfræðilegum rökum sem m.a. var byggt á við lagasetningu um frjálst framsal innan rammans um stjórn fiskveiða. Meiningin er svo sem ágæt en það sem hins vegar hefur brugðist þegar lögin voru sett er að undirbúningur hefur ekki verið sem skyldi og lögin urðu einfaldlega of götótt þannig að kvótaeigendum tókst að finna ýmsar leiðir til að gera veiðiheimildirnar að verslunarvöru.

Flutningur aflaheimilda er ótrúlega mikill. Í svari hæstv. sjútvrh. við fyrirspurn minni á Alþingi í haust, þessari myndarlegu bók sem sumir hafa nú haft á orði að væri óþarflega íturvaxin, kemur fram að hvorki meira né minna en 335.792 tonn voru flutt milli aðila á síðasta fiskveiðiári. Og þó að verulegur hluti þess séu skipti og færslur á heimildum milli skipa í eigu sömu útgerðar, þá er samt ljóst að gríðarlegar upphæðir hafa verið greiddar fyrir leigu og sölu kvóta á síðasta fiskveiðiári og það svo milljörðum skiptir. Ef skoðað er hvernig þessar færslur skiptast milli fisktegunda kemur í ljós að um er að ræða 52.168 tonn af þorski, 22.991 tonn af ýsu, 27.698 tonn af ufsa, 19.504 tonn af karfa, 11.679 tonn af grálúðu, 7.908 tonn af skarkola, 89.942 tonn af síld, 59.243 tonn af loðnu, 380 tonn af humri, 40.994 tonn af úthafsrækju, 520 tonn af innfjarðarrækju og 2.765 tonn af skel. Umreiknað í þorskígildi eru þetta 204.386 tonn en var rúmlega 162.000 tonn næsta fiskveiðiár á undan samkvæmt upplýsingum sjútvrn. og hafði því aukist um rúmlega 25% milli ára. Og þar munar mestu að færslur þorskveiðiheimilda jukust mjög eða um 43% milli ára.

Það má áætla að leiguverðmæti þess kvóta sem fluttur var milli aðila á síðasta fiskveiðiári hafi verið a.m.k. 10 milljarðar króna miðað við það leiguverð sem var á kvóta á fiskveiðiárinu. En það skal tekið skýrt fram að stærsti hluti þessara færslna eru skipti á fisktegundum og færslur milli skipa í eigu sömu útgerða. Menn greinir á um hversu hátt hlutfall framsalsins skýrist þannig en varlega má áætla að um 20--30% framsalsins séu bein viðskipti þ.e. leiga og sala á kvóta, þannig að beinar greiðslur vegna þessara viðskipta hafa verið a.m.k. 2--3 milljarðar kr. sem trúlega er of lágt áætlað því að hluti þessara viðskipta er varanleg sala sem er að sjálfsögðu á margfalt hærra verði en leigan.

Það eru tvímælalaust eigendur og sjómenn bátaflotans sem þetta hefur bitnað harðast á. Þessir bátar hafa yfirleitt ekki haft að öðrum verkefnum að hverfa á undanförnum árum þegar þorskveiðiheimildir þeirra hafa stórminnkað og þetta á reyndar einnig við um hluta ísfisktogaranna. Það er fyrst og fremst þessi floti --- vertíðarbátarnir og ísfisktogararnir --- sem hefur neyðst til að leigja og kaupa kvóta í stórum stíl og þá einkum af eigendum stærri skipanna sem hafa fundið sér ný verkefni, aðallega utan lögsögunnar, við veiðar á rækju, úthafskarfa, þorski og síld.

Því hefur verið haldið fram að ef bannað verður að leigja kvóta muni minni bátum fækka mjög, því kvótaleigan haldi þeim gangandi í dag. Ég er algjörlega ósammála þessu og bendi á að þeim bátum hefur stórfækkað á undanförnum árum og gömlu góðu vertíðarbátarnir eru nánast að hverfa úr flotanum. Það er auðvitað vegna þess að menn halda það ekki út ár eftir ár að gera út að stærstum hluta á kvóta sem þeir verða að leigja til sín og þá oftast á svipuðu verði og fæst fyrir fiskinn á markaði. Það er því alveg ljóst að þessum bátum mun halda áfram að fækka ef núverandi kerfi helst óbreytt. Verði þetta frv. að lögum munu þessir bátar væntanlega eiga möguleika á auknum kvóta þegar farið verður að endurúthluta þeim kvóta sem ekki veiðist og ekki verður þá hægt að versla með eins og gert er í dag. Kvótaskorturinn hefur pínt verðið upp jafnt á leigukvóta og varanlegum og það er auðvitað fáránlegt og getur alls ekki gengið að hægt sé að leigja óveiddan fiskinn í sjónum á hærra verði en fæst fyrir hann á markaði. En samt er það svo að menn hafa freistast til að borga 90--100 kr. leigu fyrir þorskkílóið eða svipaða upphæð og jafnvel hærri en fæst fyrir fiskinn á markaði.

Það var mjög athyglisvert að fylgjast með hversu hart talsmenn stórkvótaeigenda börðust gegn aukningu á þorskkvótanum þegar hæstv. sjútvrh. þurfti að ákveða hvort ætti að auka kvótann eða ekki um miðjan apríl í vor. Aukning kvótans hefði auðvitað leitt til þess að kvótaokrið hefði minnkað. Að sjálfsögðu er um gífurlega hagsmuni að ræða og svo sem ekkert óeðlilegt við það að þeir sem hafa aðstöðu til að fénýta veiðiheimildirnar verji sína hagsmuni með kjafti og klóm. Það sem er hins vegar óeðlilegt er að lögin um stjórn fiskveiða skuli gera mönnum kleift að braska með óveiddan fiskinn í sjónum eins og viðgengist hefur. Þetta kerfi er siðlaust og í engum takt við það sem segir í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða --- að auðlindir hafsins séu sameign þjóðarinnar.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur Ríkisendurskoðun úrskurðað að greiða beri erfðafjárskatt af fiskikvóta eða með öðrum orðum að kvóti skuli ganga í arf og Lagastofnun Háskóla Íslands hefur staðfest þessa niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Þessi úrskurður er kornið sem fyllir mælinn. Hann segir okkur að á fyrri hluta næstu aldar verður komin upp sú staða að einhver hópur erfingja verður orðinn eigandi að stórum hluta þessarar sameiginlegu auðlindar þjóðarinnar. Og þeir sem þá koma til með að gera út og sækja sjó munu verða að leigja réttinn til þess af þessum erfingjum. Mér finnst því ótrúleg sú skammsýni forustu útvegsmanna að vilja engar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Öll samtök sjómanna hafa hins vegar barist hart fyrir breytingum og sjá í hvert óefni er komið og að hverju stefnir. En þeim útgerðarmönnum fer að vísu fjölgandi sem sjá að óbreytt framsalskerfi getur ekki gengið og eru farnir að tjá sig um það opinberlega. T.d. birtist mjög athyglisvert viðtal við Sighvat Bjarnason, stórútgerðarmann í Vestmannaeyjum, í Ríkisútvarpinu 27. nóvember, þar sem hann sagði að kvótakerfið sem slíkt virkaði ágætlega en hann hafði áhyggjur af neikvæðri umræðu um það og taldi koma til álita að fórna frjálsa framsalinu til að komast út úr umræðunni um kvótakerfið. Þá yrði hætt öllum peningaviðskiptum með veiðiheimildir. Sighvatur taldi að vísu að þetta gæti dregið úr hagræðingu til styttri tíma en yrði tvímælalaust jákvætt til lengri tíma litið og gæti leitt til mikillar hagræðingar fyrir útgerðina.

Svipaðar skoðanir hef ég heyrt í samtölum við marga útgerðarmenn og það er trú mín að þetta kerfi hljóti að láta undan. Þjóðin mun ekki sætta sig við óbreytt ástand með öllum þeim aðferðum sem menn hafa þróað til að braska með fiskinn í sjónum og er svo kórónað með því að þessar veiðiheimildir skuli ganga í arf. Og það er auðvitað þjóðarskömm að því ef þetta kerfi festist endanlega í sessi. Kerfi sem byggist á því að veiðiheimildirnar sem voru afhentar útgerðinni án endurgjalds skuli vera verslunarvara og síðan ganga í arf.

Það er svo margt í þessu kerfi sem fólk skilur ekki og getur ekki sætt sig við. Ég tek sem dæmi sögu sem ágætur kunningi minn, harðduglegur sjómaður, sagði mér nýlega. Þannig var að skipið sem hann var á var selt og skipshöfnin varð atvinnulaus. Hann og skipstjórinn ákváðu þá að reyna að eignast bát sem þeir gætu stundað sjó á og gert út saman. Og nú fóru þeir að skoða báta sem voru til sölu og þá helst með einhverjum kvóta en það fór jafnan svo að þegar þeir fundu bát sem þeim leist á að einhverjir stórkvótaeigendur buðu betur og ekkert gekk eða rak. Þá fóru þeir að huga að því að kaupa kvótalausan bát og ætluðu þá að reyna að eignast kvóta eftir öðrum leiðum. Meðal þeirra báta sem þeir skoðuðu sl. vor var gamall trébátur sem átti að seljast á 22 millj. kr. Bátnum fylgdi ekki eitt einasta kíló af veiðiheimildum. Eigandinn hafði fyrir löngu selt þær allar og kvótinn var núll. Ekkert varð úr bátakaupunum í vor og tvímenningarnir fóru að róa á trillu en hófu aftur leit að stærri bát þegar leið á sumarið. Meðal þeirra báta sem voru í boði í haust var sami gamli trébáturinn en nú kostaði hann ekki lengur 22 millj. heldur 40 millj. Og hvað hafði nú gerst? Jú, línutvöföldunin hafði verið afnumin og kvóti settur á steinbít. Við þessar breytingar fékk útgerðarmaður gamla trébátsins, sem var með allt á hælunum og hafði selt allan kvótann af bátnum fyrir löngu, afhentan kvóta að verðmæti 18 millj. kr. til að braska með. Hálfum mánuði síðar var verðið á bátnum aftur orðið 22 millj. Eigandinn var þá að sjálfsögu búinn að selja allan kvótann.

Það er nú svo að það þykir jafnan fréttnæmt ef einhver vinnur 10--12 millj. í lottóinu og fjölmiðlar segja gjarnan frá því og birta jafnvel viðtöl við þann heppna og myndir af honum og fjölskyldu hans en það er lítið minnst á alla þá lottóvinninga sem kvótabraskarar fá og ég nefndi dæmi um. En venjulegt fólk skilur þetta ekki og sættir sig ekki við að breyting á kerfinu geti fært mönnum tugmilljóna hagnað þó að þeir hafi hvorki stundað sjó né gert út í háa herrans tíð en orðið stórríkir á að selja aðgang að sameign landsmanna, fiskinum í sjónum.

Það er önnur hlið á kvótabraskinu sem sjaldan er nefnd en vert er að íhuga. Það er hvernig þessi miklu viðskipti skila sér til skatts. Ég hitti útgerðarmann vestur á fjörðum nýlega sem gerir út kvótalítinn vertíðarbát. Hann hefur leigt til sín talsvert af kvóta en sagðist aldrei fá svo mikið sem kvittun hvað þá reikning fyrir þessum viðskiptum sem skipta mörgum milljónum á ári. Eina sem hann hefði í höndunum væri afrit af bankakvittunum sem sýndu að hann hefði lagt tiltekna upphæð inn á reikning einhvers manns í einhverju bankaútibúi einhvers staðar á landinu. Þessi maður hafði miklar efasemdir um að slík viðskipti skiluðu sér til skatts að fullu. Ekki skal ég leggja dóm á það og ekki vil ég ætla mönnum skattsvik en auðvitað er ótrúlegt að öll þau gríðarlegu viðskipti skuli fara fram nótulaust á sama tíma og gerð er krafa um að allir sem stunda einhvers konar verslun og viðskipti skrái þau annaðhvort með útgáfu reiknings eða gegnum sjóðsvélar. Og jafnvel þeir sem reka smá sölubás í Kolaportinu komast ekki hjá því. Ég tek það fram að mér finnst það reyndar sjálfsagt.

Herra forseti. Ég tel að við verðum að stöðva kvótabraskið. Hjá því verður ekki komist. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að það sé gert með því að bannað verði að fénýta kvótann en skipti á veiðiheimildum leyfð enda er stórkostlegt hagræði af þeim. Þetta frv. gengur út á að framsal aflaheimilda verði með þeim hætti sem þingmenn ætluðust til þegar lögin um stjórn fiskveiða voru sett. Og allir þeir braskmöguleikar sem menn hafa þróað í kerfinu verði afnumdir í eitt skipti fyrir öll. Eflaust munu menn koma í þessa umræðu með gamla frasann um að frjálsa framsalið sé undirstaða kerfisins og án þess sé kvótakerfið einskis virði. En sé það svo þá ber þetta kerfi einfaldlega feigðina í sér.

Um 13. dagskrármálið, sem einnig er til umræðu, vil ég taka fram að ég er sammála þeim breytingum sem þar eru lagðar til og hefði reyndar gjarnan viljað ganga lengra en þar er gert ráð fyrir. Ég er andvígur því að ríkið sé að stjórna því hvernig útgerðarmenn endurnýja skip sín og sé enga ástæðu til þess. Ég tel að það sé fyrst og fremst mál viðkomandi útgerðar hvernig hún hagar sínum skipakaupum og sinni útgerð. Þetta ákvæði sem er í lögum hefur bitnað mjög á eigendum loðnuskipa. Loðnuflotinn var að stærstum hluta orðinn mjög gamall. Endurnýjun hans er reyndar mjög aðkallandi. Loðnuflotinn hefur ekki náð að veiða leyfilegan afla ár eftir ár. Vegna þeirra reglna sem eru í gildi hafa menn veigrað sér við að endurnýja þessi skip en staðið í stöðugum endurbótum þess í stað á gömlu skipunum, lengt þau og breikkað og hækkað og stækkað á alla kanta. Gildandi lög hafa einnig komið í veg fyrir að menn leggi í að endurnýja vertíðarbátana. Sá floti eldist stöðugt og úreldist. Mér er kunnugt um bjartsýnismenn sem hafa hug á að endurnýja slíka báta en leggja ekki í það vegna gildandi úreldingarkröfu. Ég er því þeirrar skoðunar að þessum lögum verði að breyta hvort sem sú breyting verður nákvæmlega eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. eða ekki.

Ég vil að lokum taka undir allt það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í ræðu sinni um íslenskan skipasmíðaiðnað og er sammála því að íslensk smíði hafi ákveðinn forgang og hvatt sé til viðskipta við innlendar skipasmiðjur.

[17:15]