Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 13:45:34 (1952)

1996-12-10 13:45:34# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þegar ég óskaði eftir umræðu utan dagskrár um ofbeldi meðal ungmenna var hugsun mín sú að kalla eftir því hvort ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við alvarlegum ofbeldisverkum unglinga og þá hvernig. Umræða á Alþingi um ofbeldi er aðkallandi þó bylgja skelfingar úti í þjóðfélaginu hafi hjaðnað í bili.

Það vekur óhug allra þegar unglingur særir jafnaldra sinn lífshættulega með hnífsstungu. Unglingar ráðast ógnandi inn á félaga sinn í Grafarvogi, brjótandi og bramlandi innanstokksmuni. Þegar það mál er skoðað nánar kemur í ljós að forsprakkinn, 16 ára gamall, hefur gengið berserksgang í borginni í níu mánuði og hefur verið handtekinn ellefu sinnum vegna líkamsárása og hótana, í flestum tilfellum vopnaður hnífi. Þetta eru því miður ekki einu tiltæku dæmin um alvarlegt ofbeldi meðal ungmenna síðustu missirin en þau eru næst okkur í tíma. Vaxandi ofbeldi er mikið áhyggjuefni. Ofbeldi getur verið tjáning eða ákall og aukið ofbeldi vekur áleitnar spurningar. Umræðan hefur dregið fram ágalla á okkar löggjöf. Hún leiðir líka í ljós ákveðið úrræðaleysi barnaverndaryfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og lögreglu.

Árásarhneigð greinist strax í æsku. Ef alvarlegar hegðunartruflanir barna eru ekki meðhöndlaðar er hætta á að einstaklingur leiðist síðar út í ofbeldi, afbrot og andfélagslega hegðun. Þetta hefur m.a. komið fram hjá yfirlækni barna- og unglingageðdeildar. Barna- og unglingageðdeildin er eina úrræði sinnar tegundar hérlendis og er hún talin tíu sinnum of lítil. 70 börn eru þar á biðlista. Breytingar eru fyrirhugaðar og rætt hefur verið um að loka deildinni á nóttunni. Fyrr á árinu tilkynnti deildin að hún gæti ekki tekið við fleiri börnum með einhverfu þrátt fyrir að þau greinist nú fleiri en áður.

Á síðustu fjárlögum var veitt 12 milljón kr. fjárveiting til barna- og unglingageðdeildar til að koma á sérstakri upplýsingamiðstöð fyrir aðstandendur ungra vímuefnaneytenda. Samkvæmt skriflegu svari frá heilbrrh. við fyrirspurn minni um það mál er útilokað að upplýsingamiðstöðin hafi tekið til starfa. Ráðnir voru fleiri sérfræðingar, en opnun upplýsingamiðstöðvar hefur ekki enn þá verið kynnt. Álykta má að fjármagnið hafi runnið til nauðsynlegrar starfsemi deildarinnar.

Herra forseti. Fyrir tveimur til þremur vikum fannst 12 ára barn uppdópað á hóteli og var talið að barnið þyrfti læknismeðferð og vistun strax. Barna- og unglingageðdeildin treysti sér ekki til að taka við því. Bráðadeildir spítalanna standa ráðþrota því að börn í alvarlegu vímuástandi eiga ekki samastað í heilbrigðiskerfinu. Lögregluyfirvöld standa úrræðalaus gagnvart ofbeldisverkum barna og unglinga. Réttarstaða þeirra er ekki skilgreind. Samkvæmt barnasamningi Sameinuðu þjóðanna mega ungir afbrotamenn að 18 ára aldri ekki afplána með fullorðnum afbrotamönnum en það eru einu úrræðin hérlendis fyrir sjálfráða ungmenni 16--18 ára. Lengst af hafa tveir til þrír unglingar verið dæmdir til afplánunar hér á ári hverju, en sl. tvö ár hefur sú tala tvöfaldast. Engin lagaákvæði er að finna um skyldu lögreglu varðandi börn og rannsókn mála, hvorki um að upplýsa mál að fullu né um skyldur gagnvart barni sem liggur undir grun. Barnaverndarlögin fjalla fyrst og fremst um börnin sem þolendur en að mjög litlu leyti sem gerendur. Það vantar heimildir til að grípa til aðgerða og stöðva síbrotaunglinga.

Forstjóri Barnaverndarstofu hefur bent á að barnaverndarnefndir skorti skýrar leikreglur og afskipti þeirra af málum vegna afbrota barna og unglinga verði að vera skýrari. Kveða verði nánar á um formlega málsmeðferð og þær skyldur er varða stuðning við afbrotabörn.

Það er ekki hægt að taka ósakhæf börn úr umferð nema með samþykki foreldra, jafnvel þó þau valdi manndrápi. Ef foreldrar neita að afbrotabarn sé vistað, þá eru ekki lagaheimildir til að rísa gegn vilja foreldranna. Þess vegna er sá möguleiki sem opnaðist með tilkomu Stuðla, að foreldri geti dvalist með barni sem vistað er, bæði brýnt og gott úrræði. Það er þörf á sérstökum meðferðarúrræðum fyrir 16--18 ára síbrotaunglinga með það að markmiði að ekki komi til fangelsisafplánunar. Leið til úrbóta er að hækka sjálfræðisaldurinn í 18 ár. Það mundi hjálpa yfirvöldum að grípa inn á réttum tíma og auðvelda á allan hátt meðferð þessara mála. Ég spyr forsrh., félmrh. og heilbrrh. um afstöðu þeirra til hækkunar sjálfræðisaldurs.

Virðulegi forseti. Það er ógæfa þegar börn lenda á braut ofbeldis og afbrota. Það er ekki hægt að ætlast til að foreldrar axli þá ábyrgð að meta hvað barninu er fyrir bestu þegar sú ógæfa dynur yfir. Ég spyr hvað ríkisstjórnin ætli að gera í þessum málum og hvaða lagabreytingar séu fyrirhugaðar til að bæta úr brýnum vanda.