Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 09. desember 1996, kl. 17:50:48 (1942)

1996-12-09 17:50:48# 121. lþ. 37.12 fundur 67. mál: #A stjórn fiskveiða# (framsal veiðiheimilda) frv., 108. mál: #A stjórn fiskveiða# (úrelding fiskiskipa) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:50]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. sem ég fagna mjög að er komið fram í hv. Alþingi. Það er mjög tímabært að rætt sé um það kerfi framsals sem hefur verið á aflaheimildum á undanförnum árum.

Í upphafi aflamarkskerfisins voru engir framsalsmöguleikar til staðar eins og flestir vita. Þá þótti mönnum kerfið þrengja verulega að sér þannig að ýtrustu hagkvæmni væri erfitt að ná vegna þess hversu menn voru bundnir af því að fiska upp í sínar tegundir þó svo lítið væri eftir og kannski ekki forsenda fyrir því að fara á sjó. Það var því með hag útgerðarmanna í huga, og við skulum segja þeirra sem lifa af útgerð, að menn fóru út í að heimila framsal aflaheimilda svo að betur gengi að hagræða innan útgerðarinnar þannig að hún hefði betri möguleika á öðrum sviðum.

Framsalið hefur að mörgu leyti opnað fyrir möguleika sem menn sáu ekki fyrir en hafa skapað, ekki bara útgerðinni heldur þjóðarbúinu öllu og þeim sem við sjávarútveg vinna, mjög mikla arðsemi og möguleika. Það hefur fært ýmsum svæðum sem hafa tapað stórum hluta af sínum aflaheimildum aðra möguleika til að standa í útgerð og sjómennsku sem þeir hefðu ekki haft ef þessir möguleikar væru ekki til staðar.

Ég hef áður nefnt á hv. Alþingi þær tölur sem liggja fyrir hjá Fiskistofu um framsal milli kjördæma á síðasta fiskveiðiári. Þar kom fram að til Reykjaneskjördæmis voru keypt á síðasta fiskveiðiári um 17 þús. tonn umfram það sem var selt þaðan. Þetta eru gríðarlega háar tölur og ef við lítum á þá sem hafa selt frá sér aflaheimildir, þá er Norðurland eystra hæst með yfir 10 þús. tonn umfram það sem þeir keyptu, Norðurland vestra með um 8 þús. tonn og Vestfirðir eru með sömu tölu umfram það sem þeir keyptu. Þessi þrjú kjördæmi hafa því selt umtalsvert af sínum aflaheimildum frá sér. Ég hef ekki kannað nákvæmlega hvers vegna þeir selja svona mikið frá sér en eigi að síður hafa þeir séð sér hag í því.

Þetta mikla framsal hefur opnað fyrir úthafsveiði sem við höfðum haft fyrir framan augun á okkur jafnvel áratugum saman, eins og á Reykjaneshrygg, þar sem erlendir aðilar höfðu stundað karfaútgerð með mjög góðum árangri án þess að Íslendingar litu yfirleitt við því að reyna fyrir sér á þeim slóðum. Eftir að framsalið var heimilað hafa menn nýtt sér þetta af miklum áhuga og hægt er að segja að þá fyrst hafi verið farið yfir strikið þegar við komumst inn í þessa miklu veiði. En eigi að síður er okkar hlutur þó einhver þegar farið er í að skipta úthafsveiðinni milli landa sem annars hefði ekki verið neinn með sömu sóknarþyngingu sem fyrirsjáanleg var af öðrum þjóðum.

En öllu því sem gert er fylgir þó eitthvað sem óæskilegt er þegar litið er til heildarinnar og því verður ekki á móti mælt að ýmislegt hefur komið upp í sambandi við framsalið sem ekki er hægt að verja. Þess vegna vil ég að mörgu leyti taka undir það sem kemur fram í þessu frv. Með frv. er verið að reyna að taka á slæmum tilvikum sem komið hafa upp á undanförnum tveimur árum fyrst og fremst, þar sem þetta mjög svo óhefta framsal hefur leitt af sér ýmislegt sem engum datt í hug, eins og oft vill verða þegar menn skoða hlutina ekki nógu vel fram í tímann. Komið hefur á daginn að við sem lögðum hinu svokallaða kvótakerfi lið súpum seyðið af því í dag.

Ég vil nefna fyrst og fremst tvö atriði sem hafa skorið í augun. Það er atriði sem hefur komið fram hér í dag þ.e. að áhafnir skipa hafa verið látnar taka þátt í kvótakaupum. Í mínum huga er alveg ólíðandi að útgerðarmenn skuli hafa farið út í slíkar aðferðir og sýnir einfaldlega hvað þeir eru í sjálfu sér sveltir af aflaheimildum en eigi að síður sýnir það líka hvað menn teygja sig langt í aflaframsalinu og þessum kaupum þegar svona kerfi eru búin til á annað borð. Útgerðarmenn hafa einnig leyft sér að selja frá sér aflaheimildirnar jafnvel árum saman án þess að fara nokkurn tímann á sjó, eftir því sem mér er sagt, og komið með einhverjum loftfimleikum afla sínum fyrir með því að láta aðra veiða hann fyrir sig þótt hann sé skráður á þeirra eigin skip. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að slíkt hafi getað gerst. Mér er sagt að slíkt hafi gerst --- að þeir sem hafi átt að veiða 50% af aflaheimildum sínum annað hvort ár hafi ekki þurft að gera það. Þetta er náttúrlega ólíðandi með öllu og sýnir okkur hversu nauðsynlegt er í rauninni að kippa þarna í spottann með einhverju móti.

Umræður um þetta svokallaða kvótabrask fengu náttúrlega nýja vængi þegar línutvöföldunin var afnumin á þinginu í fyrra og þarf ekki að orðlengja meira um það. Ég hef margoft lýst yfir mikilli óánægju minni með að það skyldi hafa verið gert. Verður maður að furða sig á því að þeir hv. þm. sem hafa komið í ræðustól á undanförnum dögum og hafa haft áhyggjur af landvinnslunni voru þeir sömu sem lögðu hvað harðast að sjútvn. að samþykkja afnám línutvöföldunar. En línutvöföldunin var einmitt það útgerðarform sem hafði skapað langmestu landvinnsluna á þeim tíma sem nú fer í hönd þ.e. yfir tímabilið frá nóvember til febrúar.

Með frv. er verið að gera tilraun til að taka á þessu, eins og ég hef sagt. Frumvarpið er þó kannski einum of afdráttarlaust þannig að með löggildingu þess værum við að koma í bakið á þeim kjördæmum sem hafa verið að reyna að bæta sér upp slæma kvótastöðu með því að geta keypt upp aflaheimildir eða leigt aflaheimildir frá öðrum svæðum samanber Reykjaneskjördæmi eins og ég minntist á áðan.

Það er reyndar gert ráð fyrir því í frv. þeirra hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar og Guðmundar Hallvarðssonar að heimilt sé að framselja á milli skipa innan sömu útgerðar og milli skipa með afla á móti afla, ekki kaup. Ég tel að þetta gæti leitt til þess að skip eða stærri útgerðir mundu einfaldlega kaupa sér önnur skip til að ná þeim afla sem þau hafa til úthlutunar frekar en að missa hann frá sér. Það mundi þýða að í Reykjaneskjördæmi, ef við tökum það sem sérstakt dæmi, mundi missa þann afla sem þangað hefur þó verið keyptur. Ég held líka að slíkt mundi geta leitt til þess að menn mundu fara út í óhagkvæmari veiði en þeir hafa hingað til gert með því að veiða þessa slatta sem fylgja hverri veiðitegund án þess að hafa nokkurn hag af því og þar með missa þann möguleika að geta selt hann frá sér fyrir einhvern pening og komið öðrum kjördæmum til góða sem hafa sannanlega þörf fyrir þessar aflaheimildir.

[18:00]

Ég held því að ekki sé ráðlegt að ganga svona langt en fagna því að byrjað er að ræða þetta og vildi leggja inn í þá umræðu hugmyndir sem hafa svo sem verið ræddar áður en mér finnst þurfa að koma fram aftur, þ.e. við mundum hugsanlega ná þessum markmiðum með því að takmarka framsalið við helming úthlutaðra aflaheimilda á hverju ári, þ.e. að útgerðir verði að veiða á hvert skip a.m.k. helminginn af öllum þeim aflaheimildum sem þau fá úthlutað á hverju ári, en ekki annað hvert ár. Ég teldi að það væri a.m.k. góð byrjun til að ná tökum á þeirri miklu framsalsöldu sem hefur náð sér á skrið. Ég mundi einnig segja að sú tillaga sem Landssamband íslenskra útvegsmanna kom með fyrir ári síðan um að einstök skip mættu ekki kaupa meira en sem næmi eigin úthlutun eða tvöfaldað sinn veiðimöguleika, gæti líka verið allrar athygli verð og full ástæða til að kanna þann möguleika betur. Það mundi að sjálfsögðu þýða að kvótalitlir bátar ættu minni möguleika en það mundi jafnframt þýða að í sambandi við þá nauð sem hefur rekið suma útgerðarmenn til þess að fá sjómenn til að taka þátt í kvótakaupum, að þeir mundu annaðhvort hætta útgerð eða draga stórlega úr því að fá sjómenn inn í þessa verslun sína.

Ég vænti þess að í vinnunni sem fer fram í hv. sjútvn. verði þessar hugmyndir allar skoðaðar og vonast til þess að við ræðum þær aftur við 2. umr. á hv. Alþingi sem ekki mun af veita því sífellt eru ný og ný dæmi að koma upp.

Mig langaði aðeins að ræða um frv. sem lagt var fram af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni o.fl. um úreldingu fiskiskipa. Ég fagna því frv. einnig því ég tel að þar sé hreyft mjög þörfu máli sem hefur oft komið inn á þingið áður. Ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram frá öðrum þingmönnum um að þar sé kannski ekki gengið nægjanlega langt í að opna þetta ákvæði. Þó svo að um jákvætt skref sé að ræða þá er ég einn af þeim sem telja að í rauninni sé tímabært að fara að ganga alla leið undir því aflamarkskerfi sem við höfum í dag. Ég geri ráð fyrir því að það verði við lýði áfram svo fremi að menn nái tökum á þessu aflaframsalsmáli og fari ekki að slysast með einhver önnur vandræðamál inn í þetta, þ.e. að þá verði aflamarkskerfið það fiskveiðistjórnunarkerfi sem við komum til með að vinna eftir á næstu árum og jafnvel lengur, jafnvel áratugum. Það þýðir í mínum huga að við erum og verðum að treysta því að útgerðarmennirnir sjálfir sjái hvernig hagkvæmast er fyrir þá að stjórna veiðinni sem þeim er úthlutað árlega. Mér finnst það ekki vera stjórnvalda að velta því fyrir sér hvort viðkomandi er að ná því á 100 tonna skip eða 500 tonna skip. Mér finnst að það eigi að vera á ábyrgð þeirra útgerðarmanna sem hafa fengið þessa aflahlutdeild og að þeim sé að sjálfsögðu þar að auki gert kleift að mæta þeim miklu kröfum sem nú eru, eins og varðandi gæði afla, aðbúnað um borð í fiskiskipum og ekki hvað síst að gera skipum sem nú stunda úthafsveiðar mögulegt að bæta aðbúnað manna sem í mörgum tilfellum er mjög ómanneskjulegur og gera þessum skipum einnig kleift að sækja afla á enn fjarlægari mið en nú, því í sannleika sagt eru úthafsveiðiskipin okkar of smá ef eitthvað er.

Þau rök sem hafa komið gegn því að heimila algjört frjálsræði hvað þetta varðar eru að það muni aukast mjög að afla verði hent fyrir borð og menn muni fara að velja meira úr aflanum en þeir hafa gert hingað til. Í mínum huga eru þetta ekki haldbær rök því að það er alveg ljóst að enn er í fullu gildi að afli per togtíma eða afli á sóknareiningu er grundvöllur hagkvæmni útgerðarinnar. Og ef farið er að henda sífellt meiri afla eftir því sem skipin stækka hlýtur það einfaldlega að þýða að ekki verður hægt að gera út. Á þessum stóru skipum standa menn yfirleitt ekki frammi fyrir því að aflinn sé mjög misjafn sem kemur inn fyrir borðstokkinn. Ég hafna því þeim rökum að frjálsræði í þessum efnum muni þýða meira brottkast afla.

Ég hafði í hyggju í síðasta mánuði að leggja fram frv. sem í fælist að heimila útgerð frjálsræði í skipakaupum og skipasmíðum ef hún hefði á annað borð veiðileyfi og eitthvert aflamark. Ég hætti aftur á móti við það eftir að hafa talað við hæstv. sjútvrh. um málið. Hann tjáði mér að hann hefði hugsað sér að í byrjun desember yrði skipuð nefnd á vegum hans sem mundi fara ofan í úreldingarmál fiskiskipa og að þeirri nefnd yrði falið að ljúka því máli á næsta ári, við skulum segja fyrir þinglok í vor. Þannig að ef svo fer sem mér sýnist eru þessi mál strax komin á góðan rekspöl og það frv. sem við ræðum nú frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og fleirum mun að sjálfsögðu verða mjög gott innlegg í þá umræðu. Menn munu væntanlega eftir þá vinnu geta komist að niðurstöðu sem mun nýtast okkur í frumvarpsformi sem yrði lagt fyrir hv. Alþingi.