Ofbeldi meðal ungmenna

Þriðjudaginn 10. desember 1996, kl. 13:58:13 (1955)

1996-12-10 13:58:13# 121. lþ. 38.95 fundur 135#B ofbeldi meðal ungmenna# (umræður utan dagskrár), SP
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur

[13:58]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Umræða um ofbeldi verður æ háværari í íslenskum fjölmiðlum og þjóðfélagi og þar er mest áberandi ofbeldi unglinga. En er um að ræða vaxandi ofbeldi unglinga? Samkvæmt upplýsingum frá forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík hefur tilkynntum ofbeldisverkum meðal unglinga ekki fjölgað upp á síðkastið, en svo virðist sem ofbeldið sé orðið harðara en það var. Nú er sparkað og kýlt meira og lengur en áður var og ofbeldið virðist hafa færst neðar í aldurshópa. Hófst þessi þróun í kringum árið 1990 og virðist sem ofbeldið komi í bylgjum.

Ofbeldið tengist enn fremur aukinni ávana- og fíkniefnaneyslu ungs fólks og þetta er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni. Foreldrar og allur almenningur hefur að sjálfsögðu þungar áhyggjur af þessari þróun og verða þær skoðanir æ háværari að refsingar við alvarlegum ofbeldisverkum beri að herða. Dómar fyrir alvarlegar líkamsárásir virðast þó ekki alltaf endurspegla þetta viðhorf og spurningin um lágmarksrefsingu við alvarlegum líkamsárásum kemur upp í hugann. Ýmislegt hefur verið gert á hinu háa Alþingi til þess að taka á þessum málum og má þar nefna ný lögreglulög sem samþykkt voru á síðasta þingi og má gera ráð fyrir því að sú lagabreyting og enn fremur breyting á lögum um meðferð opinberra mála muni bæði spara vinnu og gera refsivörslukerfið mun skilvirkara en það var.

Í byrjun þessa árs ákvað dómsmrh. að hrinda af stað sérstöku átaki í ávana- og fíkniefnavörnum þar sem rannsaka skyldi ýmsa þætti sem lúta m.a. að viðurlögum og meðferð ákæruvalds og dómstóla, forvarna- og meðferðarúrræða. Skilaði verkefnisstjórnin tillögum í sumar og hafa þær verið kynntar allshn. og þegar er byrjað að vinna í þeim af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Á vegum dómsmrn. er nú unnið að endurskoðun lögræðislaga og mun frv. þar um verða lagt fram innan tíðar eins og hæstv. forsrh. skýrði frá áðan og einnig er starfandi nefnd á vegum félmrn. er vinnur að endurskoðun laga um vernd barna og ungmenna og fyrir dyrum stendur (Forseti hringir.) heildarendurskoðun þeirra laga.

Loks er í undirbúningi í dómsmrn. frv. til nýrra vopnalaga þar sem m.a. verður kveðið á um meðferð vopna með mun víðtækari hætti en gert hefur verið, m.a. fjallað um hnífa og önnur eggvopn. Þá hefur hæstv. dómsmrh. lýst því yfir að endurskoða þurfi hegningarlög og fyrir allshn. liggur nú frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum (Forseti hringir.) vegna samnings Sameinuðu þjóðanna um átak gegn fíkniefnum.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að margt fleira mætti segja um þessi mál. Það má minna á stefnu ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum þar sem koma fram mjög ítarlegar upplýsingar. Það er alveg ljóst að það þarf að skoða ýmis vistunarúrræði barnaverndaryfirvalda og athuga sérstaklega stöðu síbrotaunglinga.