Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 17:15:33 (1938)

1996-12-09 17:15:33# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:00]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu og hv. flm. Guðmundur Hallvarðsson og Guðjón Guðmundsson hafa fylgt úr hlaði er auðvitað mikilvægur umræðugrundvöllur að máli sem mjög hefur verið til umfjöllunar upp á síðkastið innan sjávarútvegsins og utan hans. Það er auðvitað orðið ljóst að það framsalskerfi sem verið hefur við lýði í íslenskum sjávarútvegi hefur verið að ganga sér til húðar því að þó að það sé þannig að flestir telji að framsalskerfið sé á einhvern hátt grundvöllur núverandi aflamarksleiðar, þá hafa komið í ljós svo miklar skuggahliðar þessa kerfis að undan því verður ekki vikist að taka það til endurskoðunar. Það er ekki nóg með það, eins og fram hefur komið í máli hv. flm., að ýmis mjög einkennileg atvik hafi komið upp varðandi framsal aflaheimilda milli skipa innan ársins heldur eru ýmsir aðrir þættir kvótakerfisins sjálfs orðnir með þeim hætti að ég efast um að það geti gerst að þetta kerfi lifi óbreytt til frambúðar.

Mig langar aðeins að horfa til baka tvö ár aftur í tímann þegar við hér á Alþingi vorum að ræða frv. til laga um stjórn fiskveiða þar sem m.a. var gengið út frá því að takmarka með einhverjum hætti framsal aflaheimilda. Ég held að það sé rétt að við rifjum aðeins upp viðbrögðin sem urðu þá í þjóðfélaginu við þessari hugmynd, hugmynd sem gekk að sjálfsögðu miklu skemur en sú hugmynd sem reifuð er í frv. þeirra hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og Guðjóns Guðmundssonar, hugmynd sem gekk fyrst og fremst út á að reyna að tryggja það að þeir handhafar aflaheimildanna sem fengju úthlutað aflaheimildum á ári hverju yrðu þeir sem sæju um að veiða þessar aflaheimildir. Brattara var nú ekki markmiðið á þeim tíma.

Við skulum ekki gleyma því að í kjölfarið á frv. risu upp ótrúlega stórir hópar manna, studdir ótrúlega víða að úr þjóðfélaginu sem kröfðust þess að hæstv. sjútvrh. yrði gerður afturreka með þessa hugmynd. Það voru stofnuð óformleg samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi sem kölluðu sig atvinnumenn í sjávarútvegi og gáfu þar með til kynna að aðrir höfðu minna vit á hlutunum en þeir. Þeir lýstu því m.a. yfir í fjölmiðlum, eftir að hafa heimsótt sjútvn. Alþingis, að í nefndinni sætu upp til hópa menn sem þekktu óskaplega lítið til þess sem þeir væru að gera. Þeir væru óafvitandi nánast að rústa sjávarútveginn, koma í veg fyrir alla framtíðarþróun og koma í veg fyrir að hægt væri að hagræða með eðlilegum hætti í sjávarútvegi. Þetta var tónninn þá og þetta var sú lína sem virtist keyrð áfram í þjóðfélaginu og var því miður tekið mjög undir af talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna þáverandi á Alþingi.

Nú er komin reynsla og hefur auðvitað komið í ljós að allt þetta var tóm vitleysa, sú gagnrýni að skerðing á framsali aflaheimilda væri eitthvert sérstakt tilræði við sjávarútveginn. Allt þetta tal hefur reynst tómt bull, tóm vitleysa. Það sem hins vegar hefur gerst frá þessum tíma er að það hafa verið að koma upp það sem ég hef kallað skuggahliðar núverandi aflamarksleiða. Það er ekki nóg með það að menn eins og ég, sem hef frá öndverðu haft efasemdir um sjálfan grundvöll kvótakerfisins, hafi verið að gagnrýna þetta kerfi heldur hafa risið upp menn sem hingað til hafa talið sig vera talsmenn aflamarkskerfisins og sagt: Svona gengur þetta ekki lengur. Ég tek mjög undir það sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði áðan. Ég rekst víða á útgerðarmenn sem maður skyldi ætla að hefðu mikla hagsmuni af því að viðhalda aflamarkskerfinu sem segja við mann: Þetta gengur ekki svona lengur. Það er enginn starfsfriður í þessari grein meðan við búum við kerfi sem þjóðin er svona ósátt við og starfsfólkið í sjávarútveginum er svona ósátt við.

Róttækar hugmyndir eins og þær sem reifaðar eru í þessu frv. eru skyndilega farnar að fá meðbyr hjá aðilum sem maður hefði ekki getað ímyndað sér að mundu einu sinni skenkja því þanka að ganga til móts við sjónarmið um það að skerða framsalsréttinn í aflamarkskerfinu.

Einn þessara manna sem skipaði sér í hóp hinna svokölluðu atvinnumanna fyrir tveimur árum og gagnrýndi veikburða tilraunir til þess að takmarka örlítið framsal veiðiheimilda, Sighvatur Bjarnason, einn duglegasti útgerðarmaður á Íslandi, hefur sett fram í Morgunblaðinu mjög athyglisverð sjónarmið sem ég held að sé nauðsynlegt að komist til skila í þessari umræðu. Sighvatur kaus að skrifa tvær greinar um þá sérkennilegu hugmynd um veiðileyfagjald sem hefur örlað á upp á síðkastið og segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Umræðan um kvótakerfið og veiðileyfagjaldið er allt of oft samtvinnuð því um tvö ólík mál er að ræða að mínu mati.`` Síðan kemur setning sem er mjög athyglisverð og þarf að undirstrika: ,,Rót umræðunnar liggur hins vegar í kvótakerfinu.`` Og áfram heldur framkvæmdastjórinn: ,,Frjálst framsal aflaheimilda, sem er forsenda hagræðingar í greininni, hefur leitt til þess að nokkrir útgerðarmenn hafa brugðist sjávarútveginum og þjóðinni allri og leigt aflaheimildir frá sér en ekkert til sín. Þjóðinni hefur blöskrað framferði útgerðarmannanna. Fjölmiðlar hafa slegið þessu upp og alhæft um þessi einstöku viðskipti eins og um venju væri að ræða í viðskiptum útgerðarmanna. Þetta ber okkur í sjávarútveginum að stöðva. Til þess að svo megi verða þarf hugsanlega að fórna frjálsa framsalinu.`` Og áfram heldur Sighvatur Bjarnason: ,,Breyta mætti kerfinu á þann hátt að einungis yrði hægt að skipta á aflamarki (heimildir innan ársins). Þá væri að vísu stór hluti hagræðingarinnar til skemmri tíma fyrir bí. Til lengri tíma tel ég að þetta geti leitt til þess að skip með takmarkaðar aflaheimildir mundu leggja upp laupana. Aflahlutdeildir (varanlegar heimildir) færu til annarra skipa og skipum mundi fækka. Brottkast mundi einnig minnka því að það er ljóst að skip með takmarkaðar heimildir eru líklegri til þess að stunda brottkast en þau sem nægar heimildir hafa. Aflahlutdeildir yrðu hins vegar að geta gengið kaupum og sölum til þess að tryggja hagræðingu í greininni sem er mikilvægt þjóðfélagslegt mál.

Með þessu móti mundi verð á aflamarki ekki verða baksíðufrétt í Morgunblaðinu. Sannleikurinn er einnig sá að mjög takmarkaður hluti aflaheimilda er leigður fyrir peninga. Flestir skipta á heimildum, skipta á þorski fyrir síld, rækju fyrir karfa o.s.frv. Þetta hefur leitt til mikillar hagræðingar sem hefur skilað allri þjóðinni auknum tekjum í formi hagræðingar í greininni.``

Það er með öðrum orðum býsna mikið sem hefur breyst frá árinu 1994 þegar það var talið vera að kollsigla sjávarútveginum að setja dálitla þröskulda við framsali aflaheimilda. Nú er einn áhrifamesti talsmaður sjávarútvegsins farinn að tala fyrir því að banna beina leigu á kvóta innan ársins og taka eingöngu upp jöfn skipti og síðan varanleg skipti og sölu á aflaheimildum. Ég held að ástæðan fyrir því að menn eru farnir að horfa einnig á slíkar hugmyndir, menn sem forðum máttu ekki heyra á það minnst að hrófla við kvótakerfinu sjálfu, sé sú að menn sjá auðvitað að það er vaxandi andstaða við núverandi fyrirkomulag við stjórn fiskveiða. Mönnum blöskrar þetta óréttlæti sem er að birtast á hverjum degi með ýmsum hætti og sem á ekkert skylt við fiskveiðistjórnun, ekkert skylt við það að gera út eins og menn gerðu með heiðarlegum hætti í gegnum aldirnar. Þetta kerfi er að búa til einhvern veginn allt öðruvísi útgerðir heldur en við erum vön og viljum sætta okkur við og þess vegna kallar það í sjálfu sér á endurskoðun. Ég held þess vegna að frv. sem hér um ræðir, þó ég hafi um það ákveðnar efasemdir, þá sé mjög nauðsynlegt að við tökum það til umræðu, einfaldlega vegna þess að á grundvelli þess er hægt að fara ofan í þessi mál með betur og skipulegar heldur en gert hefur verið hingað til.

Í fyrsta lagi þarf að sjálfsögðu að skilgreina algerlega hversu stór hluti viðskipta með aflaheimildir er á grundvelli jafnra býtta eins og hv. flutningsmenn leggja til að verði heimilt og hversu stór hluti þessara viðskipta með aflaheimildir er á öðrum grundvelli. Það eru uppi um þetta tilgátur, en það á að reyna að komast að hinu sanna í þessu máli. Ég held að allir séu í rauninni sammála um að það er meginmunur á því hvernig þessi viðskipti fara fram, hvort þau fara fram á grundvelli jafnra skipta eða hvort þau fara fram á grundvelli sölu og leigu á kvótum eins og þau tíðkast að öðru leyti í þessu kerfi. Það er líka ljóst að kerfi af þessu taginu sem lagt er til í frv. gætu haft margvísleg áhrif sem við sjáum e.t.v. ekki nákvæmlega fyrir á þessari stundu hver yrðu. Fyrir það fyrsta er ekki alveg ljóst hvaða áhrif þetta hefði á ýmsa einyrkja. Það t.d. liggur alveg fyrir að staða útgerða sem eru með fleiri skip í svona kerfi eins og hér er verið að leggja til yrði á margan hátt sterkari en staða einyrkjanna vegna þess að hér er hægt að framselja innan útgerða með öðrum hætti heldur en menn gerðu á milli óskyldra útgerða. Þetta þyrftum við að átta okkur á til hlítar hvaða áhrif hefði. Það er ljóst, ef ég vitna nú aftur í grein Sighvatar Bjarnasonar, að hann telur í sjálfu sér það vera markmið að fækka skipunum með litlu kvótana. En við skulum ekki gleyma því að árið 1994 þegar við vorum að tala um þessi mál, þá var einmitt það atriði sem margir settu sig hvað mest upp á móti að þar með væri verið að takmarka frelsi þeirra útgerðarmanna sem hefðu tiltölulega lítil fjárráð og ættu litlar aflaheimildir. Þetta þurfum við að athuga til hlítar.

Í öðru lagi geri ég mér a.m.k. ekki grein fyrir því nákvæmlega hver yrði staða einstakra byggðarlaga að loknum svona breytingum. Það kunna að vera byggðarlög, þó að ég kunni ekki að nefna þau hér og nú, sem eru í þeirri stöðu að þeirra atvinnustarfsemi byggir að einhverju leyti á veiði skipa sem eru með litla kvóta og hafa verið að leigja til sín aflaheimildir. Dæmi um þetta eru t.d. útgerðir á Suðurnesjum, sem hafa stundum verið nefndar til sögunnar, sem hafa verið að leigja til sín miklar aflaheimildir í tonni á móti tonni viðskiptum eða með öðrum hætti og það er ljóst að þeirra grundvöllur yrði allur annar og lakari eftir þetta.

Í þriðja lagi, sem ég sjálfur legg mjög mikla áherslu á, er það hver yrðu líklega áhrifin af þessari breytingu á verðlagningu fastakvótans. Ég er þeirrar skoðunar að í verðlagningu fastakvótans eins og hann er í dag sé fólgin óskapleg feigð fyrir þennan sjávarútveg. Menn eru að benda á óeðlilega hækkun á aflaheimildum skipa sem veldur því að menn sem eiga skip kannski í eitt ár eru að fá ekki tugi heldur jafnvel hundruð milljóna í söluhagnað af þessum skipum. Þetta er auðvitað ekkert í samræmi við neitt annað sem er að gerast í þessu þjóðfélagi. Þess vegna er það mjög þýðingarmikið að við áttum okkur á því hvort breyting af þessu taginu gæti haft áhrif til enn meiri hækkunar á varanlegar aflaheimildir.

Ég held hins vegar að kosturinn við það að þetta frv. er komið fram sé m.a. í því fólginn að það muni kalla á vinnu í sjútvn. Alþingis. Það muni kalla á það að eftir verði leitað með nauðsynlegar upplýsingar og menn taki þá skipulega umræðuna um kvótabraskið sem svo mjög hefur verið til umfjöllunar í samskiptum sjómanna og útgerðanna.

Á þessum vetri munu verða gerðir sjómannasamningar og það er alveg ljóst að grundvöllurinn í þeirri samningagerð verður afstaðan til fiskveiðistjórnunarkerfisins. Það verður ekki þessi hefðbundna deila um kvótakerfi og ekki kvótakerfi. Það verður heldur hitt að sjómenn eru þeirrar skoðunar að svo mikið vaxandi óréttlæti viðgangist í þessu kerfi að það verði ekki undan því vikist að taka á því með einhverjum hætti. Ég held því að það sé alveg ljóst að við slíka samningagerð mun löggjafinn, mun Alþingi, með einhverjum hætti þurfa að koma, ekki með beinu inngripi í sjómannasamningana heldur til þess að skapa þann lagalega ramma sem gæti orðið til þess að búa til einhvern frið í þessari mikilvægustu atvinnugrein okkar þjóðar. Þess vegna fagna ég því að þetta frv. er komið fram þó að ég hafi vissulega um það efasemdir eins og ég sagði áðan. Ég tel hins vegar að það sé svo skrifað á vegginn að undan því verði ekki vikist að taka fiskveiðistjórnarkerfið til endurskoðunar og umræðu að það sé fagnaðarefni út af fyrir sig að sjá frv. af þessu taginu koma fram þar sem er þó tekið til efnislegrar umfjöllunar eitt þeirra atriða sem hvað mest stingur í augu við framkvæmd núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.