Breytingar á lögum um LÍN

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 13:35:57 (1945)

1996-12-10 13:35:57# 121. lþ. 38.91 fundur 136#B breytingar á lögum um LÍN# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins og hafði hugsað mér að leggja spurningar fyrir hæstv. menntmrh. og/eða hæstv. forsrh. sem varða eitt af mikilsverðum málum sem væntanlega þurfa að hljóta einhverja afgreiðslu á þingi fyrir jólaleyfi.

Eins og kunnugt er hafa staðið deilur milli stjórnarflokkanna um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og hafa þær heldur harðnað ef eitthvað er núna síðustu vikurnar. Fyrir nokkrum dögum, herra forseti, var umræða á Alþingi utan dagskrár um málefni lánasjóðsins sem aðallega er minnisstæð fyrir fjarveru Framsfl. sem við önnur tækifæri hefur hins vegar miklar skoðanir á lánasjóðsmálinu eins og kunnugt er. Síðan hefur það borið til tíðinda að hæstv. forsrh. hefur blandað sér í málin. Haft er eftir honum í fjölmiðlum að lausn muni finnast á þessu máli innan tíðar og fela í sér m.a. einhvers konar samtímagreiðslur námslána, ef ég hef tekið rétt eftir, herra forseti.

Sömuleiðis er ein af meginkröfum námsmanna í þessari endurskoðun á málefnum lánasjóðsins að draga úr endurgreiðslukröfum eða endurgreiðslubyrðinni. Ljóst er að breytingar af því tagi kalla á breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra og beini ég máli mínu til hæstv. forsrh. úr því að hæstv. menntmrh. er ekki til staðar, enda hefur hann tekið málið að sér ef svo má að orði komast eins og stundum gerist og er orðinn eins konar yfirmenntmrh.: Hvenær er að vænta niðurstöðu í þessu máli, hæstv. forsrh., og hvenær mun frv. um nauðsynlegar breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna líta dagsins ljós hér á þingi?